Vernd og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

127. fundur
Fimmtudaginn 11. mars 1993, kl. 19:15:06 (6024)

     Umhverfisráðherra (Eiður Guðnason) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum öðrum en hvölum. Þetta er 302. mál á þskj. 471.
    Þetta frv. var lagt fram á 115. löggjafarþingi en varð ekki útrætt á því þingi og það er endurflutt nú með nokkrum breytingum sem ég geri grein fyrir hér á eftir. Forsaga máls er sú að fyrrv. umhvrh. skipaði þriggja manna nefnd í sept. 1990 til að undirbúa frv. til laga um stýringu á stofnstærðum villtra dýra. Frv. sem var byggt á fyrstu tillögum þessarar nefndar var lagt fram á Alþingi skömmu fyrir þinglok á löggjafarþingi 1991, en kom ekki til meðferðar þingsins.
    Með bréfi 4. júlí 1991 fól sá er þetta mælir nefndinni sem unnið hafði að málinu að taka það fyrir að nýju og skila um það sem fyrst heildstæðum tillögum. Á síðari stigum nefndarvinnunnar voru drög að frv. send Búnaðarfélagi Íslands, Stéttarsambandi bænda, Náttúruverndarráði, fuglafriðunarnefnd, dýraverndarnefnd og Skotveiðifélagi Íslands til umsagnar og bárust margar gagnlegar ábendingar frá þessum aðilum. Samkomulag varð í nefndinni um frv. sem lagt var fram á síðasta þingi með smávægilegum breytingum sem gerðar voru í ráðuneytinu eftir að nefndin lauk störfum. Frv. eins og það liggur fyrir við þessa umræðu er að mestu óbreytt, en í ljósi þeirra athugasemda sem fram komu voru gerðar nokkrar lagfæringar og varð samkomulag um þær í starfshópi sem yfirfór frv. Í þeim starfshópi voru þingmennirnir Árni Ragnar Árnason, Gunnlaugur Stefánsson, Pálmi Jónsson og Jón Gunnar Ottósson, skrifstofustjóri í ráðuneytinu, starfaði með hópnum. Helstu breytingarnar eru þær sem hér skal nú greina:
    Í fyrra frv. var ráðgjafarnefnd sú er koma skal á fót til að vinna að ýmsum málum sem tengjast stefnumörkun og stýringu stofnstærða kölluð dýranefnd. Hér er hins vegar gert ráð fyrir að nefnd þessi beri heitið villidýranefnd. Við fyrstu sýn kann þetta orð að vekja nokkra furðu, sérstaklega vegna þess að í hugum margra þýðir orðið ,,villidýr`` óargadýr en hin rétta og eiginlega merking orðsins eins og fram kemur í orðabókum er ótamið dýr. Þessi tillaga starfshópsins um þessa breytingu á heiti nefndarinnar á einnig rætur að rekja til þess að lögum um friðun Þingvalla frá árinu 1928 er kveðið á um friðun villidýralífs þannig að þessi nafngift á sér þegar nokkra stoð í lögum og sjálfsagt vekur hún athygli á nefndinni.
    Þá er sú breyting gerð að Samband ísl. sveitarfélaga skal tilnefna fulltrúa í nefndina í stað Líffræðistofnunar Háskólans.
    Í 4. gr. var áður kveðið á um að embætti veiðistjóra skuli reka hundabú eins og það hafði gert um áratugi. Hér er hins vegar gert ráð fyrir því að embættið hafi heimild til að reka slíkt bú.
    Með frv. er verið að setja þá grundvallarreglu að öll villt spendýr og villtir fuglar skuli njóta verndar. Sú beyting er gerð frá fyrra frv. að mýs, rottur og minkar eru nú undanskilin þessu ákvæði eins og fram kemur í 6. gr., 13. gr. og 15. gr. Tveimur orðum hefur verið skotið inn í tölul. 14 í 9. gr. Ákvæði þessa töluliðar, ,,hálfsjálfvirk eða sjálfvirk skotvopn``, er til að fylgja eftir samsvarandi ákvæði í Parísarsamningnum frá 1956. Við samningu þessa ákvæðis gleymdist að geta um svonefndar pumpur sem margar eru fimm skota byssur, hálfgerðar hríðskotabyssur í rauninni. Nokkur umræða varð um þetta ákvæði í fjölmiðlum fyrir skömmu. Hún var byggð á misskilningi og mun ég nánar greina frá því hér á eftir.
