Stálvinnslan hf.

126. fundur
Fimmtudaginn 11. mars 1993, kl. 13:01:05 (5948)

     Umhverfisráðherra (Eiður Guðnason) :
    Virðulegur forseti. Í þessari fsp. frá hv. þm. Svavari Gestssyni er talað um fyrirtækið Stálvinnsluna hf. Það hefur hins vegar komið fram að hann á við það fyrirtæki sem Íslenska stálfélagið hf. rak á sínum tíma í hrauninu við Hafnarfjörð.
    Umhvrn. hefur ekki beitt sér með sérstökum aðgerðum gagnvart málsaðilum í þessu tilviki til að hafa áhrif á það að verksmiðjan taki á ný til starfa, enda samrýmist það tæplega verkefnum ráðuneytisins og langtímastefnumótun varðandi þróun endurvinnslu að hafa bein afskipti af rekstri einstakra fyrirtækja. Hins vegar hefur ráðuneytið að sjálfsögðu fylgst með þeim viðræðum sem iðnrn. hefur átt við ábyrgðaraðila þrotabúsins og aðra áhugaaðila um framtíðarrekstur og framtíðarhorfur þessa fyrirtækis hér á landi.
    Það er stefna ríkisstjórnarinnar að auka endurvinnslu og endurnýtingu úrgangs en framkvæmd þeirrar stefnu verður hins vegar ekki best tryggð til langframa með sértækum aðgerðum fyrir einstök fyrirtæki heldur fyrst og fremst með almennum aðgerðum sem skapa þessu starfi framtíðargrundvöll. Notkun skilagjalda og eftir ástæðum umhverfisgjalda sem taka mið af þeim kostnaði sem er óhjákvæmilegur til að koma í veg fyrir óviðunandi förgun úrgangs er meðal úrræða sem umhvrn. hefur verið að skoða til að leggja hér grunn að vaxandi endurvinnslu og endurnýtingu úrgangs.
    Í þessu sambandi tek ég fram að nú er til meðferðar hjá þingflokkum ríkisstjórnarinnar frv. til laga um meðferð brotamálma og skilagjald af ökutækjum sem ég hyggst leggja fram hér á hinu háa Alþingi, vonandi innan skamms. Frv. þetta hefur þau meginmarkmið að tryggja skipulega söfnun brotamálma um land allt og að brotamálmar verði endurunnir með einum eða öðrum hætti. Verði það frv. að lögum má fullyrða að það muni valda straumhvörfum í söfnun og endurvinnslu brotamálma hér á landi.