Stálvinnslan hf.

126. fundur
Fimmtudaginn 11. mars 1993, kl. 12:56:07 (5945)

     Fyrirspyrjandi (Svavar Gestsson) :
    Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. iðnrh. fyrir svörin sem ég tel að hafi verið skýr og í sjálfu sér ekki neinu við þau að bæta. Hér er um að ræða ein 30--40 atvinnutækifæri og það munar um minna við þær aðstæður sem nú eru uppi. Hér er auðvitað um að ræða mjög sérkennilega sögu sem væri fróðlegt að fara yfir síðar við tækifæri þar sem um er að ræða 2.000 millj. kr. fyrirtæki sem endar kannski með því að verða selt á innan við 100 millj. kr. Það er hins vegar ekki verkefni þessa fyrirspurnatíma að fjalla um það.
    Varðandi það hvort ég hafi gert of miklar kröfur til iðnrn. má það kannski til sanns vegar færa. Hins vegar eru hæg heimatökin fyrir hæstv. iðnrh. þar sem er sú staðreynd að hann fer einnig með viðskrn. Viðskrn. fer með málefni bankanna þar á meðal Búnaðarbankans. Auðvitað reynir á Búnaðarbankann í þessu máli. Þess vegna vilja menn hafa þjóðbanka hér að þeir skilji heildarhagsmuni þjóðarinnar.