    Þá hefur breyting verið gerð á tölul. 4. í sömu grein til samræmis við breytingu á 19. gr. sem ég geri nánar grein fyrir á eftir.
    Í ljósi þeirra athugasemda sem fram hafa komið í ljósi 1. mgr. 11. gr. var gerð sú breyting að ekki er lengur gerð krafa um að veiðikort gildi á tilgreindu svæði og ekki er lengur ætlast til þess að heimild sé veitt fyrir fjölda veiddra dýra. Jafnframt er tekinn af vafi um það að hægt sé að gefa út takmörkuð veiðikort sem eru ódýrari og þá einkum til landeigenda sem ætla sér að nýta hlunnindi eða þurfa að verjast tjóni af völdum villtra dýra með veiðum. Í 1. málsl. 4. mgr. hefur verið bætt tilvísun til 2. mgr. sömu greinar. Þetta er í samræmi við gildandi lög, en hætta er á röngum upplýsingum um veiðistað verði verðlaun ekki lengur veitt fyrir unninn ref á þeim svæðum sem friðun hefur verið aflétt á með öllu. Samsvarandi breyting hefur einnig verið gerð á 13. gr. um minkaveiðar.
    Frá fyrra frv. hefur sú breyting einnig verið gerð á 13. gr. að nú er kveðið á um að umhvrh. skuli setja reglur um framkvæmd veiðanna og um framkvæmd endurgreiðslna á kostnaði við þær. Þetta atriði þótti ekki nægjanlega skýrt áður.
    15. gr. hefur verið breytt í samræmi við breytinguna um gerð var á 6. gr. Í 17. gr. hefur málsgreinum verið víxlað til áherslubreytinga. Þá er einnig sú breyting gerð að ekki er lengur skylt að færa unninn hvítabjörn til Náttúrufræðistofnunar nema þess sé krafist.
    Í 19. gr. er gerð sú breyting að heimild til að leggja net í sjó nærri friðlýstu æðarvarpi verður í samræmi við ákvæði gildandi laga. Er það gert vegna athugasemda sem með réttu komu fram við greinina eins og hún var í fyrra frv. Þá hefur nýrri málsgrein verið bætt við til að taka af allan efa um það að ekki sé ætlunin að sporna gegn veiði svartfugla með háf í Vestmannaeyjum og Grímsey en prentvilla í fyrra frv. olli nokkrum misskilningi varðandi þetta.
    Auk þeirra breytinga frá fyrra frv. sem ég hef nefnt eru einnig örfáar orðalagsbreytingar sem ekki hafa áhrif á efni máls. Þetta frv. gerir ráð fyrir verulegum breytingum á skipan þessara mála frá því sem verið hefur. Meginbreytingin er fólgin í hinni almennu afstöðu til villtra spendýra. Segja má að fyrri lög hafi byggt á nokkru virðingarleysi gagnvart tilverurétti sumra þeirra og miði að eyðingu þeirra og útrýmingu ef hreindýr og selir eru undanskilin. Í þessu frv. er sú grundvallarafstaða tekin að öll villt dýr að músum, rottum og minkum undanskildum skuli njóta verndar.
    Í frv. er nokkur áhersla lögð á útgáfu reglugerða og er þetta fyrirkomulag í samræmi við þá staðreynd að í tímans rás breytist staða einstakra dýrastofna í vistkerfinu. Fjöldi dýra í stofni getur verið mjög breytilegur milli ára eins og rjúpan er gott dæmi um og þess vegna getur verið ástæða til þess að grípa til tímabundinna friðunaraðgerða þegar stofn er í lágmarki þótt veiðar séu leyfðar úr honum að öðru jöfnu. Þekking og afstaða manna til villtra dýra og nytja af þeim er einnig breytingum háð eins og reynslan sýnir. Því er skynsamlegt að setja rammalög um þetta efni og byggja að nokkru á reglugerðum. Þannig fæst meiri sveigjanleiki.
