Sóttvarnalög

127. fundur
Fimmtudaginn 11. mars 1993, kl. 18:17:15 (6006)

     Margrét Frímannsdóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það var um annað atriði sem ég ætlaði að ræða því hæstv. heilbrrh. sagði í upphafi ræðu sinnar að við ættum ekki að koma og endurtaka ræður sem hefðu verið fluttar á síðasta ári, það væri aðeins til að tefja málið og e.t.v. að koma í veg fyrir afgreiðslu þess. Ég var ekki við þessa umræðu á síðasta ári og tek þetta ekki til mín en ég vil þá líka benda á það að ef það hafa komið fram ábendingar á síðasta ári og athugasemdir, sem eflaust hefur verið, þá hefur ekki verið tekið tillit til þeirra vegna þess að frv. er lagt fram óbreytt ef frá er talið gildistökuákvæðið.
    Ég er líka viss um að hv. formaður heilbr.- og trn. mun örugglega safna saman fyrir okkur helstu punktum úr umræðunni á síðasta ári og örugglega þeirri sem hér fer fram og mér finnst þetta svolítið óréttlátt vegna þess að við sýnum þessu máli það mikinn áhuga að við erum hér til þess að ræða það og við viljum fá góða löggjöf um sóttvarnir og þess vegna sitjum við hér og ræðum þetta af einskærum áhuga á málefninu.