Vestnorræna þingmannaráðið 1992

127. fundur
Fimmtudaginn 11. mars 1993, kl. 16:01:13 (5986)

     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Hér er lögð fram skýrsla um starf Vestnorræna þingmannaráðsins fyrir árið 1992. Það verður að geta þess í því sambandi að á sl. ári var hið svokallaða vestnorræna ár sem ákveðið hafði verið á aðalfundi ráðsins í Stykkishólmi árið 1989 að haldið skyldi. Í tilefni þess voru haldnar þrjár ráðstefnur, ein í hverju landi, og hér á Íslandi var haldið vestnorrænt kvennaþing á Egilsstöðum dagana 20.--23. ágúst sl. Það þing fór mjög vel fram í alla staði. Það var vel staðið að undirbúningi þess og formaður þeirrar nefndar sem sá um það var Ragnheiður Harðardóttir en framkvæmdastjóri ráðstefnunnar var Guðrún Ágústsdóttir. Það voru 350 konur sem sóttu þetta þing og meiri hlutinn auðvitað frá Íslandi en 48 frá Grænlandi og 63 frá Færeyjum.
    Það var mjög skemmtilegt andrúmsloft á þessu þingi. Þessar þrjár þjóðir náðu mjög vel saman og ég gat þess raunar í umræðum um till. til þál. um ályktanir vestnorræna þingmannaráðsins sem var hér fyrr til umræðu að það hefði verið svolítið sérstakt að þarna náðu grænlenskar konur saman í fyrsta skipti. Þær höfðu aldrei náð saman í sínu eigin landi en náðu þarna saman frá hinum ýmsu hlutum Grænlands.
    Yfirskrift þingsins var vinnumarkaðurinn og um möguleika kvenna til áhrifa í samfélaginu, og ýmis önnur mál eins og sjávarútvegsmál og umhverfismál, menningarmál o.fl. Ég mætti á þessu vestnorræna kvennaþingi sem fulltrúi Vestnorræna þingmannaráðsins og þar mættu einnig Steingrímur J. Sigfússon sem þá var formaður og Rannveig Guðmundsdóttir. Það voru gerðar nokkrar samþykktir á þessu þingi og meðal annars það að stefnt skyldi að því að halda annað slíkt þing árið 1995 og þá helst Færeyjum. Það er að sjálfsögðu ekkert farið að undirbúa það mál en það er vonandi að hægt verði að fylgja því fram.
    Það var einnig nokkuð rætt um málaerfiðleika og því beint til ríkisstjórnar landanna að þær mundu sjá til þess að túlkur væri til staðar þegar haldið yrði næsta Nordisk forum sem fyrirhugað er að halda í Finnlandi næst.
    Önnur ráðstefnan, sem ákveðin var í tilefni af þessu vestnorræna ári, var um umhverfismál og var haldin í Qaqortoq á Suður-Grænlandi í ágúst. Árni Johnsen sótti hana fyrir hönd Íslandsdeildarinnar og ályktun ráðstefnunnar er kynnt hér í fskj. I í þessari skýrslu. Sú ályktun gengur að miklu leyti út á verndun hafsins svo sem eðlilegt er þar sem þar er það landssvæði sem skiptir þessi lönd öll mjög miklu máli og fiskstofnarnir þar í hafinu. Það voru gerðar samþykktir eða ályktanir í tengslum við það og minnt þar á lífríki sjávar og hversu mikið atriði það væri að stjórna nýtingu allra fiskstofna og alls lífríkis sjávar í samhengi. Það þyrfti að stjórna henni og taka ekki eingöngu tillit til einstakra stofna heldur væri skoðað samspilið milli allra stofna og tekið tillit til allra þátta. Í því sambandi er náttúrlega oft verið að ræða um sjávarspendýrin þar sem mjög mikill ágreiningur er innan Norðurlandanna, ekki vestnorrænu landanna heldur innan Norðurlandanna, um það hvernig eigi að nýta sjávarspendýr. Ég minni á það að við höfum hafið samstarf innan Norður-Atlantshafssjávarspendýraráðsins, svo langt orð sem það nú er, og vonandi verður það til þess að skynsamleg nýting verði þá í framhaldi af því á þessum stofnum sem taki tillit til bæði annars lífríkis og byggist einnig á vísindalegum rannsóknum.
    Menn geta svo sem lesið þetta fskj. sem fylgir hér sem ályktun frá umhverfisráðstefnu Vestur-Norðurlanda á Grænlandi en það sem í lokaorðum segir þar að það verði unnið úr þeim gögnum sem lögð voru fram á ráðstefnunni á skrifstofum Vestnorræna þingmannaráðsins m.a. í því skyni að lögð verði fram tilmæli um það sem þar var fjallað um á næsta þingi eða næsta aðalfundi Vestnorræna þingmannaráðsins. Það er mjög sjálfsagt og eðlilegt að á næsta fundi ráðsins verði fjallað um ályktanir frá öllum þessum ráðstefnum og það yrði þá mótað í tillögur sem kæmu frá aðalfundi ráðsins sem haldinn verður líklega í Færeyjum á þessu ári og þeim þar af leiðandi fylgt eftir inn á landsþing þessara landa.
    Þriðja og síðasta ráðstefnan var vestnorrænt ungmennaþing og haldin í Færeyjum 12.--14. september sl. Hana sótti Steingrímur J. Sigfússon fyrir hönd Íslandsdeildar Vestnorræna þingmannaráðsins. Þar var einnig gerð ályktun sem fylgir hér með sem fskj. 2 þar sem þátttakendur minna á það að aðstæður séu nokkuð mismunandi í þessum löndum. Þeir kvarta yfir því að stjórnvöld eða stjórnmálamenn hlusti ekki á unga fólkið og taki ekki nægilegt tillit til þeirra skoðana í sínum ráðstöfunum og þeir minna einnig á húsnæðisvanda unga fólksins. Þeir benda þar á að það sé mjög mikil frjáls æskulýðsstarfsemi í öllum þessum löndum og það sé spurning hvort ekki sé hægt að styrkja vestnorrænt samstarf innan þessarar starfsemi með því að haldin væri vestnorræn æskulýðsráðstefna annað hvert ár til skiptis í þessum þremur löndum.
    Þeir benda einnig á atvinnuleysið sem hafi vaxið mjög og ekki hvað síst meðal unga fólksins. Við vitum að það er mjög mikið unga fólkið og konur sem sérstaklega verða fyrir barðinu á vaxandi atvinnuleysi og það er eðlilegt að unga fólkið lýsi þarna yfir áhyggjum þess vegna og þeir klykkja út með stóru letri um það að vandamálið sé alvarlegt. Það er vitaskuld full ástæða til þess að taka mark á þessu unga fólki sem hér er að álykta um atvinnuleysið og vita hvort ekki er hægt að finna sameiginlegar lausnir til

