Skuldastaða heimilanna

126. fundur
Fimmtudaginn 11. mars 1993, kl. 13:15:30 (5954)

     Össur Skarphéðinsson :
    Virðulegi forseti. Þessi fsp. hljóðar svo: ,,Hvernig hyggst ríkisstjórnin bregðast við hinni ógnvænlegu skuldastöðu heimilanna í landinu?`` Og henni er beint til hæstv. félmrh. Ég verð nú að inna hv. fyrirspyrjanda eftir því hvernig í ósköpunum stendur á því fyrst hér er verið að spyrja um mál sem varðar stefnu ríkisstjórnarinnar, að henni er ekki beint til forsrh.
    En það er rétt að það komi fram, virðulegi forseti, að ríkisstjórnin hefur beitt sér fyrir aðgerðum einmitt til þess að draga úr vaxandi skuldasöfnum heimilanna. Það er alveg ljóst að skuldastaðan hefur aukist vegna þess að atvinnustigið hefur versnað í landinu. Ríkisstjórnin hefur beitt sér fyrir aðgerðum til þess að treysta atvinnustigið í landinu og þar með til þess að draga úr þessari þróun. Ríkisstjórnin hefur líka beitt sér fyrir aðgerðum til þess að ná tökum á ríkisfjármálunum. Það er að leiða til þess núna að senn verður hægt að lækka vexti og vaxtalækkun hefur þegar hafist. (Gripið fram í.) Og við væntum þess, hv. þm. Margrét Frímannsdóttir, að hún verði enn meiri. Það er þetta sem ríkisstjórnin hefur gert til þess að draga úr þessu.
    Varðandi síðan það, virðulegi forseti, að þessi ríkisstjórn hafi tekið skatta af stórgróðafyrirtækjum og fært yfir á fólkið í landinu vil ég segja eftirfarandi: Hverjir voru það sem byrjuðu fyrst með það? Hverjir voru það sem komu fram með hugmyndir um það? Var það ekki forusta verkalýðshreyfingarinnar? Var ekki tekið undir það af forustumönnum stjórnarandstöðuflokkanna? Ég man ekki betur. Ég vek athygli á því að eitt af því sem væri hægt til þess að létta heimilunum róðurinn væri að bankarnir beittu sér fyrir lánalengingum og ég verð því að segja það að ég varð fyrir miklum vonbrigðum þegar verkalýðsforustan kom fram með sína kröfugerð og gerði þetta ekki að mikilvægu atriði í henni.