Vernd og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

127. fundur
Fimmtudaginn 11. mars 1993, kl. 19:52:24 (6026)

     Umhverfisráðherra (Eiður Guðnason) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég get fúslega tekið undir það með hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni að ég er honum sammála um það að umhvrn. ætti í miklu ríkara mæli að koma að þessum málum sem hann nefndi, þ.e. auðlindastjórninni og nýtingu auðlindanna og umsjón með því.
    Varðandi það atriði sem hann spurði sérstaklega um hér, þ.e. 16. gr. frv. um seli og þau ákvæði að sjútvrh. stjórni nýtingu selastofna en umhvrh. hafi hér hið formlega reglugerðarvald, þá var þetta á annan veg í frv. upphaflega. Hins vegar eins og ég nefndi hér í framsögu minni, þá má segja að málefni sela hafi að nokkru verið utan ráðuneyta eða milli ráðuneyta vegna þess að bæði landbrn. og sjútvrn. gerðu til þess tilkall að hafa forræði fyrir þessum málum. En auðvitað er hið rétta eins og við hv. þm. erum sammála um að það sé hjá umhvrn. eins og eðlilegt er.
    Orðalagið í 16. gr. er hins vegar niðurstaða málamiðlunar sem varð milli okkar sjútvrh. áður en þetta frv. var lagt fram og um það var gert samkomulag. Ég skil hins vegar mætavel þau sjónarmið sem hv. þm. setti hér fram og býst raunar við að ýmsir fleiri þingmenn séu honum sammála um það.