Þingmannanefnd Fríverslunarsamtaka Evrópu 1992

127. fundur
Fimmtudaginn 11. mars 1993, kl. 13:48:38 (5968)

     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Formaður sendinefndarinnar, hv. 5. þm. Norðurl. v., Vilhjálmur Egilsson, er utan þings sem stendur og varamaður situr fyrir hann þannig að hann er ekki í aðstöðu til þess að mæla fyrir þessari skýrslu og mun ég því segja nokkur orð í fjarveru hans. En Vilhjálmur Egilsson, hv. 5. þm. Norðurl. v., hefði að sjálfsögðu mælt fyrir þeirri skýrslu sem prentuð er á þskj. 672, þar sem greint er frá starfsemi Íslandsdeildar þingmannanefndar Fríverslunarsamtakanna. Vilhjálmur gegndi stöðu formanns þingmannanefndar EFTA fram í júní 1992 og þá hafði hann gegnt því embætti í eitt ár. Nú á hann sæti í forsætisnefnd þingmannanefndarinnar sem formaður sendinefndarinnar og fráfarandi formaður EFTA-þingmannanefndarinnar.
    Hvert EFTA-ríki hefur mátt senda fimm aðalmenn og tvo áheyrnarfulltrúa á fundi þingmannanefndarinnar þótt Íslandsdeildin hafi ekki alla jafna nýtt þessa heimild til fulls. Á vegum þingmannanefndarinnar starfa þrír vinnuhópar auk dagskrárnefndar. Í vinnuhóp um fjármál situr Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og til vara Guðrún Helgadóttir, í vinnuhóp um landbúnað og sjávarútveg situr Eyjólfur Konráð Jónsson og til vara Páll Pétursson, í vinnuhóp um umhverfismál situr Páll Pétursson en til vara Össur Skarphéðinsson.
    Umsvif og starfsemi á árinu báru merki þess aukna vægis sem þingmannanefnd EFTA hefur öðlast innan EFTA á undanförnum árum. Meginverkefni nefndarinnar á árinu 1992 var að fylgjast með framvindu mála varðandi samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og vinna að undirbúningi að skipun þingmannanefndar EES í samvinnu við þingmenn Evrópuþingsins auk þess að treysta og auka samstarfið við þingmenn ríkja Mið- og Austur-Evrópu sem EFTA á samskipti við.
    Ég mun, frú forseti, ekki fara mikið nánar út í það sem stendur á þessu þskj. þar sem greint er frá starfsemi hinna einstöku nefnda en vil láta það koma fram að ég tel að formaður sendinefndarinnar, hv. 5. þm. Norðurl. v., Vilhjálmur Egilsson, hafi sinnt formennskunni af dugnaði og mikilli ábyrgðartilfinningu og kann ég honum bestu þakkir fyrir, svo og öðrum nefndarmönnum sem þar hafa starfað.
    Ég verð þó að játa að þessi starfsvettvangur hefur valdið mér nokkrum vonbrigðum. Ég er kannski ekki mjög reyndur í erlendu samstarfi en hef þó aðeins komið þar að og mér finnst þetta samstarf t.d. ákaflega ólíkt Norðurlandaráði. Þarna er miklu minna frumkvæði hinna einstöku þingmanna. Þetta eru miklu léttvægari sendinefndir en þær sem starfa í Norðurlandaráði og starfið allt með minni glæsibrag en hefur verið hjá Norðurlandaráði fram að þessu.
    Þá kunna menn að spyrja: Er eftirsóknarvert eða ástæða til fyrir Alþingi að vera að gera út sendinefnd á slíkan vettvang? Ég tel það óhjákvæmilegt og það er mjög fróðlegt að kynnast viðhorfum erlendra þingmanna sem við eigum í samstarfi við og jafnframt að heyra hvað kontóristarnir eru að bauka. Því satt að segja finnst mér þetta evrópska samstarf markast mjög af því að þingmennirnir eru áhrifalitlir. Ég held að ráðherrarnir séu áhrifalitlir líka í þessu samstarfi og fyrst og fremst starfsmennirnir eða apparatið sem gengur með einhverjum hætti af sjálfu sér en það er nauðsynlegt fyrir þingmennina að reyna að fá einhverja nasasjón af því hvað kontóristarnir ætla að láta okkur gera að nafninu til.
    Mikið af starfi þessa árs í þingmannanefndinni markaðist af fæðingarhríðum Evrópsks efnahagssvæðis. Ég vil láta það koma fram að í þingmannanefndinni var það viðhorf mikils meiri hluta þingmanna að mikilvægt væri að mynda þetta Evrópska efnahagssvæði og þar fundust margir baráttumenn fyrir því þó þar eigi ekki allir þingmenn áskilið mál.
    Eins og greinir í þskj. höfum við átt nokkurt samstarf við þingmenn frá Evrópubandalaginu. Þar finnst mér aftur mikið tómlæti ríkja varðandi myndun Evrópsks efnahagssvæðis. Það hefur farið mikill tími í það hjá nefndinni að reyna að fá form á framtíðarsamstarf þingmanna á Evrópsku efnahagssvæði. Samkvæmt samningnum er hugmynd um 66 fulltrúa í þingmannanefnd, sameiginlegri þingmannanefnd EFTA-ríkjanna og EB, þ.e. 33 frá EFTA og 33 frá EB. Drög höfðu verið gerð að samkomulagi um að Austurríki, Svíþjóð og Sviss hefðu sex hvert af þessum EFTA-fulltrúum, Finnland fimm og Noregur fimm, Liechtenstein tvo og Ísland þrjá. Þ.e. hlutur okkar rýrnaði frá núverandi EFTA-nefnd niður í þrjá. Síðan gerðist það, eins og menn vita, að Sviss gekk úr skaftinu og tekur ekki þátt í Evrópsku efnahagssvæði og sem afleiðing þar af hefur innganga Liechtenstein í efnahagssvæðið frestast. Þá var verkefnið að koma sér saman um skiptingu á þeim fulltrúum sem losnuðu við fráhvarf Sviss. Það hefur orðið um þetta töluvert mikil togstreita sem mig langar til að greina þingheimi frá, með leyfi forseta.
    Þar er fyrst að tillögugerð var uppi um nokkra valkosti í þessu sambandi og þeir gengu yfirleitt út á það að Ísland yrði sett hjá og hin löndin skiptu sætum Sviss á milli sín. Þessi tillaga vakti náttúrlega engan fögnuð í íslensku sendinefndinni og formaður sendinefndarinnar, Vilhjálmur Egilsson, mótmælti þessu kröftuglega og hlaut til þess að sjálfsögðu stuðning allrar sendinefndarinnar.
    Þann 7. mars héldu formenn sendinefndanna síðan fund og gerðu tillögu um að deila þessum sætum Sviss þannig niður að Austurríki fengi átta, Svíþjóð átta, Finnland og Noregur sex eða sjö til skiptis

