Ríkisreikningur 1990

128. fundur
Mánudaginn 15. mars 1993, kl. 13:39:36 (6028)

     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Það er nú orðið nokkuð langt síðan mælt var fyrir þessu frv. þannig að það liggur nú við að ég sé búin að gleyma hvað ég ætlaði að segja, en ég er nú með einhverja punkta hér á blaði.
    Þessi reikningur fyrir árið 1990 ber það með sér að breytt hefur verið um uppsetningu á reikningnum og það kom reyndar fram í máli fjmrh. þegar hann mælti fyrir frv. að núna eru teknar með uppfærðar skuldbindingar ríkissjóðs sem gerðar voru á árinu. Það kom reyndar einnig fram í ársreikningi 1989 og þetta var allveruleg upphæð í ríkisreikningi fyrir það ár og var þá verið að taka inn margra ára gamlar skuldbindingar. Þetta uppgjör sem hér er vitnað til er því ekki sambærilegt við fjárlög þessa sama árs, hvorki fyrir árið 1989 né 1990 sem hér er verið að ræða.
    Það hefur mikið verið deilt um uppgjörsaðferðir á ríkisreikningum á þessu þingi og kannski oft áður líka og menn eru ekki á eitt sáttir þar um og ágreiningur uppi bæði milli þingmanna, milli Ríkisendurskoðunar og fjmrn. og starfsmanna þar og raunar er þeim ágreiningi yfirleitt vísað inn í ríkisreikningsnefnd sem starfar og ætlar sér að móta ákveðnar tillögur um þá uppgjörsaðferð sem nota skuli en það er ekki enn farið að líta dagsins ljós hvernig þær tillögur verða.
    Halli á þessum ríkisreikningi er tæplega 11,3 milljarðar kr. en halli fjárlaganna á greiðslugrunni var 4,4 milljarðar og tek ég þá ekki með samþykkt síðustu fjáraukalaga þessa árs þar sem bætt var á gjaldahlið fjárlaganna tæpum 1,5 milljörðum kr. vegna Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins. Þar var ekki um að ræða

