Evrópuráðsþingið

127. fundur
Fimmtudaginn 11. mars 1993, kl. 14:34:07 (5976)

     Björn Bjarnason :
    Frú forseti. Ég kynni hér skýrslu Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins um 44. þing Evrópuráðsþingsins sem er á þskj. 690. Ég vil með leyfi frú forseta lesa innganginn að þessari skýrslu, en þar segir:
    ,,    Störf 44. þings Evrópuráðsins (ER) einkenndust af því að þátttökuríkjum fjölgar og náið er fylgst með framvindu stjórnmála í ríkjunum í Mið- og Austur-Evrópu. Þingmenn eru þeirrar skoðunar að samhliða því sem þjóðirnar, sem nú eru að þróa með sér lýðræðislega stjórnarhætti, fái góðar viðtökur hjá Evrópuráðinu megi ráðið ekki slá af hinum ströngu kröfum um mannréttindi, lýðræði og virðingu

fyrir lögum og rétti í aðildarríkjunum.
    Boðað hefur verið til leiðtogafundar aðildarríkja Evrópuráðsins í Vínarborg 8. og 9. október 1993. Er þess vænst að í tengslum við fundinn verði teknar ákvarðanir um stjórnskipun Evrópuráðsins og stofnana þess sem auðveldi þeim að takast á við ný verkefni við breyttar aðstæður. Má í því sambandi geta þess að með samþykkt tillögu 1194 lagði þingið til við ráðherranefnd Evrópuráðsins að Mannréttindadómstóll og mannréttindanefnd Evrópu, þar sem fulltrúar ríkjanna gegna hlutastarfi, verði sameinuð í einn dómstól þar sem dómarar verði í fullu starfi.
    Átökin í Júgóslavíu fyrrverandi og þjóðernisdeilur víðar í hinum nýfrjálsu ríkjum Mið- og Austur-Evrópu hafa vakið miklar umræður á þingi Evrópuráðsins og aukið stuðning við tillögur um að samþykktur verði viðauki við Mannréttindasáttmála Evrópu um réttindi minnihlutahópa og vernd þeirra. Jafnframt er ljóst að huga verður betur að rétti og vernd þeirra sem hafa neyðst til að yfirgefa heimili sín eða þurft að leggja á flótta. Nauðsynlegt er að snúast til varnar gegn þjóðernishroka og útlendingahatri sem brýst út í ofbeldisverkum.
    Umræður á þingi Evrópuráðsins bera þess skýr merki að þingmenn hafa fullan hug á því að auka hlut sinn í starfi ráðsins. Þingið og nefndir þess gegna miklu hlutverki við rannsókn á því hvort ríki, sem sækja um aðild að ráðinu, fullnægi skilyrðum samkvæmt stofnskrá þess. Þannig hefur t.d. verið fylgst náið með þróun mála í Eystrasaltsríkjunum með hliðsjón af umsóknum þeirra um aðild að Evrópuráðinu. Nú að loknum almennum kosningum í Eistlandi og Litáen er líklegt að ríkin verði aðilar að Evrópuráðinu í vor. Þess er beðið að kosið verði í Lettlandi. Þá hafa lög Eytrasaltsríkjanna um borgararéttindi verið könnuð sérstaklega.
    Íslandsdeild Evrópuráðsþingsins hefur starfað í samræmi við starfsreglur sem hún setti sér 16. janúar 1992. Framkvæmd á starfsreglunum ræðst af því fé sem Íslandsdeildin fær til ráðstöfunar hverju sinni. Á árinu 1992 voru útgjöld á vegum deildarinnar innan útgjaldarammans. Meginreglan er að fjórir þingmenn sæki hvert þing ráðsins, þ.e. þrír aðalmenn og varamaður, auk ritara. Þingmenn sitja í fleiri en einni nefnd og leitast við að sækja fundi í þeim eftir föngum.