    Í frv. er m.a. gert ráð fyrir að ráðherra geti sett eða skuli setja reglugerðir um atriði eins og aðild að Alþjóðafuglaverndunarráðinu, víðtækari friðun fágætra tegunda, sölu, inn- og útflutning villtra dýra, hluta þeirra, egg og starfsemi hamskera, veiðar erlendra ferðamanna á Íslandi, veiðikort, veiðigjald og hæfnispróf, refaveiðar, minkaveiðar, hreindýraveiðar, fuglaveiðar og auðvitað er ekkert því til fyrirstöðu að sameina sum þessara atriða við setningu reglugerðanna.
    Ég mun nú, virðulegi forseti, víkja að nokkrum atriðum sem ég tel máli skipta og rétt að nefna í framsögu. Markmið þessara laga er að skapa grundvöll fyrir því að maður geti lifað í sátt við hið villta dýralíf í landinu. Auk þess að vera friðunarlög taka lögin til atriða sem geta valdið árekstrum við hagsmuni mannsins, svo og að því er varðar nytjar af villtum dýrum. Það er gert ráð fyrir því að umhvrh. hafi umsjón allra mála er varðar villt spendýr og fugla að hvölum undanskildum. Áður en umhvrn. var stofnað voru þessi mál í þremur ráðuneytum a.m.k., landbrn., menntmrn. og heilbrrn. Segja má að málefni sela hafi verið utan ráðuneyta þó bæði landbrn. og sjútvrn. hafi talið sér málið skylt vegna hlunninda bænda og meints tjóns af völdum sela við laxveiðiár annars vegar og vegna hringorma í sjávarafla hins vegar. Með fækkun þessara málaflokka til ráðuneytis umhverfismála má ætla að meira samræmi myndist í afstöðu hins opinbera gagnvart hinum ýmsu og ólíku tegundum.
    Í 3. gr. er gert ráð fyrir ráðgjafarnefnd sem vinni að ýmsum málum er tengjast stefnumörkun og stýringu stofnstærða, sérstaklega að því er varðar setningu reglugerða, leyfisveitingar og undanþágu frá lögunum og áður hef ég vikið að þessari nefnd og nafni hennar. Gert er ráð fyrir að lög nr. 52/1957, um eyðingu refa og minka, verði felld úr gildi verði þetta frv. að lögum. Þar er m.a. fjallað um embætti veiðistjóra og þess vegna er að finna í þessu frv. ákvæði um það embætti. Það er fagleg stofnun og ætlast er til að veiðistjóri hafi sérmenntun á sínu sviði. Honum er ætlað að annast stýringu á stofnum villtra dýra sem valdið geta tjóni og aflétta má friðun á samkvæmt VI. kafla frv.
    Áhersla er lögð á að bæta þurfi þekkingu á stofnstærð og útbreiðslu villtra dýra sem valdið geta tjóni og leita leiða til að koma í veg fyrir tjón af þeirra völdum. Eðlilegt þykir að rannsóknir á þessu sviði fari fram á vegum veiðistjóraembættisins í nánu samstarfi við Náttúrufræðistofnun Íslands. Gert er ráð fyrir að merkingar á fuglum verði eins og áður í höndum þeirrar stofnunar einnar.
    Frv. gerir ráð fyrir að fuglafriðunarnefnd verði lögð niður, en áður nefnd villidýranefnd taki við störfum hennar. Við val á fulltrúum í þá nefnd er tekið mið af öðrum sjónarmiðum en höfð hafa verið að leiðarljósi við val manna í fuglafriðunarnefnd. Þá þykir rétt að kveða á um það að til sé fulltrúaráð sem komi fram fyrir Íslands hönd gagnvart Alþjóðafuglaverndarráðinu, samanber auglýsingu í Lögbirtingablaði frá árinu 1948.
    Í 6. gr. er sett sú grundvallarregla að öll villt dýr önnur en mýs, rottur og minkar og allir villtir fuglar á Íslandi og innan íslenskrar lögsögu njóti verndar. Í þessari grein er einnig sett fram sú grundvallarregla að menn skuli sýna öllum dýrum og lífsvæðum þeirra nærgætni, taka tillit til villtra dýra og lífsvæða þeirra við gerð skipulags.
