Almannatryggingar

127. fundur
Fimmtudaginn 11. mars 1993, kl. 16:33:39 (5988)

     Flm. (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) :
    Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að spyrja virðulegan forseta hvort ekki sé von á hæstv. heilbr.- og trmrh. í salinn því að ég vil helst ræða þessi mál að honum viðstöddum, ef það væri hægt að fá einhverjar upplýsingar um það hvort hann væri í húsinu eða væntanlegur í húsið. ( Forseti: Forseti vill taka fram af þessu tilefni að hæstv. heilbr.- og trmrh. hafði beðið um það að hann yrði látinn vita þegar færi að styttast í að hann ætti að verða hér, en þar sem forseti átti von á að það yrðu umræður um síðasta dagskrármál, þá hafði forseti ekki komið til hans boðum, en það verður gert nú þegar.) Já. Ég ætla nú engu að síður að hefja þessa umræðu en ekki að fresta henni þó ráðherrann sé ekki viðstaddur því að svo lengi hef ég beðið eftir því að ræða þetta mál að ég held að það væri til þess að æra óstöðugan að bíða öllu lengur.
    Þetta eru tvö mál eins og forseti tilkynnti hér. Annars vegar er um að ræða frv. til laga um breyting á lögum um almannatryggingar, nr. 67/1971, og það er á þskj. 359 og hins vegar er um að ræða frv. til laga um breyting á þrennum lögum, þ.e. lögum um almannatryggingar, um Innheimtustofnun sveitarfélaga og barnalögum og það er á þskj. 334.
    Ég ætla fyrst að víkja að því frv. sem er á þskj. 359 og varðar almannatryggingalöggjöfina. Það má kannski segja um þetta frv. að allt er þegar þrennt er vegna þess að það á uppruna sinn á 113. löggjafarþinginu þegar Málmfríður Sigurðardóttir, þingkona Kvennalistans, var 1. flm. að frv. sem var efnislega samhljóða þessu frv. en hún náði aldrei að mæla fyrir frv. á því þingi og það fékkst því ekki rætt. Síðan kom það fyrir á 115. löggjafarþinginu. Þá var ég 1. flm. þessa frv. Það komst þá til nefndar og fékk umsagnir í nefndinni en komst aldrei út úr nefndinni aftur. Þetta er sem sagt í þriðja sinn sem þetta frv. kemur fyrir hér á þingi og ég bind sannarlega vonir við að það fáist samþykkt á þessu þingi og má reikna með að það geti gengið fljótt og vel þar sem þessar umsagnir liggja nú fyrir.
    Forsendur hafa nokkuð breyst frá því að þetta frv. var fyrst flutt. Þannig hefur meðlag nú verið hækkað umtalsvert en það var síðast þegar ég talaði fyrir þessu máli 7.551 kr. en er nú 10.300 kr. Þessi breyting á meðlaginu hefur þó ekki áhrif að mínu mati á mikilvægi frv. heldur hefur það fyrst og fremst áhrif á innihald greinargerðarinnar því að þessi greinargerð var sett saman þegar meðlagið var enn þá 7.551 kr. en ekki 10.300 kr. þannig að það má segja að að ýmsu leyti séu ákveðnir hlutir í greinargerðinn orðnir úreltir. En við því er ekkert að gera. Þegar bíða þarf lengi eftir því að fá að tala fyrir málum, þá geta svona hlutir gerst, þ.e. að mál verði hreinlega úrelt að hluta til af því að bíða hér.
