Fræðslustörf um gigtsjúkdóma

127. fundur
Fimmtudaginn 11. mars 1993, kl. 17:24:40 (5991)

     Jón Helgason :
    Hæstv. forseti. Flm. hefur gert ítarlega grein fyrir efni þessarar þáltill., en tilgangur hennar er að benda á leiðir til að koma í veg fyrir þjáningar og tjón sem gigtarsjúkdómar valda. Eins og fram kom í máli flm. þá er það því miður of algengt að hyggja ekki nægilega vel að því að reyna að koma í veg fyrir að illa fari og því þurfum við um of að eyða kröftum og fjármagni til þess að reyna að lagfæra það sem úrskeiðis hefur farið.
    Ég ætla aðeins að víkja að einum þætti þessara gigtarsjúkdóma og það er beinþynning. Það kemur fram í upplýsingum frá sérfræðingum að hún orsakar u.þ.b. 15% af öllum gigtarsjúkdómum sem hér eru. Þarna er því um mjög mikinn orsakavald og dýran að ræða. En jafnframt benda sérfræðingarnir á það að rétt mataræði er einfaldasta og besta vörnin gegn þessum sjúkdómi. Þá er það fyrst og fremst mjólk og mjólkurvörur sem eru þar úrræðið. Sem betur fer hefur fjölbreytni þeirra mjólkurvara sem hér eru á boðstólum aukist mjög mikið á undanförnum árum þannig að neytendur eiga kost á að velja úr því sem heppilegast er fyrir hvern og einn þannig að ekki verði um of mikla neyslu að ræða sem veldur of mikilli fitusöfnun. Því miður hafa stundum komið fram órökstuddar fullyrðingar um að það sé jafnvel varasamt að neyta of mikils af þessari fæðu. Staðreyndirnar virðast nú tala öðru máli. Vil ég benda á nýlegar upplýsingar frá Vinnueftirliti ríkisins þar sem fram kemur að engin stétt í landinu mun neyta meira af þessari vöru heldur en bændastéttin. Jafnframt að lífslíkur hennar eru miklu meiri eða horfur á lífaldri langt fyrir ofan meðaltal hjá þjóðinni. Ekki vildu sérfræðingarnir fullyrða hversu mikið það væri en þar væri um mikinn mismun að ræða þrátt fyrir að þessi stétt sé talin neyta mjólkurvara miklu meira en aðrar stéttir.
    Vissulega er margt fleira sem hefur þar áhrif að þeirra mati. En það virðist vera að fullyrðingarnar um hættu frá því fæði sem þar er mest neytt eigi ekki við rök að styðjast. En því miður eru allt of algengir gigtarsjúkdómur sem stafa af völdum beinþynningar. Þar verður að hafa fyrirhyggju til að koma í veg fyrir slíkt því það gerist ekki í einu vetfangi að slíkur sjúkdómur birtist heldur má rekja það ár og jafnvel áratugi aftur í tímann, þ.e. vegna þeirrar fæðu sem neytt hefur verið og skorts á kalki.
    Ég skal ekki fjölyrða frekar um þetta en vildi vekja athygli á þessari augljósu staðreynd og jafnframt þeirri einföldu leið að mati sérfræðinganna að neyta þeirrar fæðu sem holl er og þannig er hægt að koma í veg fyrir bæði miklar þjáningar sem margir verða fyrir og gífurlegar fjárhæðir sem fara í það að reyna að bæta úr þegar skaðinn er orðinn.