    Skv. 7. gr. skal tvennt lagt til grundvallar því að heimilt sé að veiða villt dýr. Í fyrsta lagi skuli þess gætt að viðkoma stofns vegi upp á móti veiðum þannig að ekki sé hætta á útrýmingu. Í öðru lagi skal vera gild ástæða fyrir veiðunum, t.d. til nytja eða til að koma í veg fyrir tjón eða vegna rannsóknar eða til ræktunar og undaneldis. Samkvæmt 4. mgr. 7. gr. skal umhvrn. hafa umsjón með útflutningi á villtum dýrum. Eðlilegt er talið að sama ráðuneyti hafi einnig yfirumsjón með innflutningi í samráði við landbrn. ef um er að ræða dýr sem gætu sest hér að eða dýr sem talin eru vera í útrýmingarhættu annars staðar í heiminum. Nauðsynlegt er talið að umhvrh. hafi heimild til að veita undanþágu frá friðunarákvæðum vegna vísindalegra rannsókna. Einnig þykir rétt að veita Náttúrufræðistofnun heimild í lögum til að veiða fugla, friðaða sem ófriðaða, vegna þess starfs sem þar fer fram samkvæmt þeim lögum sem um stofnunina gilda.
    Víða um heim eru dæmi um að dýrategundir, sem menn hafa flutt til nýrra heimkynna, hafi valdið miklum usla í náttúrunni þar sem lífríki var ekki aðlagað tilvist þeirra. Þrátt fyrir grundvallarsjónarmið frv. um vernd villtra dýra og villtra spendýra getur sú staða komið upp að rétt þyki að útrýma tegund eða stofni dýra á Íslandi sem ekki teljist til íslenska dýraríkisins vegna tjóns, sem þessi tegund kunni að valda á náttúru landsins. Hugsanlegt er t.d. að villiminkur fylli þennan flokk síðar ef tækist nú að finna aðferð til að útrýma honum.
    Varðandi 8. gr. er rétt að taka fram og leggja sérstaka áherslu á að efni hennar breytir ekki neinu þeim reglum sem gilda um aðgang almennings að veiðilendum né neinu því er varðar veiðirétt landeigenda. Eignarréttarmál í almenningum og afréttum taka til mun fleiri þátta en nytjaréttar á dýrum. Það þarf að taka á þeim málum í heild og það er mjög brýnt að það verði gert, en til þess að nytjarétturinn verði ekki til þess að tefja framgang þessa máls er ákvæði þessarar greinar efnislega samhljóða sambærilegum ákvæðum í gildandi lögum. Eina efnislega breytingin er fólgin í því að heimildin til veiða í almenningum og á afréttum utan landareigna lögbýla og utan netalaga landareigna er víkkuð þannig að hún er ekki lengur bundin við íslenskan ríkisborgararétt heldur við það að viðkomandi eigi lögheimili hér á landi. Í 8. gr. er einnig heimild fyrir umhvrh. til að setja reglur um veiðar erlendra ferðamanna en það hefur færst í vöxt að útlendingar komi hingað til veiða.
    Í 9. gr. eru taldar upp veiðiaðferðir sem eru óheimilar. Þessi upptalning byggist að mestu á ákvæðum alþjóðasamþykktar um fuglavernd, hinum svonefnda Parísarsamning, og enn fremur á samningi Evrópuráðsins um vernd villtra plantna og dýra og lífsvæða í Evrópu sem kenndur er við Bern í Sviss. Gert er ráð fyrir að undanþágur megi veita vegna veiða í vísindaskyni eða ef dýr valda tjóni. Í 14. tölul. greinarinnar segir að óheimilt sé að nota hálfsjálfvirkt eða sjálfvirk skotvopn, svo og pumpur með skothylkjahólfum er taka fleiri en tvö skothylki. Þetta ákvæði er í fullu samræmi við gildandi reglur sem settar eru fram í reglugerð um skotvopn og skotfæri nr. 16/1978, með breytingum frá árunum 1979 og 1988.
    Í 4. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar sem fjallar um leyfi fyrir margskota byssum segir að leyfi fyrir skotvopnum samkvæmt þessari grein megi aðeins veita þeim sem sýni fram á að hann hafi þörf fyrir að eiga þau og sýnir jafnframt fram á sérstaka hæfni í meðferð skotvopna. Enn fremur segir: ,,Að jafnaði skal ekki veita leyfi fyrir haglabyssum er taka fleiri en tvö skothylki.``
    Það er ljóst af þessu að ekki er gert ráð fyrir því í dag að veitt sé leyfi fyrir margskota byssum sem taka fleiri en tvö skot í skothylkjahólf nema sýnt sé fram á sérstaka þörf fyrir slíkt og vart geta skotveiðar talist til slíkra sérþarfa. Hér er því ekki --- og ég legg áherslu á það --- verið að leggja til breytingu á gildandi reglum um skotvopn og alls ekki um að ræða stórfellda eignaupptöku eins og ranglega hefur verið gefið í skyn í fjölmiðlum.