    Aðalatriðið í þessu máli er hins vegar það að frv. gengur út á það að barnalífeyrir og þar með lágmarksmeðlag verði reiknað út frá rauntölum, þ.e. raunkostnaður við það að framfleyta barni en ekki út frá ímynduðum tölum eða pólitískt ákvörðuðum tölum sem taka þá fyrst og fremst mið af því sem hentar ríkisvaldinu á hverjum tíma. Það er með öðrum orðum lagt til að árlegur barnalífeyrir með hverju barni sé ákvarðaður og byggist á könnun á kostnaði við framfærslu barns og eins og segir í 1. gr. frv. ,,að frádregnum bótum fyrir einstæða foreldra og skal barnalífeyrir aldrei nema lægri upphæð en sem nemur helmingi þess kostnaðar``, þ.e. helmingi kostnaðar við framfærslu að frádregnum bótum til einstæðra foreldra. Með þessu móti ætti að vera tryggt að framlög til barns nægi barninu til framfærslu, þ.e. samanlögð framlög foreldra og opinberra aðila. Mig langar í þessu sambandi að benda á þó að ég selji það nú reyndar ekki dýrar en ég keypti það, að mér hefur verið sagt að í þýsku stjórnarskránni sé kveðið á um það að skylt sé að taka tillit til framfærslukostnaðar barna. Með öðrum orðum, það eigi að tryggja fjölskyldum ákveðinn lágmarksframfærslulífeyri og það sé í rauninni stjórnarskrárbrot ef fjölskyldum sé ekki tryggður þessi lífeyrir.
    Ég held að það sé mjög mikilvægt að fá raunhæft mat á framfærslukostnað barna. Slíkt mat liggur ekki fyrir. Ýmsir hafa reynt að meta þetta. Þannig hefur lánasjóðurinn ákveðnar tölur um framfærslukostnaðinn og Félag einstæðra foreldra hefur gert kannanir á þessu, en mér vitanlega hafa opinberir aðilar aldrei gert raunhæfa könnun á því hver sé framfærslukostnaður barna. Könnun Félags einstæðra foreldra sem vitnað er til hér er nýleg. Það er meðaltal á árinu 1991. Þar kemur fram að framfærslukostnaður barns sé um 30 þús. á mánuði fyrir börn að 10 ára aldri og um 37 þús. á mánuði fyrir börn 10--16 ára. Ég held að þetta sé ekki fjarri lagi sem kostnaður við framfærslu barns og hugsa ég það nú bara og met það út frá minni eigin reynslu í þessum efnum og hef svo sem ekki við annað að styðjast. Ef við getum gefið okkur að þessi könnun og þessi kostnaður sé nærri lagi, þá má hugsanlega segja að meðlag sé eftir þá hækkun sem gerð var núna um áramótin kannski svolítið á réttu róli núna sem það alls ekki var fyrir nokkrum mánuðum, þ.e. 10 þús. kr. hlutur föður í flestum tilvikum komi þá á móti 10.300 kr. hlut móður eða framfæranda og síðan koma þá barnabætur og hugsanlegur barnabótaauki. Það má kannski segja að meðlagið sé á réttur róli um þessar mundir. Það breytir þó ekki tillögunni, hún á fullt erindi vegna þess að í rauninni segir tillagan ekkert um upphæð meðlags hvorki til hækkunar né lækkunar. Frv. segir aðeins hvernig hlutdeild meðlagsgreiðanda skuli reiknuð út eða hvernig barnalífeyririnn, sem Tryggingastofnun greiðir með börnum þar sem foreldri er látið eða þar sem ekki hefur verið feðrað eða í öðrum slíkum tilvikum, skuli ákvarðaður.