    Aukin umsvif Evrópuráðsþingsins og nefnda á vegum þess gera ríkari kröfur til Íslandsdeildarinnar. Að mati hennar er brýnt að bregðast við þessum kröfum á þann veg að enginn geti dregið í efa áhuga Alþingis á því að rækta sem best tengsl við Evrópuráðið. Þetta er þeim mun mikilvægara þegar haft er í huga að aðild Íslands að Evrópubandalaginu er ekki á dagskrá. Þing Evrópuráðsins er vettvangur sem Íslendingar geta nýtt sér til að kynna viðhorf sín til þeirra mála sem snerta hagsmuni þeirra í evrópsku samstarfi eða ber hæst í samstarfi Evrópuríkja.``
    Þetta var tilvitnun í inngang þeirrar skýrslu sem hér liggur fyrir en eins og menn sjá þegar skýrslan er skoðuð þá eru í henni rakin atriði sem snerta framkvæmd mála á sl. starfsári og snerta 44. þingið sem lauk í febrúar. Þar er einnig birt yfirlit yfir þátttöku Íslendinga í þeim 15 nefndum sem starfa á vegum Evrópuráðsþingsins og síðan yfirlit yfir samþykktir og ályktanir sem gerðar voru á þessu þingi. Loks eru í skýrslunni frásagnir af þátttöku Íslandsdeildarinnar í hinum einstöku þingum.
    Það hefur nú gerst í fyrsta sinn að Evrópuráðsþingið kemur saman fjórum sinnum á ári og verður þannig framvegis og sumir telja að með vaxandi fjölda aðildarríkja þá muni þingfundir jafnvel verða tíðari en nú, þ.e. oftar en fjórum sinnum á ári. Hver lota þinghaldsins tekur eina viku þannig að menn sjá af þessu að þátttaka aðeins í störfum þingsins krefst töluverðs tíma af þeim þingmönnum sem valdir eru til þessara starfa, en við erum sex eins og fram kemur í skýrslunni, og skiptumst á að fara á þingfundina nema hvað sú regla gildir að formaður sækir alla fundi til þess að samhengi sé í störfum Íslandsdeildarinnar.
    Ég vil nefna einstök atriði sérstaklega og gera þingheimi grein fyrir nokkrum atriðum. Efnislega finnst mér ástæða til þess að nefna það að á vettvangi Evrópuráðsþingsins er fjallað um mál sem snertir hagsmuni okkar Íslendinga sérstaklega og vísa ég þar til hvalamálsins því á vegum þingsins er unnið að því að semja skýrslu og væntanlega ályktun um það mál sem líkindi eru til að tekið verði fyrir á þinginu næsta haust.
    Með þátttöku Íslandsdeildarinnar var efnt til ráðstefnu hér á landi um sjávarspendýr í maí sl. og komu hingað sérfræðingar og þingmenn á vegum Evrópuráðsþingsins og tóku þátt í þessari ráðstefnu sem ég held að allir telji að hafi heppnast mjög vel. Vil ég sérstaklega þakka meðnefndarmanni mínum, hv. þm. Sigbirni Gunnarssyni, fyrir hans hlut að því máli en hann er nú formaður í undirnefnd sem undirbýr þessa ályktun og þessa skýrslu sem tekin verður fyrir næsta haust.
    Við í Íslandsdeildinni teljum ákaflega mikilvægt fyrir málstað okkar, þeirra þjóða, sem eiga mikið undir nýtingu sjávar, nýtingu auðæfa hafsins, jafnt sjávarspendýra sem annarra dýra sem í hafinu lifa, að það verði unnt að samþykkja á þinginu ályktun sem hindrar ekki eðlilega nýtingu á hvölum eða öðrum sjávarspendýrum. Við höfum komið okkur saman um það að beita okkur fyrir því á næstu mánuðum og kanna hvort við getum ekki kynnt málstað Íslands sérstaklega í þessu sambandi m.a. með því að bjóða hingað til lands þingmönnum eða öðrum sem ástæða er til að kynni sér betur þau sjónarmið sem uppi eru hjá okkur í þessu máli.