og Ísland hefði fjögur og tóku þá með í reikninginn sæti Liechtenstein sem væntanlega verður síðar aðili að Evrópsku efnahagssvæði.
    Við þessa tillögu, sem við Íslendingar gátum ágætlega sætt okkur við, kom samt fyrirvari frá formanni finnsku sendinefndarinnar, sem heitir Jörn Donner. Þetta var lagt fyrir fund EFTA-nefndarinnar þann 8. mars í Genf og er skemmst frá því að segja að þar var gjörsamlega keyrt yfir okkur þrátt fyrir einarða baráttu hv. þm. Vilhjálms Egilssonar og stuðnings sendinefndar Íslands við hann.
    Mér þótti fyrir því að hv. þm. Vilhjálmur Egilsson náði ekki að hafa nein áhrif á niðurstöðu í þessu Evrópusamstarfi jafnvel þó hann væri dyggilega studdur af sinni sendinefnd. Það náðist ekki um þetta samkomulag eins og æskilegast hefði verið. Eftir langt þóf var gengið til atkvæða og okkur Íslendingum var ljóst að við yrðum að una þeirri niðurstöðu. Norðmenn höfðu stutt okkur dyggilega, að við fengjum einn af þessum fulltrúum frá Sviss, og en Svíar lögðust hins vegar gegn okkur ásamt Finnum. Austurríkismenn létu ekki uppi sína afstöðu og svo fór að tillaga Noregs sem hljóðaði upp á það að við hefðum fjóra fulltrúa féll en tillaga frá sænskum þingmanni var samþykkt. Það var sem sagt ekki tekið tillit til okkar. Við fáum hins vegar tímabundið að manna annað sæti Liechtenstein en það er ósköp lítil sárabót. Gera verður ráð fyrir því að Liechtenstein verði aðili að Evrópsku efnahagssvæði þegar þeir hafa leyst sín tæknilegu vandamál innan skamms.
    Nú skiptir það út af fyrir sig ekki meginmáli að mínum dómi hvort við höfum þrjú eða fjögur sæti í þessari nefnd en það er sóma okkar vegna og ástæða til að standa á rétti okkar. Þetta er nokkurt jafnréttismál. Við vorum órétti beittir og kúgaðir af þessum samstarfsaðilum. Ég verð að segja fyrir mig að mér þykir ógeðfellt að láta bera mig atkvæðum og þoli illa yfirgang af því tagi sem þarna var hafður í frammi.
    Frú forseti. Ég ætla ekki að orðlengja þetta meira. Skýrslan liggur fyrir og þingmenn geta kynnt sér hana eftir því sem þeir vilja. Mér finnst hins vegar mikið umhugsunarefni og mikið áhyggjuefni að ríkisstjórn Íslands og sá þingmeirihluti sem hana styður skuli vera jafnákafur að sökkva okkur niður í þetta Evrópusamstarf og raun ber vitni því í Evrópubandalaginu og evrópska samstarfi er allt í vandræðum. Þar er atvinnuleysi og hagvöxtur enginn, efnahagsástand dökkt og pólitískt andrúmsloft leiðinlegt og mér er óskiljanlegur sá ákafi sem ríkisstjórnin sýnir í að tengjast þessu svæði sem nánustum böndum. Læt ég máli mínu lokið, frú forseti.