    Á síðasta þingi fór þetta frv. til umsagnar hjá ýmsum aðilum og voru flestir jákvæðir í umsögnum sínum. Nægir þar að nefna Félag einstæðra foreldra sem var mjög jákvætt, barnaverndarráð var líka jákvætt en benti á í umsögnum sínum að eins og segir hér, með leyfi forseta:
    ,,Barnaverndarráð fær ekki séð að það væri til bóta að skipa sérstaka nefnd til þess að gera tillögur til ráðherra um fjárhæð barnalífeyris.``
    En í frv. eins og ég lagði það fram á síðasta þingi gerði ég ráð fyrir því að sett yrði á laggirnar sérstök nefnd til þess að gera þessa könnun. Ráðið telur að það væri einfaldara og líklegra til árangurs að fela tryggingaráði það hlutverk að meta þennan kostnað. Ráðherra mundi síðan ákveða lífeyrinn á grundvelli mats tryggingaráðs. Ég hef tekið mið af þessari umsögn í frv. mínu og eins og það liggur nú fyrir er gert ráð fyrir því að tryggingaráð láti gera könnun á kostnaðinum og geri síðan tillögu á grundvelli þess til ráðherra sem ákveði upphæðina. Þá segir einnig í umsögn barnaverndarráðs og það er um frv. eins og það lá fyrir hér síðast:
    ,,Barnaverndarráð hefur einnig athugasemd við síðustu setningu frv. en þar stóð: ,,Ekki skal greiða barnalífeyri vegna þeirra barna er njóta örkurkulífeyris.````
    Eins og bent er á í umsögn barnaverndarráðs er þessi setning tekin óbreytt í frv. úr 6. mgr. 15. gr. laga um almannatryggingar og ég sem 1. flm. þessa frv. velti svo sem ekkert sérstaklega fyrir mér þessari tilteknu grein, en ég hef að ábendingu barnaverndarráðs og eins að ábendingu Öryrkjabandalags Íslands að sjálfsögðu fellt þessa setningu út, enda á hún ekkert erindi inn í þetta frv. og er bara arfur frá gömlum tíma, þess vegna hefur þetta verið tekið út.
    Þá er Kvennaráðgjöfin mjög jákvæð. Bandalag starfsmanna ríkis og bæja var með jákvæða umsögn en tvær neikvæðar komu og var önnur frá Innheimtustofnun sveitarfélaga og hin frá Tryggingastofnun. Rökin sem þar koma fram eru m.a. þau að þetta leiði til hækkunar væntanlega á meðlagi og það var samþykkt eftirfarandi bókun í stjórn Innheimtustofnunar sveitarfélaga sem hljóðar svo:
    ,,Með skírskotun til þeirra erfiðleika sem margir foreldrar eiga í við að standa í skilum með endurgreiðslu meðlaga með börnum sínum, svo sem þeir sem eru með börn á framfæri á heimilum sínum og njóta lágra launa, treystir stofnunin sér ekki til að mæla með hækkun meðlaganna.``
    Þegar Innheimtustofnun sveitarfélaga tók afstöðu til frv. míns þá var hún fyrst og fremst að taka afstöðu til þeirrar hækkunar, sem af frv. leiddi en nú hefur ríkisvaldið gengið fram fyrir skjöldu, hækkað meðlagið þannig að ég lít svo á að rök Innheimtustofnunar sveitarfélaga og Tryggingastofnunar ríkisins séu í rauninni fallin því að rökin gegn frv. mínu byggðust fyrst og fremst á hækkuninni sem mundi af því leiða við þáverandi aðstæður. Mér finnst að þau rök séu ekki lengur gild þar sem búið er að hækka meðlagið og það var gert af ríkisvaldinu og frv. mitt, það sem eftir stendur, er þá fyrst og fremst um að það verði ákvarðað með skipulegum hætti hvernig barnalífeyrir skuli fundinn út og hvernig meðlag skuli ákvarðað.
    Virðulegur forseti. Áður en ég lýk umræðu um þskj. 359, þá vil ég að sjálfsögðu leggja til að það frv. fari til skoðunar í hv. heilbr.- og trn. þingsins.
