Barnasjónvarp

126. fundur
Fimmtudaginn 11. mars 1993, kl. 12:32:17 (5933)

     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Ég tek undir það með hv. þm. að ég vil í lengstu lög koma í veg fyrir að Ríkisútvarpið lendi í sömu hremmingum og spítalarnir. Ég segi það alveg eins og er. Þá er ég að hugsa um hæstv. heilbrrh. Það væri voðalegt til þess að vita.
    En mér finnst hafa komið fram í máli hv. þm. og hv. 3. þm. Vestf. og fleiri hér reyndar, að Ríkisútvarpið eigi að vera afgangsstærð. Ríkisútvarpið eigi ekki með myndugum hætti að geta tekið þátt í þeim veruleika sem er hér í kringum okkur og hver er hann? Hann er samkeppni. Og að banna Ríkisútvarpinu að taka þátt í samkeppninni er í raun og veru að segja: Ríkisútvarpið þrengir svo að sér að það getur ekki sinnt þeirri almennu þjónustu sem því er að öðru leyti ætlað að gera. Það er rangt að Ríkisútvarpið hafi tekið þessa peninga af rekstri og stofnað til yfirdráttar út af þessum fjármunum. Það er beinlínis rangt. Ríkisútvarpið hefur skorið niður aðra hluti á móti þeim kostnaði sem hér er um að ræða.