Stálvinnslan hf.

126. fundur
Fimmtudaginn 11. mars 1993, kl. 12:46:38 (5942)

     Fyrirspyrjandi (Svavar Gestsson) :
    Virðulegi forseti. Um nokkurt skeið hefur verið veruleg óvissa varðandi rekstur og starfsemi Íslenska stálfélagsins. Fyrirtækið varð gjaldþrota. Þar mun vera um að ræða eitthvert stærsta gjaldþrot sem orðið hefur hér á landi. Fyrirtæki, sem kostaði um 2 milljarða kr., reyndist standa svo illa að það töpuðust langt til allir þeir peningar eða um 90% af þeim fjármunum. Það munu aðallega hafa verið erlendir bankar sem áttu kröfur í bú Íslenska stálfélagsins. Innlendir kröfuhafar voru aðallega Iðnþróunarsjóður og Búnaðarbankinn. Þegar það lá fyrir að fyrirtækið lagði niður störf var ljóst að það var mikil vá fyrir dyrum vegna þess að þetta er mjög brýnt fyrirtæki. Þetta er í margföldum skilningi mikið þjóðþrifafyrirtæki.
    Viðræður munu hafa farið í gang við Búnaðarbankann og Iðnþróunarsjóð. Mér er ekki kunnugt um hvernig þær standa nákvæmlega og beini spurningu til hæstv. ráðherra um það sérstaklega. En bæjarstjórn Hafnarfjarðar og verkalýðsfélögin í Hafnarfirði og Iðja, félag verksmiðjufólks í Reykjavík, hafa sýnt þessu máli mjög mikinn áhuga og ýtt á eftir því að starfsemi færi af stað að nýju undir hvaða nafni sem væri.
    Mörgum sýnist að það hafi orðið óheppilegur dráttur á því að það fengist botn í málið, að starfsemin færi af stað á ný. Nú liggur það hins vegar fyrir að tætarinn var settur í gang í gær og vinnur á því hráefni sem kemur til verksmiðjunnar. Það eru milli 16 og 18 þús. tonn á ári hér á landi, hvorki meira né minna. Það er alveg ljóst að það er hægt að starfrækja þann hluta starfseminnar, þ.e. tætarann, án þess að annað komi til þó að auðvitað sé skynsamlegra að önnur starfsemi sé starfrækt líka.
    Það er ekki ljóst hvað verður um starfsemina þarna að öðru leyti enn þá og þess vegna hef ég leyft mér að beina þessari fsp., sem hér er á dagskrá, virðulegi forseti, til hæstv. iðnrh.