Umhverfisskattar

127. fundur
Fimmtudaginn 11. mars 1993, kl. 18:56:22 (6015)

     Umhverfisráðherra (Eiður Guðnason) :
    Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu neitt að ráði. Hér er auðvitað tekið á mjög stóru máli, þ.e. umhverfissköttum eða hagrænum stjórntækjum eins og menn kjósa gjarnan að segja. Það er hvernig eigi að beita skattlagningu til að vinna að umbótum í umhverfismálum. Ég viðurkenni að ég lýsi nú kannski svolitlum efasemdum um að það markmið sem hér er sett, þ.e. á hvaða hátt umhverfisskattar geti komið í stað núverandi skatta svo sem eignarskatta, tekjuskatta, útsvars og aðstöðugjalds. Ég held að það verði seint, það er mín skoðun. En ég tek undir það sem hér hefur verið sagt og ekki efast ég um þann góða hug sem fylgir málinu eins og það er lagt hér fram. Ég hef sem sagt efasemdir um þessa hlið málsins. En ég hef að sjálfsögðu ekkert á móti því að þetta mál verði athugað eins og hér er óskað eftir. Ég nefni það þá í þeirri andrá að bæði umhvrn. og fjmrn. hafa í samvinnu reynt eftir megni að fylgjast með því sem er að gerast í þessum efnum í Evrópulöndunum. Við höfum að vísu ekki komið því við að sækja alla þá sérfræðingafundi sem við höfum vitað af og haldnir eru um þetta en við höfum þó reynt að fylgjast með eftir mætti.
    Sú meginregla hefur mótast í umhverfisrétti að sá sem mengar skal borga. Og í framhaldi af því eru umhverfisskattar og gjöld auðvitað eðlileg afleiðing. Það má segja að hin hagrænu stjórntæki, þ.e. skattar og gjöld, hafi þrenns konar hlutverki að gegna. Í fyrsta lagi að auka hagkvæmni og draga úr kostnaði við að ná þeim markmiðum sem menn hafa sett sér í umhverfismálum. Í öðru lagi að bæta markaðsstöðu þeirra fyrirtækja sem eru vistvæn á kostnað hinna með því að láta skatta og opinber gjöld fara lækkandi með minni mengun og betri nýtingu hráefna. Í þriðja lagi er slíkum gjöldum ætlað að draga úr neyslu á einstöku vörum og þjónustu með því að hækka verð þeirra eða færa til neysluna að því er varðar vörur sem taldar eru hafa skaðleg áhrif á umhverfið.
    Við höfum auðvitað hér á landi í svolitlum mæli byrjað að beita þessum hagrænu stjórntækjum. Þó lýsi ég því alveg hiklaust að við eigum að ganga miklu lengra í þeim efnum en við nú höfum gert. Við höfum t.d. hvatt til að menn notuðu blýlaust bensín með verðmun á blýbensíni og blýlausu. Það hefur skilað mjög góðum árangri og mælingar hafa sýnt það rækilega að það hefur mjög dregið úr blýmengun, t.d. í höfuðborginni, vegna þess að notkun á blýlausu bensíni hefur aukist. Skilagjöld á einnota umbúðum undir gosdrykki og því um líkt hafa valdið því að þessar umbúðir sem áður voru eins og hráviði um allt sjást nú varla lengur. Þar hefur náðst mjög góður árangur. Og eins og áður hefur komið fram hér þá er væntanlegt inn í þingið, vona ég alveg á næstunni, frv. til laga um skilagjöld á bíla þannig að þegar þeir hafa lokið sínu hlutverki, eru orðnir ónýtir eins og sagt er, fái eigandinn eða umráðamaður hluta skilagjaldsins greiddan til baka. Það þarf að gera meira af því að leggja gjöld á efni sem mynda hættulegan úrgang. Þar hafa sérstaklega t.d. verið nefndar rafhlöður. En nú er það sem betur fer svo að tækniþróunin hefur orðið til þess að nú eru komnar á markaðinn rafhlöður sem ekki eru skaðlegar umhverfinu og munu væntanlega verða allsráðandi á markaðnum áður en langt um líður. En það gildir þó ekki um alla rafgeyma, t.d. ekki þá sem notaðir eru í bílum, þeir verða að skaðlegum úrgangi þegar þeir hafa lokið sínu hlutverki en þeir eru hins vegar endurnýtanlegir.
    Ég ætla ekki, virðulegur forseti, að hafa um þetta fleiri orð. Mér finnst sjálfsagt að þetta mál sé athugað eins og tillagan gerir ráð fyrir. En ég lýsi hins vegar nokkrum efasemdum um hvort þessir skattar geti komið í staðinn fyrir núverandi skatta en ég tek undir þá hugsun að í auknum mæli á að fara inn á braut skattlagningar og gjaldtöku af þessu tagi vegna þess að ég held að það muni skila árangri í umhverfismálum.