Barnasjónvarp

126. fundur
Fimmtudaginn 11. mars 1993, kl. 12:30:08 (5932)


     Fyrirspyrjandi (Gunnlaugur Stefánsson) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. svörin og þær upplýsingar sem hér hafa að auki komið fram. En ég hef verulegar áhyggjur af því ef Stöð 2 á að ráða uppeldis- og menntastefnu Ríkisútvarpsins. Að Ríkisútvarpið ætli sér að hafa það að grundvallarreglu og markmiði að gera alltaf nákvæmlega eins og Stöð 2. Ég spyr um sjálfstæði Ríkisútvarpsins. Það er kannski kominn tími til að spyrja: Ætlar t.d. Ríkisútvarpið, sem virðist hafa mjög miklar áhyggjur af því að allir eigi að fá að sjá það sama og er á Stöð 2, að tryggja það að ég fái yfir höfuð að sjá Stöð 2 þar sem ég á heima og þar sem Stöð 2 næst ekki? Og það væri ástæða til þess að spyrja hæstv. menntmrh. hvernig hann ætli að tryggja að svo geti orðið í þágu Ríkisútvarpsins.
    30 millj. kr. eru vissulega miklir peningar og ég set spurningarmerki við það hvort þeim sé best varið með þeim hætti að rjúfa þann heimilisfrið sem hefur verið afar dýrmætur á laugardags- og sunnudagsmorgnum ( SvG: Ekki á Akranesi.) og ég held að sé einmitt í þágu þess að efla fjölskylduböndin.
    Þá hefur það einnig komið fram í fjölmiðlum að þessir fjármunir eru teknir að láni. Þetta er fjármagnað m.a. með því að auka á yfirdráttarreikning Ríkisútvarpsins sem var 167 millj. um áramót. Er það stefna Ríkisútvarpsins að þenja út dagskrá sína og fara svo hratt í samkeppnina við Stöð 2 að það þurfi að gera með sívaxandi lánum? Þurfum við þá ekki að beita Ríkisútvarpið sömu kröfum og við erum að gera t.d. með sjúkrahúsin og sjúklingana í landinu?