þess að stöðva það og koma í veg fyrir þetta vaxandi atvinnuleysi.
    Æskulýðsráðstefnan ályktaði einnig um fiskstofnana og sel- og hvalveiðar og bendir á að það þurfi að nýta sjávarspendýrin á vísindalegan, sjálfbæran hátt og bendir á að það þurfi kynningarátak, sérstaklega hjá þeim löndum sem við erum að flytja út til, það þurfi kynningarátak til að kynna sjónarmið og stefnu þessara þriggja landa.
    Þetta voru þessar þrjár ráðstefnur sem haldnar voru í tengslum við verstnorrænt ár 1992, og það má eiginlega segja að starf Vestnorræna þingmannaráðsins á síðasta ári hafi mjög borið merki þess vegna þeirra uppákoma sem þar voru áætlaðar og það var fjallað um hin ýmsu mál sem raunar hafa verið á dagskrá Vestnorræna þingmannaráðsins allt frá upphafi og maður sér yfirleitt ályktanir þess koma aftur og aftur um svipuð mál og sömu málin. Þetta var 8. ársfundurinn. Ráðið er búið að starfa síðan árið 1985 og ég hygg að það hafi sjaldan verið starfað meira en á þessu síðasta ári svo að það er gott að starfið fer vaxandi og það er greinilega þörf fyrir það að þessi þrjú lönd vinni saman og reyni að halda fram sínum skoðunum sameiginlega, ekki síst vegna þess að í norrænu samstarfi hefur áherslan beinst meira frá norðrinu, það fer ekki á milli mála, og því full ástæða til þess að halda á lofti sjónarmiðum þessa hluta hinna norrænu landa.
    Ályktanir sem gerðar voru á aðalfundinum er búið að leggja fram til umræðu. Þeirri umræðu er ekki lokið þannig að ég á von á því að það verði kannski meiri umræða um þáltill. hér á eftir þó að ég viti það ekki, en ég ætla ekki að ræða þær að þessu sinni. Það er búið að mæla fyrir þeim og ræða þær nokkuð, en ég vil enn og aftur ítreka það að ég tel að þetta starf sé nauðsynlegt, það hafi skilað allmiklum árangri í gegnum árin og ekki hvað síst þetta vestnorræna ár sem nú er nýliðið. Ég held að það hafi haft þau áhrif að auka samstarf og kynningu milli landanna sem ég tel mjög nauðsynlegt.