    Hitt frv. er á þskj. 334 og eins og ég sagði er það frv. til laga um breyting á þrennum lögum, almannatryggingalögum, lögum um Innheimtustofnun sveitarfélaga og barnalögum. Í stuttu máli sagt felst raunar í þessu frv. að auðvelda að semja um og úrskurða um aukið meðlag með börnum og auðvelda forræðisaðila barns að sækja þetta aukna meðlag eftir að það hefur verið úrskurðað eða samið um það. Eins og málum er háttað í dag er það þannig að ef foreldrar semja um aukið meðlag eða ef það er úrskurðað um aukið meðlag með barni, þá verður það foreldri, sem fer með forræði barnsins og fær lágmarksmeðlag greitt í gegnum Tryggingastofnun sem sækir það síðan til Innheimtustofnunar sveitarfélaga sem aftur innheimtir það hjá meðlagsgreiðandanum, að sækja sjálft hið aukna meðlag fáist það ekki greitt um hver mánaðamót eins og samningar eða úrskurðir segja til um, og verður þá einfaldlega að leita sér lögfræðilegrar aðstoðar til þess að innheimta þetta meðlag. Í lögum um Innheimtustofnun sveitarfélaga er gert ráð fyrir því að stofnuninni sé heimilt að taka að sér að innheimta aukið meðlag en þá aðeins gegn greiðslu, þ.e. þá þyrfti forræðisforeldrið að greiða Innheimtustofnun sveitarfélaga fyrir það að innheimta þetta aukna meðlag.
    Ástæðan fyrir því að ég fór að velta þessu máli fyrir mér var kannski ekki síst sú umræða sem átti sér stað á síðasta ári um meinta misnotkun á því kerfi sem byggt hefur verið upp hér á landi til stuðnings einstæðum foreldrum. Það er kunnara en frá þurfi að segja að sl. sumar skipaði hæstv. heilbr.- og trmrh. sérstaka nefnd til að kanna þessa meintu misnotkun og af skýrslu nefndarinnar sem kom út 15. sept. á sl. ári má ráða þó að það sé reyndar hvergi sagt berum orðum, að nefndin telji að talsverð brögð séu að þessari misnotkun. Eitt af því sem nefndin nefnir til sögunnar í þessu sambandi er fjölgun bótaþega mæðra- og feðralauna um 3,5% milli áranna 1989 og 1990 og um 2,8% milli áranna 1990--1991, þ.e. nefndin segir að það sé talsverð aukning hjá bótaþegum mæðra- og feðralauna og gefur sér að það muni væntanlega þýða einhvers konar misnotkun.
    Í fyrsta lagi er það að segja að ég reikna með því að hækkun meðlags um síðustu áramót, þ.e. tilflutningur úr mæðra- og feðralaunum yfir í meðlagið ætti að breyta þessari mynd að einhverju leyti. Í öðru lagi vil ég benda á að það er vafasamt að álykta út frá þeim tölum sem nefndin hefur að um mikla misnotkun sé að ræða vegna þess að ef maður lítur á töflu sem kemur fyrir í þessari skýrslu nefndarinnar, þá er ekki aðeins um að ræða fjölgun í hópnum ,,Einstæðir foreldrar`` um 2,6% heldur eru að eiga sér stað samkvæmt þessum upplýsingar miklar breytingar á sambýlisformum. Þannig vekur það auðvitað athygli að á 20 ára tímabili, milli áranna 1971 og 1991, fækkar foreldrum í hjónabandi með börn um 20,5%. Foreldrum í óvígðri sambúð með börn fjölgar um 8,9% á sama tímabil. Einstæðum foreldrum fjölgar um 2,6% á milli þessara ára. Á barnlausum hjónaböndum er athyglisverð fjölgun því að hún er um 7,2% og í sambúð án barna er fjölgun um 2%. Í rauninni verður meiri fjölgun í sambúðarformunum foreldri í óvígðri sambúð með börn og barnlaus hjónabönd heldur en í hópnum einstætt foreldri. Mér finnst út frá þessu fyrst og fremst að þessar tölur gefi til kynna ákveðnar breytingar í sambýlisformum í okkar samfélagi sem hafa verið að eiga sér stað á undanförnum 20 árum en ekki endilega misnotkun. Mér finnst það vera oftúlkun á þessum tölum að tala um misnotkun.