    Í 3. mgr. 3. gr. þessarar reglugerðar segir að lögreglustjóri hafi heimild til að veita leyfi fyrir hálfsjálfvirkum byssum sem fluttar voru til landsins fyrir gildistöku laga um skotvopn, sprengiefni og skotelda frá 1977 til manna að fullnægðum ákveðnum skilyrðum. Einhverjar af þessum byssum eru í dag skráðar fjögurra til fimm skota og bannar frv. sem slíkt ekki að menn eigi þær og noti til að skjóta í mark t.d. en ef menn vilja nota slíkar byssur til veiða þarf að gera á þeim minni háttar breytingu sem felst í því að setja í þær plasttappa sem mér er tjáð að kosti svona 500 kr. og breytir í engu eiginleikum byssunnar að öðru leyti en því að ekki komast í hana nema tvö skot í skothylkjahólf.
    Gildandi reglur um þetta eru skýrar. Veiðimaður á ekki að geta fengið leyfi fyrir haglabyssum sem taka þrjú eða fleiri skot í magasín eða eru hálfsjálfvirkar. Hitt er svo annað mál hvernig gildandi ákvæðum um skotvopn hefur verið framfylgt af yfirvöldum.
    Samkvæmt upplýsingum frá Jóni Bjartmarz, aðalvarðstjóra í Reykjavíkurlögreglunni, sem hefur með

þessi mál að gera, hefur lögreglan í Reykjavík ekki skráð nema tveggja og einskota haglabyssur í nokkur ár en einhver brögð hafa þó verið af því að leyfi hafa verið veitt fyrir fimm skota byssum annars staðar á landinu.
    Í viðtali sem birtist í einu dagblaðanna 2. mars sl. segir Jón Bjartmarz lögregluvarðstjóri m.a., með leyfi forseta:
    ,,Þar hefur einmitt verið skýrt kveðið á um að allar þær byssur sem eru fluttar til landsins eigi að vera með magasíntúbu þar sem aðeins tvö skothylki rúmast. Fólk hefur hins vegar brotið mjög mikið gegn þessu með því að taka svokallaðan stoppara úr.
    Reglurnar um þetta hafa í raun verið alveg skýrar. Þetta er því ekki stórfelld breyting á þeim heldur spurning um að framfylgja þeim betur --- kveða skýrar á. Ætlunin er væntanlega að framkvæmdin verði betri en verið hefur. Ég held að maður hafi alla tíð verið fylgjandi þeim ákvæðum sem verið hafa. Menn hafa í raun og veru ekkert með fleiri skotafjölda að gera á fuglaveiðum.``
    Í 10. gr. er sú grundvallarregla sett að veiðar á villtum fuglum og landspendýrum séu óheimilar á svæðum sem hafa verið friðlýst vegna dýralífs á grundvelli laga um náttúruvernd.
    Í V. kafla frv., 11. gr., er fjallað um veiðikort og hæfnispróf veiðimanna. Sett eru ákvæði sem miða að því að afla upplýsinga á skipulegan hátt um veiðar úr einstökum stofnum og breytingar á veiði milli ára svo hægt sé að meta ástand stofna og áhrif veiðanna. Hér er um nýmæli að ræða en benda má á að sambærilegar reglur eru í gildi um aðrar veiðar. Ég læt nægja að minna á lög og reglur um fiskveiðar í sjó og lög nr. 76/1970, um lax- og silungsveiði. Þar er kveðið skýrt á um að hver sá sem veiði stundar skuli gefa skýrslu um veiði sína og kveðið nánar á um skýrslugjöfina og eftirlit og þykir raunar sjálfsagt mál.
    Það er hins vegar alveg ljóst að við Íslendingar erum eftirbátar annarra þjóða að því er varðar eftirlit með stofnum spendýra og fugla sem veiðar eru stundaðar á. Þar getum við getum tekið rjúpuna sem dæmi. Hún hefur um áratuga skeið verið tilefni deilna um áhrif veiða á stofnstærð, m.a. hér í sölum hins háa Alþingis. Vandinn í þessu sambandi er sá að það eru mjög litlar upplýsingar fyrir hendi um árlega rjúpnaveiði eða fjölda þeirra veiðimanna sem rjúpnaveiðar stunda.