greiðslu heldur skuldabréf sem undirritað var vegna yfirtöku skuldar hjá Seðlabanka vegna Verðjöfnunarsjóðsins. Þar var því ekki farið eftir þeirri reglu sem gilt hafði um fjárlög, að þau væru sýnd á greiðslugrunni. Nú er ekki um það deilt að hvort sem þessi upphæð er í fjáraukalögum eða ekki, þá mundi hún eftir sem áður vera inni í ríkisreikningi. Hins vegar má á það deila að þessi upphæð skuli hafa verið sett inn í fjáraukalög þau sem afgreidd voru í febrúar á síðasta ári. Þar var verið að taka inn einn afmarkaðan þátt skuldbindinga án þess að heildarsamræming væri í þeim málum. Ég er hins vegar út af fyrir sig sammála því að það sé upplýst í hverju fjárlagafrv. til hvaða skuldbindinga er verið að stofna en það getur þó verið erfitt í sumum tilfellum eins og hvað varðar búvörusamninginn, lífeyrisgreiðslur og ýmislegt fleira. Það er því í raun eðlilegra að engar slíkar skuldbindingar séu sýndar í fjárlögunum sjálfum sem eru í raun eins konar sjóðbók ríkisins.
    Benda má á að skuldbindingar A-hluta ríkissjóðs vegna lífeyrissjóða jukust um rúma 3 milljarða á þessu ári og það er nálægt þeirri upphæð sem allur greiðsluhalli ríkissjóðs er á árinu 1990. Hins vegar finnst mér að fjárlögum þyrftu að fylgja upplýsingar um skuldastöðu ríkisins, þ.e. uppfærsla lána og annarra skuldbindinga sem ríkinu ber að greiða á tilteknum tíma, en þá ber á að líta að ekki hefur verið tekið á eignarstöðu ríkisins. Stofnframlög ríkisins til byggingar og viðhalds eru ekki færð til eignar nema sem beint framlag. Ríkið á miklar eignir en eign eins og stofnfé Landsbanka Íslands er metin á 48 þús. kr. þó að í ársreikningi bankans sé eigið fé metið á 5,7 milljarða kr. Og eignarhluti ríkissjóðs í Landsvirkjun og Búnaðarbanka er ekki færður sem eign í ríkisreikningi. Landsvirkjun og Búnaðarbanki, sem ríkið hefur þó uppi áætlanir um að selja, eru einskis virði í ríkisreikningi. Yfirskoðunarmenn ríkisreiknings gera athugasemd við þetta í skýrslu sinni og vitna til 41. gr. laga nr. 52/1966, um ríkisbókhald og gerð ríkisreiknings og fjárlaga. Sú grein er svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Mat eigna og skulda skal, eftir því sem við verður komið, miða við raunverulegt verðmæti í lok reikningsárs, en heimilt er þó að fylgja reglum skattalaga ef þær víkja ekki verulega frá ofangreindum reglum.``
    Í þessu sambandi má minna á það að nú hefur ríkisstjórnin uppi hugmyndir um allverulega sölu ríkiseigna eða eignarhluta og fyrirtækja og það þarf því að móta heildstæðar reglur um það hvernig þessar eignir eru metnar áður en að sölu kemur. Því hefur verið fleygt hér í umræðum á Alþingi að selja eigi Búnaðarbankann á hálfvirði þó að nýjustu fréttir í fjölmiðlum segi að nú sé ríkisstjórnin hætt við að selja Búnaðarbankann, a.m.k. í bili. Hann er ekki talinn til eigna hjá ríkissjóði og hvernig á þá að meta söluverðið? Ég spyr hæstv. fjmrh. að því.
    Nýlega er komin út eignaskrá ríkisins sem hefur að geyma yfirlit yfir húseignir, lóðir og jarðir svo að nú þarf að hefjast handa og meta þessar eignir inn í ríkisreikning. En jafnframt þarf þá að gera skrá yfir aðrar eignir ríkisins. Það má líka benda á að ríkið hefur sáralitlar tekjur af þessum eignum sumum hverjum og nægir í því sambandi að minna á fjaðrafok það sem hér varð á síðasta þingi þegar upplýst var hvernig húsaleigugreiðslum til ríkisins væri háttað. Þar virtist ekkert samræmi vera í leigukjörum þeirra sem búa í húsnæði í eigu ríkisins. Það er ekki óeðlilegt að hugað sé að þeim tekjustofni sem þar væri hægt að hafa fyrir ríkissjóð og ég vænti þess að unnið sé að því máli.
    Í þessum ríkisreikningi hefur mjög aukist skuldsetning ríkissjóðs eða um 18,3 milljarða kr. á milli ára. Eignir hafa ekki hækkað nema um 3 milljarða samkvæmt reikningnum og það veldur svo því að hlutfall skulda á móti eignum versnar auðvitað stöðugt. En eins og ég benti á hér áðan, er eignauppfærsla ríkisins ekki í samræmi við raunveruleikann. Þetta sýnir því ekki rétta mynd af skuldsetningu ríkisins þar sem eignauppfærslan er ekki rétt.
    Ef við miðum við hvern íbúa landsins, þá var skuld hvers landsmanns rúmar 640 þús. kr. í árslok 1989, en í þessum reikningi, 1990, er fullyrt að það séu rúmar 707 þús. á hvern íbúa, hefur sem sagt hækkað þarna um 67 þús. á milli ára. Það er reyndar ekki hægt um vik að gera samanburð lengra aftur í tímann vegna þess að það eru svo miklar skuldbindingar uppfærðar í ríkisreikningi fyrir árið 1989. Hér vantar aftur á móti að gera grein fyrir því sem hver landsmaður á í eignum sem ríkissjóður ber ábyrgð á og skyldi ekki vera full ástæða til þess að gleðja landsmenn með því nú á tímum bölmóðs og svartsýni? Ég er þó engan veginn að gera lítið úr skuldastöðu ríkisins. Það er vissulega alvarlegt mál þegar svo til allur tekjuskattur einstaklinga á árinu fer í að greiða vexti af skuldum eða skuldbindingum. Vaxtakostnaður ríkissjóðs var 11,3 milljarðar á þessu ári, á árinu 1990 sem við erum hér að ræða um.
    Þá vil ég einnig nefna það og taka undir athugasemdir yfirskoðunarmanna ríkisreiknings þar sem þeir leggja áherslu á að almennar reglur séu settar um risnukostnað opinberra stofnana og fyrirtækja. Ég tel að það sé full þörf á að taka þau mál miklu fastari tökum heldur en gert hefur verið. Ég vil einnig minna á það sem ég hef áður sagt í umræðum um ríkisfjármál að ég tel að í 6. gr. fjárlaga felist svo víðtæk heimild til handa framkvæmdarvaldinu að Alþingi geti þar ekki mikið rönd við reist. Það hefur enda oft gerst að þar er farið verulega fram úr heimildum hvað upphæðir varðar. Það er heldur ekki um það að ræða að tilgreint sé hvaða fjármunum má verja til hverrar heimildar. Öll 6. gr. er kannski miðuð við einhverja ákveðna upphæð en það ekki tilgreint nánar. Yfirskoðunarmenn lýsa einnig þessu sjónarmiði og telja það ekki samrýmast kröfum um nútímaleg vinnubrögð í ríkisfjármálum. Að öðru leyti fagna ég því að ríkisreikningur fyrir árið 1990 er þó loks kominn til umfjöllunar á Alþingi þó það hefði verið æskilegt að hann kæmi fyrr. Það er ekki óeðlilegt að það taki um það bil ár að ganga frá svo viðamiklum ársreikningi. En

þetta er þó bót frá því sem mér er sagt að hafi verið fyrir nokkrum árum þegar ríkisreikningur kom ekki út fyrr en mörgum árum eftir að honum var lokað og stundum fimm ár af honum í einu fyrir hv. Alþingi.
    Ég hef reyndar ekki hugsað mér að fjalla nánar um einstaka liði þessa frv. um samþykkt á ríkisreikningi. Það hefur verið fjallað mjög um einstaka liði í umræðum um fjárlög og fjáraukalög fyrir þetta ár. Ég geri ráð fyrir að ríkisreikningi verði síðan vísað til fjárln. þar sem ég hef aðstöðu til að skoða hann frekar og ætla því ekki að ræða það frekar á þessu stigi málsins.