Skuldastaða heimilanna

126. fundur
Fimmtudaginn 11. mars 1993, kl. 13:13:57 (5953)

     Margrét Frímannsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég verð að segja að ég varð dálítið hissa á svörum hæstv. ráðherra vegna þess að ég hélt að hér hefði verið spurt almennt um skuldastöðu heimilanna í landinu en ekki einungis um skuldasöfnun vegna húsnæðiskaupa hvort sem um er að ræða í verkamannakerfinu, félagslega kerfinu eða almenna kerfinu. Skuldastaðan nær langt, langt út fyrir það og hún hefur stórversnað á síðasta ári í tíð þessarar ríkisstjórnar. Það eru afleiðingar þeirra aðgerða sem ríkisstjórnin hefur farið í á síðasta ári. Þrátt fyrir yfirlýsingar hæstv. ráðherra allra að ráðstafanirnar bitni alls ekki á þeim verst settu, þá hefur útkoman orðið sú að fátækt hefur stóraukist hér. Fjöldi þeirra sem eru núna að missa heimili sín, ráða ekki við eðlileg útgjöld heimila í hverjum mánuði, hefur stórvaxið og skólafólk hefur staðfest það, starfsmenn skólanna, að sívaxandi fátækt kemur fram í starfi skólanna. Börnin hafa ekki mat með sér, koma svöng í skólann og þetta er vandamál sem við getum ekki horft fram hjá. Ég vil endilega heyra það frá hæstv. ráðherra hvort hann ætlar ekki að hugsa aðeins til þessa.