    Víða erlendis er eftirlit með slíkum veiðum tryggt með því að lögbinda að þeir sem stunda veiðarnar skuli árlega afla sér veiðikorts sem er sönnun þess að þeir hafi skilað skýrslu um veiðar síðasta árs og greitt gjald í veiðisjóð.
    Grænlenska landsstjórnin er nú með það á prjónunum að taka upp slíkt kerfi sem allir veiðimenn á Grænlandi þurfa að hlíta. Öðruvísi er að mati ráðamanna þar í landi ógerlegt að fylgjast með veiðum á þeim 47 tegundum spendýra og fugla sem veiðar eru stundaðar á hjá grönnum okkar á Grænlandi.
    Það er brýnt að koma á skipulegri veiðiskráningu hér á landi hið allra fyrsta og þess vegna er þessi heimild veitt í 11. gr. til að ákveða með reglugerð að menn skuli afla sér veiðikorts. Á kortinu skal getið nafns handhafa, gildistímabils og þeirrar tegundar sem viðkomandi hefur heimild til að veiða. Það skal einnig koma fram hvort handhafi hefur leyfi til að nýta hefðbundin hlunnindi á tilteknu svæði eða verjast tjóni af völdum villtra dýra á bújörðum. Kveðið er á um að korthafi skuli árlega skila skýrslu um veiðarnar áður en nýtt kort er útgefið.
    Frá fyrra frv. hefur sú breyting verið gerð sem ég áður nefndi að ekki skuli lengur tilgreina fjölda dýra eða svæði. Einnig er gert ráð fyrir að hægt verði að gefa út takmarkaðri veiðikort til landeigenda. Ýmsir hafa bent á að veiðiskýrslur verði hugsanlega óáreiðanlegar en á móti hefur verið sagt að skekkjan sé þá sennilega sú sama frá ári til árs og komi ekki svo sérstaklega að sök.
    Gert er ráð fyrir að greiða þurfi ákveðið gjald fyrir veiðikortið og það renni í veiðisjóð sem notaður yrði til að standa straum af kostnaði við útgáfu kortanna til að greiða fyrir rannsóknir á villtum dýrum og til stofnstýringar. Gjald þetta getur auðvitað verið mishátt eftir því hve víðtækt veiðikortið er eða hvaða tegundir veiðimaður hyggst veiða.
    Mér þykir líklegt að margir veiðiréttarhafar telji að veiðigjald sé skattur á hlunnindi og auk þess komi engum við hvað þeir veiði á eigin landi. Því er þá til að svara að niðurstöður rannsókna sem stundaðar eru fyrir tekjur af veiðigjaldi munu koma öllum veiðimönnum til góða hvort sem þeir eru landeigendur eða ekki, og eru raunar fæstir þeirra eigendur lands. Auk þess er eðlilegt að veiði landeigenda verði skráð eins og önnur veiði enda er um að ræða veiðar úr sameiginlegum stofni og landeigandi á ekki villt dýr á sinni landareign enda þótt hann eigi nytjaréttinn. Eðlilegt getur verið að takmarkaðri veiðikort til landeigenda verði gefin út gegn lægra gjaldi en önnur.
    Þegar þetta mál var til umræðu á Alþingi í fyrra varð nokkur umræða um frv. og var m.a. rætt um framkvæmdina á útgáfu veiðikorta. Þess vegna er rétt að það komi fram að ég hef skipað nefnd með aðild skotveiðimanna og fulltrúa bænda til að leggja drög að þeim reglum sem gert er ráð fyrir að settar verði samkvæmt frv. ef og þegar það verður að lögum. Hún fékk það forgangsverkefni að móta fyrst reglur um veiðikort og veiðiskýrslur og er sú vinna allvel á veg komin og það er sjálfsagt mál að sú þingnefnd sem tekur frv. til meðferðar nú fái aðgang að þeim tillögum og fái að heyra um þær hugmyndir sem þar eru nú uppi.
    Þá er einnig heimild til að ákveða í reglugerð að þeir sem stundi veiðar á villtum dýrum skuli hafa lokið sérstöku prófi um villt dýr, umhverfi þeirra og hafi sýnt fram á hæfni í að veiða.
