Fræðslustörf um gigtsjúkdóma

127. fundur
Fimmtudaginn 11. mars 1993, kl. 17:33:56 (5994)

     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Frú forseti. Eins og fram kemur í þessari þáltill. og raunar einnig í framsöguræðu flm., þá er það að sjálfsögðu rétt að árið 1992 var sérstakt gigtarár á Norðurlöndum. Á því ári var varið fé úr samnorrænum sjóðum til sameiginlegra viðfangsefna, en meginreglan var sú að hvert land fyrir sig átti síðan að greiða fyrir þau sérverkefni sem unnin væru í löndunum.
    Ég vil aðeins upplýsa að af ráðstöfunarfé því sem heilbr.- og trmrh. hefur til ráðstöfunar varði ég allverulegum hluta á árinu 1991 til Gigtarfélags Íslands til þess að undirbúa gigtarárið og á árinu 1992 veitti Alþingi auk þess umtalsvert fjármagn á fjárlögum til félagsins til þess að vinna að ýmsum viðfangsefnum hér heima auk þess sem á því ári veitti ég einnig umtalsvert fjármagn af mínu ráðstöfunarfé til Gigtarfélagsins í því skyni. Í því sambandi vil ég gjarnan geta þess að Gigtarfélagið og þeir sem að fræðslunni og verkefnunum stóðu, sem unnin voru hér á landi, gerðu það af einstakri fyrirmynd og notuðu þá takmörkuðu fjármuni sem þeir höfðu til ráðstöfunar mjög vel auk þess sem þessir aðilar lögðu á sig mikið sjálfboðastarf. Á árinu var unnin mikil fræðslustarfsemi, bæði á vegum gigtarlækna og á vegum Gigtlækningafélags Íslands. Ég minni t.d. á í því sambandi að það voru reglulega skrifaðar greinar í Morgunblaðið um vandamál gigtsjúkra og þær aðferðir og aðgerðir sem gætu gagnast þeim til hjálpar og til að koma í veg fyrir slíka sjúkdóma. Nú er unnið að því, bæði á vegum innlendra aðila og samnorrænna, að taka saman skrá yfir árangur þessara aðgerða og undirbúa hvernig úr því skuli unnið. Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherrar á Norðurlöndum hafa átt fundi með framkvæmdaaðilum gigtlækningarársins og ég vil að það komi fram að á þeim fundum kom mjög vel í ljós að þeir sem unnu að þessum málum á Íslandi á árinu 1992 hafa gert það af einstökum glæsibrag.
    Eins og ég segi er nú verið að vinna að því að taka saman árangurinn af árinu 1992 og þau atriði sem þar megi læra af og halda fræðslunni áfram og þessir aðilar mega að sjálfsögðu reikna með því að heilbrrn. styðji þá áfram til þeirra starfa sem þar er verið að vinna, en umsvifin ráðast að sjálfsögðu af þeim fjárveitingum sem hv. Alþingi treystir sér til að láta af hendi til þeirra mála.