Skuldastaða heimilanna

126. fundur
Fimmtudaginn 11. mars 1993, kl. 13:05:07 (5950)

     Fyrirspyrjandi (Þuríður Bernódusdóttir) :
    Virðulegi forseti. Samkvæmt opinberum upplýsingum hafa skuldir heimilanna aukist úr 101 milljarði kr. 1989 í 236 milljarða kr. í upphafi þessa árs. Aukningin er hvorki meiri né minni en 2,1 millj. kr. á hverja fjögurra manna fjölskyldu í landinu. Spyrja má hvort hagsmunum heimilanna hafi verið fórnað á síðustu árum og kannski ekki síst í ráðherratíð hæstv. núv. félmrh. Ríkisstjórnin jók enn á vanda heimilanna með skattastefnu sinni í vetur. Það var dæmalaust því fyrir liggur að á tíu ára tímabili höfðu skuldir heimilanna aukist um 135% en skuldir fyrirtækjanna aðeins um 1%. Samt voru skattar stórgróðafyrirtækjanna færðir yfir á herðar fjölskyldnanna í vetur.
    Seðlabanki Íslands sendi frá sér varnaðarorð og telur það varhugaverða þróun að hreinn sparnaður heimilanna hefur reynst neikvæður um 15 milljarða kr. á ári í tíð núv. ríkisstjórnar. Þ.e. skuldir heimilanna hafa aukist árlega 15 milljörðum kr. meira en þau hafa sparað.
    Á árunum 1986--1990 virðast lántökur og sparnaður heimilanna hafa staðið nokkurn veginn í stað. Síðan hefur skuldaaukningin tekið verulegt stökk. Í þessari úttekt segir Seðlabankinn svo, með leyfi forseta:
    ,,Hér er vissulega um varhugaverða þróun að ræða sem nauðsynlegt er að greina betur en gert hefur verið til þessa. Líklegt er að samhengi hreins fjársparnaðar heimilanna og aðgerða ríkisins á sviði skattamála og húsnæðismála skipti þarna miklu máli.``
    Í sjónvarpsfréttum sl. þriðjudagskvöld var greint frá umtalsverðri fjölgun gjaldþrotabeiðna hjá einstaklingum vegna vangreiddra opinberra gjalda. Þar er enn ein vísbending um stöðu heimilanna og sýnir þær þrengingar sem yfir þau ganga núna.
    Heimilin eru hornsteinn hvers þjóðfélags. Þau leggja til verulegan hluta þess sparnaðar sem nýttur er til fjárfestingar fyrirtækja og opinberra aðila. En nú blasir alvarleg staða við. Sparnaður heimilanna er hruninn og heimilin sokkin í skuldir. Því spyr ég hætsv. félmrh. á þskj. 698:
    ,,Hvernig hyggst ríkisstjórnin bregðast við hinni ógnvænlegu skuldastöðu heimilanna í landinu?``
    Atvinnuleysi brýtur niður viðnámsþrótt einstaklinga, sundrar fjölskyldum og molar hornstein þjóðfélagsins. Slíkt er nægjanlegt böl þótt ekki komi til fjöldagjaldþrot heimilanna í landinu.