    Við Íslendingar höfum líka dregist aftur út varðandi þær kröfur sem gerðar eru um hæfni veiðimanna. Stundum er því haldið fram að menn séu í rauninni fæddir veiðimenn og þurfi einungis lágmarkstilsögn í meðhöndlun skotvopna en hæfni veiðimanna er auðvitað fólgin í fleiru en því einu að kunna að skjóta af byssu.
    Árin 1990 og 1991 voru haldin í Reykjavík námskeið að tilstuðlan dómsmrn. þar sem m.a. var veitt tilsögn varðandi vistfræði og náttúruvernd. Og þá nefni ég líka að sérstakt námskeið hefur verið haldið fyrir hreindýraeftirlitsmenn einmitt þar sem sérstök áhersla var lögð á þetta atriði.
    Í 12. og 13. gr. eru ákvæði um refi og minka. Þar er gert ráð fyrir því að óheimilt sé að eyðileggja greni. Ástæðan fyrir því er tvíþætt. Eyðileggingu grenja má líta á sem náttúruspjöll enda hafa sennilega mörg þeirra verið í notkun öldum eða jafnvel árþúsundum saman. Í öðru lagi gerir það grenjaskyttum erfitt um vik ef þekkt greini eru eyðilögð.
    Þá eru ákvæði um greiðslu kostnaðar þar sem segir að umhvrh. ákveði árlega viðmiðunartaxta launa og verðlauna fyrir unna refi sem veiddir eru skv. 3. mgr. 12. gr. Stjórnir sveitarfélaga skulu árlega gefa skýrslu um refaveiði og kostnað við þær og endurgreiðir ríkissjóður þá helming kostnaðar við veiðarnar eftir viðmiðunartöxtum.
    Um þessa kostnaðarskiptingu hefur áður verið rætt í þinginu og ætla ég ekki að fara mörgum orðum um hana. Það er öllum ljóst að það þarf að stýra þessu betur en gert hefur verið. Áður fór kostnaður vegna eyðingar refa og minka á hverju ári langt fram úr öllum áætlunum og hann þurfti að greiða með aukafjárveitingum. Það er ætlunin að ná betri stjórn á þessum málum og mér sýnist að sú vinna sem þegar hefur verið unnin í því efni gefi tilefni til að ætla að svo geti orðið.
    Í 14. gr. eru ákvæði um hreindýr sem hafa nokkra sérstöðu í lífríki landsins. Samkvæmt áliti Lagastofnunar Háskóla Íslands frá í apríl 1991 sem unnið var að frumkvæði umhvrn. er hreindýrastofninn á Íslandi ekki háður beinum eignarrétti í einkaréttarlegum skilningi, hvorki ríkisins né annarra.
    Á sl. ári var gefin út sérstök reglugerð um veiðar og rannsóknir á hreindýrum sem gott samkomulag varð um og það er ekki fyrirhuguð breyting á því skipulagi sem þar er.
    Engin heildarlöggjöf er í gildi varðandi seli og rostunga eða veiðar á þeim við Ísland. Samkvæmt frv. eru rostungar alfriðaðir en ráðherra getur samkvæmt tillögum sjútvrh. sett reglugerð sem heimilar skotveiðar á fjórum tegundum sela. Ætlast er til að þar verði tilgreind þau svæði og árstímar þegar veiði er heimiluð á hverri tegund og að teknu tilliti til hefða og staða þar sem selur getur valdið tjóni eins og t.d. í og við laxveiðiár. Sjútvrh. er ætlað að hafa umsjón með og stjórna þeim aðgerðum af opinberri hálfu sem ætlað er að hafa áhrif á stofnstærð og útbreiðslu sela eða tjón af þeirra völdum.
    Í 17. gr. er fjallað um ísbirni. Eftirlit með veiðum á ísbjörnum í þeim löndum þar sem þeir eiga heimkynni er mjög strangt og gerðu Norðmenn, Danir, Kanadamenn, Bandaríkjamenn og Sovétmenn með sér samkomulag um vernd þeirra árið 1973. Ísbirnir slæðast stundum til Íslands með hafís. Rétt þykir að styrkja viðleitni fyrrgreindra þjóða með því að banna veiðar á ísbjörnum á hafi eða sundi en gangi ísbirnir á land gegnir öðru máli. Þá er eðlilegt að heimilt sé að fella þá en áhersla er lögð á að notuð séu heppileg vopn eftir því sem hægt er.
