Sóttvarnalög

127. fundur
Fimmtudaginn 11. mars 1993, kl. 18:14:40 (6003)

     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) (andsvar) :
    Frú forseti. Ég ætla ekki að taka landamærastríð heilbrigðisstéttanna til umræðu á Alþingi en það er auðvitað alþekkt. Staðreyndin er hins vegar einfaldlega sú að það eru læknar sem taka ákvarðanir um meðferð sjúkra. Læknar taka ákvarðanir um meðferð sjúkra og læknar taka ákvarðanir um meðferð sjúkdóma. Það liggur alveg fyrir. Það er þeirra hlutverk eins og það er skilgreint í læknalögum. Það eru ekki aðrar stéttir en læknar sem það gera. Þeir taka ákvörðun um meðferð sjúkra og þeir taka ákvörðun um meðferð sjúkdóma og þeir mæla fyrir um hvernig það skuli gert. Það eru þau einföldu sannindi sem menn verða að una við því þau eru lögfest í læknalögum.