Umhverfisskattar

127. fundur
Fimmtudaginn 11. mars 1993, kl. 18:47:30 (6013)

     Margrét Frímannsdóttir :
    Virðulegi forseti. Mig langar aðeins til þess að fá að beina tveim, þrem spurningum til hv. flm. og frsm. hér. Það er í fyrsta lagi hvernig hann sér það fyrir sér að það geti gerst að umhverfisskattar í því formi sem hann hér leggur til komi í stað þekktra tekjustofna eins og tekjuskatts, eignarskatts, útsvars og aðstöðugjalds vegna þess að mér sýnist að þessu hagræna stjórntæki eigi að beita á þann veg að greiðslan fari eftir magni og umfangi mengunar og verði þá hvetjandi til þess að menn dragi úr mengun og þar af leiðandi hljóta tekjur ríkissjóðs að verða minni. Mig langar bara til að spyrja hann að því hvernig hann sér þetta geta gerst, að þessir umhverfiskattar geti komið á einhvern hátt í stað þessara þekktu tekjustofna og jafnframt hvort það sé sjónarmið flm. að ef menn hafa ráð á því að menga, ef menn geta borgað fyrir mengunina, þá sé það allt í lagi. Svo lengi sem þeir greiða fyrir hana, þá megi þeir menga.