    Ef breyting um 2,6% á þessum 20 árum er til marks um misnotkun, þá vil ég líka halda því fram hér og tel mig geta staðið á því fastar en fótunum að þetta er miklu minni misnotkun heldur en í ýmsum öðrum kimum kerfisins eins og t.d. í skattamálum og í rauninni furðulega lítil miðað við það hversu illa er búið að sambúðarfólki með börn í okkar samfélagi. Og það kæmi ekkert á óvart þó að fólk reyndi að gera út á þetta kerfi í raun ef við miðum við þann fátæklega stuðning sem barnafjölskyldur almennt njóta, t.d. í formi barnabóta og dagvistunar en það þekkja þeir sem eiga börn hér í Reykjavík að þar hefur ekki verið um áratuga skeið á vísan að róa þegar kemur að dagvistun barna. Og þeir sem þurfa á henni

að halda meira en hálfan daginn hafa þurft að greiða hana dýrum dómum hjá dagmæðrum. Það eitt gæti bara verið þess valdandi að fólk reyndi að misnota, eins og kallað er, þetta kerfi.
    Umræðan um þessi mál hefur því miður ekki snúist um þetta, þ.e. um það hversu illa er í rauninni búið að eða hversu fátæklegur stuðningurinn er almennt við barnafólkið í þessu samfélagi, heldur hefur umræðan miklu meiri tilhneigingu til að beinast gegn einstæðum foreldrum og þá fyrst og fremst gegn einstæðum mæðrum. Og margir hafa séð ofsjónum yfir þeim stuðningi sem einstæðar mæður eða einstæðir foreldrar njóta af opinberu fé. Þess verður ekki eins vart eins og ég hef nú reyndar áður bent á hér í umræðu að menn beini spjótum sínum að meðlagsgreiðendum sem flestir hverjir, þó vissulega séu frá því heiðarlegar undantekningar, greiða aðeins lágmarksmeðlag með börnum sínum. Þetta hefur átt við og á svo sem enn við þó að búið sé að hækka meðlagið. Aukið meðlag með börnum er afskaplega fátítt. Það er afskaplega fátítt að meðlagsgreiðendur greiði aukið meðlag með börnum sínum.
    Ég lagði fram fyrirspurn fyrr á þessu þingi sem ég fékk svarað þann 4. jan. sl. einmitt um þessi mál, um meðlög, úrskurð og samninga um aukið meðlag. Það var til dómsmrh. og var spurning um hversu margir samningar hefðu farið til staðfestingar í dómsmrn. og hversu margir úrskurðir þar hefðu verið gefnir út um aukið meðlag og þar kom fram að á tímabilinu frá 1. júlí 1991 til 1. júlí 1992, þ.e. einu ári, höfðu verið gefnir út 27 meðlagsúrskurðir og gerðir 423 samningar um meðlag í ráðuneytinu. Af þessum 27 meðlagsúrskurðum var úrskurðað um aukið meðlag í 14 málum, í helming mála. En úrskurðirnir komu auðvitað til ráðuneytins vegna þess að það var ágreiningur, vegna þess að forræðisforeldri var að sækja á um aukið meðlag og meðlagsgreiðandi var að reyna að komast hjá því að greiða aukið meðlag. Þetta voru 27 mál sem komu þannig til meðhöndlunar í ráðuneytinu á þessu eina ári og ráðuneytið úrskurðar um aukið meðlag í helmingi tilvika eða í 14 málum.