    Almennt erum við einnig þeirrar skoðunar, frú forseti, að það eigi að nota Evrópuráðsþingið og þann vettvang sem þar er betur, ef þannig má að orði komast, til þess að kynna íslensk málefni og við ættum t.d. að okkar mati að stuðla að því að einhverjar af þeim nefndum sem starfa á vegum þingsins haldi fundi hér á landi og komi hingað og það gefist tækifæri þannig til þess að kynna okkar sérmál eins og við gerðum á þessari ráðstefnu sem haldin var sl. vor, því ráðstefnugestir fóru m.a. í kynnisferð norður á Akureyri og kynntust þar útvegsmálum og starfsemi á sviði sjávarútvegs.
    Við teljum að þetta sé ákaflega mikilvægt og vildum gjarnan leggja rækt við þetta og í því sambandi mætti nefna að það væri mjög æskilegt að forseti Evrópuráðsþingsins kæmi í heimsókn hingað til lands og hafa verið lögð drög að því og vonandi kann það að rætast á þessu ári.
    Einnig væri æskilegt að okkar mati --- það kemur fram í skýrslunni á bls. 4 þar sem rætt er um störf þingsins, að þjóðarleiðtogar, bæði forsetar og forsætisráðherrar koma og ávarpa Evrópuráðsþingið --- að virðulegur forseti Íslands eða hæstv. forsrh. hefðu tök á því að koma til Strassborgar, ávarpa Evrópuráðsþingið og svara fyrirspurnum. Ég held ég mæli fyrir hönd Íslandsdeildarinnar allrar þegar ég segi að við mundum stuðla að því að slíkt mætti takast.
    Varðandi þátttöku okkar í störfum þingsins þá sækjum við þarna þingfundi, störfum innan þingflokka, a.m.k. þeir okkar af þingmönnum sem tökum þátt í því, en það á ekki við um Kvennalistann eða Alþb., og hv. þm. Lára Margrét Ragnarsdóttir var framsögumaður sinnar nefndar, heilbrigðisnefndar, um málefni Tsjernóbíl. Þannig höfum við tekið þátt í störfum nefndanna og sótt fundi utan Strassborgar og annars staðar og það er gerð grein fyrir þessu öllu í skýrslunni.
    Ég vil láta þess getið hér að okkur var falið í byrjun síðasta árs að koma fram fyrir Íslands hönd varðandi þing Ráðstefnunnar um öryggi og samvinnu í Evrópu. Það var ákveðið í byrjun síðasta árs að efna til þingfundar í Búdapest, fyrsta fundar þings Ráðstefnunnar um öryggi og samvinnu í Evrópu. Forsætisnefnd Alþingis fól Íslandsdeild Evrópuráðsins að taka þátt í þessu starfi og áttum við þrír sæti í þeirri nefnd Alþingis sem sat þingið, auk mín þeir Guðmundur Bjarnason hv. þm., varaformaður Íslandsdeildarinnar, og hv. þm. Sigbjörn Gunnarsson. Við tókum þátt í þessum fundum í Búdapest 28. júní til 1. júlí sl. Þeir fundir voru haldnir í beinu framhaldi af sumarþingi Evrópuráðsþingsins þannig að það féll alveg saman. Það hefur ekki verið samin sérstök skýrsla um það mál en ég vildi greina frá því að höfðu samráði við hv. meðþingmenn mína sem tóku þátt í þessu í Búdapest að ég hef lagt til við forsætisnefnd Alþingis að stofnuð verði sérstök Íslandsdeild RÖSE-þingsins. Ég gerði það eftir að ég sat fund stjórnarnefndar þingsins í Kaupmannahöfn 15. jan. sl. Ég sendi um það skýrslu og greinargerð til forsætisnefndarinnar og ef mín vitneskja er rétt þá mun forsætisnefnd þingsins hafa ákveðið að slík Íslandsdeild skuli skipuð en Íslendingar eiga þrjá fulltrúa á þessu RÖSE-þingi. Næsti fundur þess verður haldinn um mitt sumar í Helsinki.
