Umhverfisskattar

127. fundur
Fimmtudaginn 11. mars 1993, kl. 18:49:05 (6014)

     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Sú þáltill. sem hér hefur verið mælt fyrir um umhverfisskatta er vafalaust sprottin af góðum hug almennt til málefnisins. Það dreg ég ekki í efa. Það mátti skilja á hv. 1. flm. þessarar tillögu en hitt verð ég að viðurkenna að mér finnst þetta mál vera allflausturslega hér fyrir lagt og í rauninni skorta mjög á það að flm. geri einhverja skilmerkilega grein fyrir því hvernig það kerfi, sem þeir eru að óska eftir að athugað verði af hálfu umhvrh. og fjmrh., eigi að virka.
    Víða um lönd er verið að kanna möguleika á því að beita skattlagningu eða gjaldtöku til að hafa áhrif á þróun vöruframleiðslu til bóta út frá umhverfislegum sjónarmiðum, draga úr mengun, gera það dýrara að ganga á hlut umhverfisins. Það er allt saman góðra gjalda vert svo langt sem það nær. Þar sem þetta hefur verið til umræðu, eins og t.d. innan Evrópubandalagsins að því er varðar koltvísýring og varðandi hættuleg eða mengandi efni af ýmsu tagi á Norðurlöndum þar sem talsvert hefur verið um þetta fjallað og gjaldtöku verið beitt í ýmsum tilvikum, þá hefur það ekki verið undir því formerki sem hér er fyrir lagt í þessari tillögu að þetta leiði í rauninni til einhverrar allsherjarskattkerfisbreytingar og á móti geti komið að ríkið dragi úr öðrum sköttum. Þetta komi sem sagt sem nýir skattstofnar og jafnhliða verði dregið úr álagningu skatta sem fyrirtæki almennt og einstaklingar bera.
    Ég held að þarna sé talsverður misskilningur á ferðinni um það a.m.k. ef menn eru að taka mið af því sem gert hefur verið víða erlendis í þessum efnum og sé verið að vekja vonir um það að með því að beita svokölluðum umhverfissköttum þá geti menn farið í kerfisbreytingar á skattlagningu almennt og enginn þurfi eiginlega að blæða fyrir þetta nema þeir sem stunda einhverja mengandi framleiðslu eða framleiðslu sem gengur á umhverfishagsmuni. Það kann að vera sem sagt góð hugsun sem er þarna að baki, það ætla ég ekki að vefengja, og góður tilgangur af hálfu flm. en mér finnst undra lítill rökstuðningur fylgja þessari tillögu og það gildir jafnt um þingmálið sjálft og þingskjalið sem og framsögu fyrir málinu því það bætti í rauninni afarlitlu við það sem er að finna á þessari hálfu blaðsíðu sem fylgir þessu út af fyrir sig stóra máli. Ég fæ nú ekki ráðið heldur í þennan stutta texta nema að takmörkuðu leyti. Hér segir í greinargerð, með leyfi forseta:
    ,,Umhverfisskattar teljast til svokallaðra hagrænna stjórntækja sem beitt er í æ ríkari mæli til þess að ná markmiðum í umhverfismálum. Hagrænum stjórntækjum er beitt til þess að við efnahagslega og viðskiptalega ákvörðunartöku sé tekið tillit til þess kostnaðar sem við höfum af því að skaða umhverfið og ella væri ekki tekinn með í reikninginn.``
    Ég verð að viðurkenna að ég fæ ekki heila hugsun út úr þessari framsetningu. Síðan segir í seinni hluta þessarar greinargerðar.
    ,,Í þessum efnum eru margar leiðir en hér er gert ráð fyrir að athugað sé hvort og þá á hvaða hátt umhverfisskattar geti orðið hluti af skattkerfi hins opinbera og komið í stað annarra skatta sem við nú búum við. Flutningsmenn leggja áherslu á að umhverfisskattar verði ekki notaðir til þess að afla hinu opinbera aukinna tekna heldur til þess að breyta og beita skattkerfinu á jákvæðan hátt.``
    Það er ekkert minna. Það er ekkert minna sem hér er á ferðinni. Og í rauninni er hér ekki vísað til neins af því sem hefur verið til umræðu á alþjóðlegum vettvangi í sambandi við að beita umhverfisgjöldum til að draga úr mengun og verið sem sagt að vekja vonir um að hér sé hægt að finna einhverjar patentlausnir eða einhverja nýja skattstofna og breyta því og nú eigi í rauninni þeir sem ganga á umhverfishagsmuni að vera aðalskattstofn hins opinbera, ríkis sem sveitarfélaga. Ég vara við þessari hugsun. Ég vek hins vegar athygli á því að fyrir þinginu liggur önnur þáltill. á þskj. 639 sem flutt er af þingmönnum Kvennalistans og hv. þm. Kristín Einarsdóttir er 1. flm., þáltill. um umhverfisgjald. Þar er dregið fram að því ég best fæ séð, í þeirri tillögu sem raunar hefur ekki verið mælt fyrir enn þá, dregið fram margt úr alþjóðlegri reynslu í þessum málum og vakin athygli á því hvernig þessu hefur verið beitt allvíða um lönd og ekki til þess að auka á skatttekjur ríkisins heldur til þess að nýta þær tekjur sem innheimtast en væntanlega dregur úr vegna þess að ætlunin er jú sú að framleiðendur og markaðurinn bregðist þannig við að það dragi úr slíkri framleiðslu að það verði notað sem sagt til hagsbóta fyrir úrbætur í umhverfismálum en ekki til að koma í veg fyrir eða vera patentlausnir í skattheimtu hins opinbera. Á þessum sjónarmiðum vildi ég vekja athygli, virðulegur forseti. Ég tek fram að ég efast ekkert um góðan hug flm. í sambandi við málið. En ég hefði gjarnan viljað sjá tillöguna öðruvísi fram lagða og rökstudda en hér er gert en mun að sjálfsögðu fjalla um málið í þingnefnd sem fær þetta mál þar sem ég á sæti.