Þingmannanefnd Fríverslunarsamtaka Evrópu 1992

127. fundur
Fimmtudaginn 11. mars 1993, kl. 14:03:23 (5969)

     Guðrún Helgadóttir :
    Frú forseti. Aðeins örfá orð til viðbótar því sem hv. 1. þm. Norðurl. v. hefur sagt í fjarveru virðulegs formanns nefndarinnar, hv. 5. þm. Norðurl. v.
    Ég vil taka undir orð hv. síðasta ræðumanns um það að samstarf í nefndinni hefur verið með ágætum og enginn getur annað sagt en að formaður nefndarinnar hafi unnið af ýtrustu samviskusemi. En ég vil einnig taka undir það með síðasta ræðumanni að þessi störf eru satt að segja ekki sérlega skemmtileg. Þeir fundir sem ég hef sótt í þessari ágætu nefnd hafa farið í það að ræða hvernig næsti fundur skuli fara fram og allt starf nefndarinnar hefur einkennst af þeirri óvissu sem ríkir í þessum málum. Svo dæmi séu tekin þá sóttum við um helgina, hv. 10. þm. Reykv., Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, og ég, fund í fjárhagsnefnd og sá fundur snerist um það að hleypa upp öllum fjárhagsáætlunum EFTA-ríkjanna vegna þess að nú þarf að leggja drög að því að flytja eftirlitsstofnunina væntanlegu, sem þegar var búið að vinna að, yfir til Brussel eftir að Sviss hætti við að vera með í þessu starfi.
    Annað kom fram þar, sem hv. 1. þm. Norðurl. v. vissi kannski ekki um þar sem hann sat ekki þann fund. Á þeim fundi drógu menn mjög í efa að Liechtenstein gæti yfir höfuð komið inn í þetta samstarf jafnvel þó þeir næðu einhverjum samningum við Sviss. Það yrði afar erfitt fyrir þá að vera með bæði tvíhliða samning og vera innan EES-samningsins. Þar töluðu menn því af töluverðum efasemdum um að það yrði nokkurn tímann að veruleika.
    Síðan eru Spánverjar sí og æ að hleypa hrolli í menn vegna yfirlýsinga sinna. Þetta sýnist því allt vera í óttalegri óvissu. Fundi okkar í þessari nefnd lauk með því að við spurðum, eftir að hafa rætt þessa flutninga eftirlitsstofnunarinnar frá Genf hvað yrði svo ef ekkert yrði af neinum samningi og þá ypptu menn bara öxlum. Það er bara út í blámanum hvort eitthvað af þessu öllu verður.
    Þetta eru satt best að segja, frú forseti, sérkennilegustu erlend samskipti sem ég hef tekið þátt í. Ég tek undir það með hv. 1. þm. Norðurl. v. vegna þess að ég átti einnig sæti í Norðurlandaráði á sama tíma og hann að það voru harla ólík erlend samskipti. Úrslit atkvæðagreiðslunnar sem þurfti að fara fram um hlut Íslendinga í samstarfsnefndinni, eða ,,Joint Committee``, sýndu ekkert annað sem það sem við höfum alltaf vitað að hinir smáu verða yfirbugaðir af hinum stóru og menn skeyta ekki um skömm né heiður þegar kemur að því. Þetta kom okkur svo sem ekkert á óvart þó við reyndum á skandinavískan og lýðræðislegan máta að sækjast eftir að hafa þessi fjögur sæti. En ég tek undir það með síðasta ræðumanni líka að ég held það skipti ekki ýkja miklu máli. Það var meira þjóðarsómi sem við vorum að verja heldur en einlægur áhugi á að við yrðum sem flest þarna.
    Að öðru leyti vil ég þakka fyrir þessa skýrslu og ítreka að þrátt fyrir alla þessa erfiðleika hefur nefndin svo sannarlega reynt að vinna af heilindum saman eins og vera ber á erlendum vettvangi. Þó við séum með ólíkar skoðanir á tilganginum með þessu öllu saman þá höfum við unnið vel með formanni okkar og er ekkert nema gott um það að segja. Ég hef lokið máli mínu, frú forseti.