    Það er ekki sama regla þarna eins og á Evrópuráðsþinginu, þar eru ekki varamenn, það eru kjörnir þrír fulltrúar í þessa Íslandsdeild og tel ég að með þessu sé málið komið úr höndum Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins og að stofnuð verði þessi sérstaka deild sem muni taka þetta mál að sér, þátttöku í þessu þingi.
    Mér finnst einnig rétt að það komi fram, frú forseti, að umræður hafa verið um það að Íslendingar tækju þátt í starfi á vettvangi Vestur-Evrópusambandsins. Alþingi á eftir að fjalla um það mál, en á vegum þeirra samtaka, Vestur-Evrópusambandsins, starfar einnig þing, þar er sérstök þingmannasamkunda og sú venja mun vera og þær reglur um þá þingmannasamkundu að það eru sömu menn sem sækja hana og sitja á þingi Evrópuráðsins. Þannig að störf þingmanna Evrópuráðsins eiga tvímælalaust eftir að aukast mjög á næstu missirum ef svo fer fram sem horfir, bæði vegna starfa á vettvangi þings Evrópuráðsins og einnig vegna annarra starfa sem tengjast þátttökunni í því.
    Ég hef ekki, frú forseti, rakið neitt efnislega þau málefni sem hæst hefur borið á þinginu, þessu 44. þingi. Menn hafa glímt þar við mörg mál sem snerta sérstaklega hrun kommúnismans, fjölgun aðildarríkja Evrópuráðsþingsins og spurninguna m.a. um það hvar á að draga hin landfræðilegu mörk þegar rætt er um Evrópuráðið, hve langt í austur teygir Evrópa sig. Á þar að miða við landfræðilegar forsendur, menningarlegar, sögulegar eða hvernig eiga þau mörk að dragast? Þetta mál er óljóst, einnig hitt hvernig stofnunum Evrópuráðsins verði breytt. Eins og vikið er að í inngangsorðum skýrslunnar þá stendur fyrir dyrum að efna til leiðtogafundar Evrópuráðsins næsta haust og það eru töluverðar vonir við það bundnar að í tengslum við þann fund verði tekið af skarið um breytingar á stofnsáttmálanum og stofnskrá samtakanna, m.a. varðandi hinar mikilvægu stofnanir Mannréttindadómstólinn og mannréttindanefndina og uppi eru hugmyndir um það að það verði ein stofnun, Mannréttindadómstóll, með fast skipuðum dómurum en ekki dómurum í hlutastarfi eins og nú er og þessi dómstóll verði endanlegur þannig að ákvæðin eins og þau eru núna í sáttamálanum um það að eftir að dómstóllinn hefur kveðið upp úrskurði sína þá fari þau til ráðherranefndarinnar, að slík ákvæði hverfi og dómstólinn verði sem sagt einn og fastskipaður og fái skýrara verksvið heldur en nú er. Þetta eru hugmyndir sem uppi eru og ýmsir telja æskilegt að smiðshöggið í því máli verði rekið á leiðtogafundinum í Vínarborg. Einnig eru fleiri hugmyndir uppi sem tengjast þeim fundi og munu þær vafalaust setja svip sinn á þinghaldið og störf Evrópuþingsins á komandi vikum og mánuðum.
    Varðandi starfsreglurnar setti Íslandsdeildin sér þessar reglur í janúar 1992 og hefur starfað samkvæmt þeim. Það var, frú forseti, ekki búið að ganga formlega frá þeim í forsætisnefnd þingsins vegna þess að þingflokkar vildu kanna málið. Nú er það upplýst að þeirri könnun er lokið og ekkert ætti að vera því til fyrirstöðu að frá þessu máli yrði gegnið í forsætisnefnd og hvet ég eindregið til þess að hún staðfesti

þessar starfsreglur þannig að það verði meiri festa þá í okkar störfum eftir að slík opinber staðfesting á þessum reglum liggur fyrir.
    Ég vil í lokin þakka samstarfsmönnum mínum í Íslandsdeildinni fyrir gott samstarf á þessu liðna starfsári og vona að við megnum það á komandi þingum að halda þannig á málstað Íslands að hann verði ekki fyrir borð borinn í þessu mikilvæga samstarfi.