    Það komu 423 samningar inn í ráðuneytið á þessu tímbili til staðfestingar. Aðeins í 33 tilvikum var staðfestur samningur um aukið meðlag með börnum, þ.e. í 7,8% tilvika var staðfestur samningur um aukið meðlag og það eru þá foreldrarnir sem koma sér saman um þetta aukna meðlag. Það sem vekur líka athygli í þessu sambandi er hvað viðbótarmeðlagið var í rauninni lítið, þetta meðlag sem greitt var til viðbótar lágmarksmeðlaginu. Þannig kemur í ljós að ef við tökum úrskurðina sem voru 14, þá var samkvæmt þeim meðalupphæð aukins meðlags eitt meðlag og 3 / 4 hlutar meðlags, þ.e. 1 3 / 4 hlutar meðlags. Meðalupphæð aukins meðlag samkvæmt staðfestum samningum foreldra var hins vegar aðeins hærra, rúmlega tvöfalt meðlag. Þegar fólkið samdi sjálft virtist það semja aðeins betur en þegar ráðuneytið fékk mál til úrskurðar.
    Það er líka athyglisvert að sjá líka hvernig dómsmrn. metur greiðslugetu meðlagsgreiðenda vegna þess að ráðuneytið úrskurðar að foreldri þurfi að fara yfir meðallaun karla á aldrinum 20--60 ára til þess að hafa fjárhagslega getu til þess að greiða viðbótarmeðlag. Og það er ekki fyrr en foreldri hefur um 235 þús. kr. í mánaðartekjur að það telst geta greitt 20.600 kr. með einu barni samkvæmt úrskurðum ráðuneytisins. Foreldri þarf síðan að fara upp í 343.600 kr. á mánuði til þess að geta talist hafa greiðslugetu sem nemur 30.900 kr. með einu barni á mánuði, þ.e., það er mat ráðuneytisins að foreldri sem er með tæplega 350 þús. kr. tekjur sé með greiðslugetu í meðlagi upp á 30.900 kr. ef ég met þetta út frá rauntölum í dag. Þetta er auðvitað athyglisvert þegar þess er gætt að þetta er mat ráðuneytisins á greiðslugetu meðlagsgreiðenda og ef við berum það saman við það sem fólk sem er bara með lágmarkstekjur og miðlungstekjur þarf að greiða unnvörpum í barnapössun og í framfærslu barna sinna án þess að mæta nokkrum skilningi frá opinberum aðilum á þeim útgjöldum. Og ég vil fullyrða það að foreldrar almennt mæta mjög litlum skilnilngi hjá opinberum aðilum á þeim kostnaði sem þeir hafa af börnum sínum eins og lækkanir núv. ríkisstjórnar á barnabótum á síðasta þingi eru til marks um.
    En umræðan um einstæðu foreldrana og einstæðu mæðurnar er enn dapurlegri fyrir þá sök að allar kannanir sýna að fjölskyldur einstæðra foreldra, og konur eru yfir 90% þeirra sem teljast til einstæðra foreldra, eru almennt mun verr settar bæði fjárhagslega og félagslega en þær fjölskyldur þar sem eru tvær fyrirvinnur á heimili. Þannig eru meðaltekjur einstæðra foreldra um 90 þús. kr. á mánuði en meðaltekjur foreldra í sambúð um 230 þús. kr. á mánuði og þarna er auðvitað gífurlegur aðstöðumunur sem börn verða fyrir, eftir því hvort þau búa hjá einstæðu foreldri eða foreldrum í sambúð.
