Skuldastaða heimilanna

126. fundur
Fimmtudaginn 11. mars 1993, kl. 13:32:50 (5966)

     Guðmundur Bjarnason :
    Hæstv. forseti. Ræða hv. 5. þm. Austurl., Gunnlaugs Stefánssonar, var nú alveg með endemum, ótrúleg þessi athugasemd hans hér áðan. Þegar hann er að tala um viðskilnað framsóknarmanna gagnvart því sem hér er verið að spyrja um, skuldum heimilanna. Hann hefur líklega ekki heyrt það sem kom fram, opinberar tölur hjá fyrirspyrjanda þegar hann hóf mál sitt hér áðan, þegar verið er að bera saman annars

vegar skuldir upp á um 100 milljarða og hins vegar skuldir upp á 236 milljarða á tveimur árum. Heyrði hv. þm. þetta ekki eða hvað eiginlega var það sem hann var að tala um? ( PP: Honum er vorkunn. Hann man ekki svo langt.) Og svo mætti kannski spyrja hann hvort hann haldi að sú stjórnarstefna sem nú er við lýði, hafi engin áhrif á atvinnustigið í landinu, hvort það sé ekki kannski það sem hafi ráðið einhverju um hvað hér er að gerast. Og hvað með fyrsta efnahagsúrræði þessarar hæstv. ríkisstjórnar, að hækka vexti um þriðjung í landinu. Heldur hann líka að það hafi ekki haft nein áhrif á það sem hér er til umræðu?