    Ólíkt því sem gilt hefur fram til þessa er felldur ísbjörn eign þjóðarinnar og skal samkvæmt því færður Náttúrufræðistofnun til rannsókna ef þess er krafist enda beri ríkissjóður kostnað við veiðarnar og flutning dýrsins.
    Í 18. gr. eru tilgreindar þær fuglategundir sem aflétta má friðun á og rammi settur um þann tíma árs sem umhvrh. er heimilt að aflétta friðun.
    Reglurnar eru að mestu leyti sniðnar eftir gildandi reglum um veiðitíma fugla og gert er ráð fyrir að sett verði reglugerð þar sem í einhverjum tilvikum verði leyfður styttri veiðitími en heimilaður er samkvæmt frv. Þá þykir rétt að ítreka að varúð og nærgætni skuli sýnd í námunda við fuglabjörg.
    19. gr. fjallar um nýtingu hlunninda en þau hafa frá aldaöðli verið mikilvægur þáttur í lífsafkomu þjóðarinnar og skipt sköpum fyrir sum byggðarlög. Flest þessara hlunninda skipta að vísu litlu máli fyrir afkomu manna nú um stundir. Þrátt fyrir það er ekki ástæða til að afnema rétt veiðiréttarhafa til þeirra enda ekkert sem bendir til þess að hefðbundin nýting hafi stefnt stofnunum í hættu, sé litið til landsins í heild, enda þótt einhvers staðar kunni að vera um staðbundin vandamál að ræða vegna ofnýtingar.
    Í eldra frv. féllu tvö orð úr fyrsta málsl. 4. gr. brott fyrir slysni í prentun og olli nokkrum misskilningi. Hefur þetta verið lagað og ætti að vera öllum skýrt. Þar er tekinn af allur vafi um að ekki var ætlunin að sporna gegn veiði svartfugla í Vestmannaeyjum og Grímsey eins og lengi hefur tíðkast.
    Í 1. mgr. 19. gr. er fjallað um friðlýst æðarvarp. Áður hafði sú breyting verið gerð frá 9. gr. gildandi laga að banna án leyfis varpeiganda að leggja net nær friðlýstu æðarvarpi en hálfan km frá stórstraumsfjöruborði í stað fjórðungs úr km. Í ljósi þeirra athugasemda sem fram komu þykir rétt að láta ákvæði gildandi laga gilda áfram.
    Um töku gæsar- og andareggja gilda þau ákvæði að minnst skuli skilin eftir fjögur egg í andarhreiðri og tvö í gæsarhreiðri. Auk skeiðandar, skutulandar og straumandar sem eru undanskildar þessu ákvæði samkvæmt gildandi lögum eru samkvæmt frv. gargönd, hrafnsönd og gulönd einnig undanskildar samkvæmt þessu heimildarákvæði. Þá er heimilað að taka heiðargæsaregg samkvæmt þessari grein en það er ekki heimilt að gildandi lögum.
    Bann er lagt við því að veiðiréttarhafi dreifi eggjum þessum til annarra, hvort sem er með sölu eða

gjöf. Þetta er breyting frá gildandi lögum, en til þessa hefur fáum aðilum verið heimilt að flytja út andaregg en þó ekki æðaregg.
    Gert er ráð fyrir óbreyttum heimildum til hefðbundinnar nýtingar ýmissa fuglategunda svo og til hefðbundinnar veiði landsels og útselskópa en eigandi veiðiréttar skal afla staðfestingar viðkomandi sveitarstjórna og sýslumanns á rétti sínum.
    Í 20. gr. er fjallað um refisákvæði og réttarfar.
    Í 22. gr. er ákvæði um gildistöku og brottfall þeirra laga sem þessi lög koma í staðinn fyrir.
    Gert er ráð fyrir að lög þessi öðlist gildi 1. jan. 1993 en augljóslega þarf að breyta því ákvæði og þarf ekki að skýra það frekar.
    Með frv. er prentað sem fskj. umsögn fjmrn. um kostnað vegna frv. ef að lögum verður eins og það er hér prentað.
    Ég ætla ekki, virðulegi forseti, að hafa um þetta fleiri orð að sinni en legg til að málinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. umhvn.