    Markmiðið með opinberu stuðningskerfi við þessar fjölskyldur hefur því alla tíð verið að veita þeim þá félagslegu og efnahagslegu vernd án tilits til hjúskaparstéttar og fjölskyldutengsla sem Félagsmálasáttmáli Evrópu kveður á um að mæður og börn skuli njóta og það er einmitt eitt af því sem nefndin fjallar um, nefndin sem ráðherra skipaði. Hún leggur mikla áherslu á það að allar fjölskyldur án tillits til hjúskaparstéttar og fjölskyldutengsla skuli njóta félagslegrar og efnahagslegrar verndar. En hins vegar kemst þessi sama nefnd að því, sem í mínum eyrum eru eins og hver önnur öfugmæli og alls ekki samboðið ríkisskipaðri nefnd að láta frá sér fara, að það stuðningskerfi sem hér er rekið til stuðnings einstæðum foreldrum og börnum sé í ósamræmi við markmið Félagsmálasáttmála Evrópu því að það geti mismunað mæðrum og börnum eftir hjúskapargerð. Með öðrum orðum, það veiti börnum einstæðra foreldra einhver forréttindi eftir því sem nefndin segir. En auðvitað var þetta kerfi alla tíð hugsað og sett á laggirnar til þess að bæta þessum börnum upp þá efnahagslegu og félagslegu mismunun sem þau verða fyrir vegna þess að þau njóta aðeins annars foreldrisins eins og meðaltöl um tekjur einstæðra foreldra benda til, en eins og ég sagði eru þær um 90 þús. kr. á mánuði.

    Eftir tölum sem ég hef aflað mér, og reyndar eru þær tölur fengnar úr skýrslu þessarar nefndar, þá telst mér til að um 6.600 börn séu hjá einstæðum foreldrum sem hafa undir 100 þús. kr. í tekjur, en um 2.500 börn séu hjá sambúðarfólki með undir 100 þús kr. á mánuði. Þarna er reginmunur á. 6.600 börn annars vegar hjá einstæðum foreldrum sem hafa undir 100 þús. kr. á mánuði í tekjum, en hins vegar 2.500 börn hjá sambúðarfólki og þetta segir auðvitað meira en mörg orð um þá mismunun sem þarna er á ferðinni.
    Það má auðvitað bæta úr þessu, m.a. með því að ef annar meðlagsgreiðandi er vel aflögufær, þá leggi hann meira af mörkum til framfærslu barna sinna en bara lágmarksmeðlagið. Nú er staðan reyndar sú að þó að það séu ekki margir sem greiða meira en lágmarksmeðlag með börnum sínum, þá er ástæðan fyrir þessu ekki sú að ekki séu lagaheimildir til að semja um eða úrskurða um að meðlag taki mið af efnum og aðstæðum. Í 2. mgr. 10. gr. barnalaga segir:
    ,,Framfærslueyri skal ákveða með hliðsjón af þörfum barnsins og fjárhagsstöðu og öðrum högum beggja foreldra, þar á meðal aflahæfi þeirra.``
    Það er alveg skýrt kveðið á um það að það eigi að ákveða meðlag með hliðsjón af efnum og aðstæðum foreldra. Og í 2. mgr. 11. gr. barnalaga segir: ,,Í meðlagsúrskurði má aldrei ákveða lægri meðlagsgreiðslu en barnalífeyrir nemur eins og hann er ákveðinn á hverjum tíma samkvæmt lögum um almannatryggingar.``
    Þarna er með öðrum orðum tryggt ákveðið lágmarksmeðlag, en engar takmarkanir settar á aukið meðlag. Á framkvæmdinni er þó sá hængur að ábyrgð hins opinbera á meðlagsgreiðslum takmarkast við lágmarksmeðlag eins og ég gat um hér áðan. Ef meðlagsúrskurður eða staðfestur samningur foreldra kveður á um hærra meðlag en lágmarksmeðlag verður það foreldri sem fer með forsjána að innheimta það sem umfram er hjá meðlagsgreiðandanum en fær þá upphæð ekki greidda í gegnum Tryggingastofnun ríkisins eins og lágmarksmeðlagið.
    Ég minntist hér áðan á að í lögum um Innheimtustofnun sveitarfélaga væri stofnuninni að vísu heimilt að taka að sér innheimtu aukins meðlags fyrir forsjáraðilann gegn greiðslu, en hins vegar virðist sem stofnunin hafi ekki boðið upp á notkun þessa heimildarákvæðis frá því að hún tók til starfa. Þetta fyrirkomulag á greiðslu aukins meðlags er bundið í 25. gr. barnalaga, 73. gr. laga um almannatryggingar og 3. gr. laga um Innheimtustofnun sveitarfélaga. Öllum þessum lagagreinum þarf því að breyta til að auðvelda innheimtu aukins meðlags. Er þetta ekki síst mikilvægt nú þar sem í aðskilnaði dóms- og framkvæmdarvalds í héraði 1. júlí sl. varð sú breyting að sýslumenn taka nú til úrskurðar kröfu um viðbótarmeðlag en áður þurfti að vísa slíkum málum til úrskurðar í dómsmrn. og ég held að þessi breyting geti hugsanlega leitt til þess að við sjáum á næstunni fleiri úrskurði um aukið meðlag og það muni ganga hraðar fyrir sig en áður og þess vegna sé líka mikilvægt að hafa ekki bara úrskurðarþáttinn í lagi heldur líka innheimtuþáttinn þannig að forsjáraðilinn þurfi ekki að eyða miklum tíma, kröftum og fjármunum í það að ná í þetta aukna meðlag.
    Ég held að ef lagaheimildir sem eru núna í barnalögunum og víðar um aukið meðlag eiga að koma að fullum notum, þá þurfi að einfalda innheimtuna og koma henni þannig fyrir að forsjáraðilinn þurfi ekki að standa í stöðugu skæklatogi við meðlagsgreiðandann.
    Við sem erum flm. þessa frv. leggjum það fram til þess að ná þessum breytingum sem ég hef lýst og þess vegna er þetta frv. nokkurs konar bandormur, þ.e. þetta er frv. til laga um breytingar á þrennum lögum og þessi lög eru öll samtengd hvað varðar greiðslu meðlags til foreldris. Markmið frv. er að afnema lagalegar hindranir gegn því að opinberir aðilar hafi milligöngu um greiðslu aukins meðlags.
    Ég veit ekki hvort ég þarf að hafa nokkuð fleiri orð um þetta frv. Í 1. gr. er í rauninni bara löggilt sú breyting á almannatryggingalögunum að greiðsla Tryggingastofnunar ríkisins á meðlagi til foreldris verði ekki bundin við lágmarksfjárhæð meðlags, heldur taki hún einfaldlega mið af úrskurðinum eða samningnum. Foreldri leggur þá fram sinn meðlagsúrskurð eða sinn samning um meðlag og Tryggingastofnun borgar það út, fær það síðan hjá Innheimtustofnun sem aftur innheimtir það hjá meðlagsgreiðandanum.
    Í 2. gr. er lagt til að felld verði niður heimild Innheimtustofnunar sveitarfélaga til að taka gjald fyrir innheimtu þess hluta meðlags sem er hærri en lögmætur barnalífeyrir. Um innheimtu stofnunarinnar og kröfu vegna meðlags með börnum fer þó að öllu leyti eftir 1. mgr. 3. gr. laganna eins og ég sagði áðan. Hún innheimtir einfaldlega í samræmi við úrskurð eða samning.
    Síðan er í 3. gr. lagt til að fellt verði brott ákvæði í 1. mgr. 25. gr. barnalaga, sem takmarkar skyldu Tryggingastofnunar ríkisins til greiðslu framfærslueyris, annars vegar við 18 ára aldur og hins vegar við barnalífeyri. Um aldurstakmarkið er það að segja að ég sé ekki að það sé ástæða til þess að hafa það þarna inni þar sem það er skýrt kveðið á um það í 13. gr. barnalaganna að framfærslu skyldu ljúka við 18 ára aldur og fyrr ekki og þá vil ég auðvitað ekki hafa í barnalögunum núna að skylda Tryggingastofnunar sé takmörkuð við lágmarksgreiðslu.
    Að lokinni þessari umræðu, virðulegi forseti, legg ég til að frv. verði vísað til 2. umr. og heilbr.- og trn.