Ríkisreikningur 1990

128. fundur
Mánudaginn 15. mars 1993, kl. 13:54:34 (6029)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Eins og fram kom í framsöguræðu hæstv. fjmrh. 2. des. sl. hafa nokkrar umræður farið fram á undanförnum missirum um það hvernig eigi að færa m.a. langtímaskuldbindingar ríkissjóðs í fjárlögum og ríkisreikningi á því ári þegar ákvörðun er tekin um viðkomandi skuldbindingar. Það þarf ekki að útskýra það mörgum orðum hér í þessum sal að það er auðvitað lykilatriði að í fyrsta lagi þjóðþingið og í öðru lagi þjóðin geti búið við það að almenn samstaða sé um hvernig eigi að færa lykiltölur í ríkisfjármálum. Því miður hafa mál skipast á þann veg á undanförnum missirum að sú samstaða er ekki fyrir hendi. Það hefur verið milli fjmrn. og Ríkisendurskoðunar um nokkurt skeið ágreiningur um það hvernig eigi að færa langtímaskuldbindingar ríkissjóðs. Sá ágreiningur hefur birst með ýmsum hætti og hann kemur m.a. fram í framsöguræðu hæstv. fjmrh., sem hann flutti hér 2. des. Í þeirri umræðu kom jafnframt fram að þegar greidd voru atkvæði um fjáraukalög í janúar eða febrúar 1992 þá hefði fjárln. flutt einróma tillögu um að 1,5 milljarðar vegna Verðjöfnunarsjóðs sjávarútvegsins væri teknir þar inn. Þjóðþingið samþykkti þá tillögu með öllum greiddum atkvæðum gegn einu. Það mótatkvæði var atkvæði þess sem hér stendur. Hæstv. fjmrh. upplýsir síðan í andsvari 2. des. að ef hann hefði verið viðstaddur þá atkvæðagreiðslu þá hefði hann setið hjá. Í framsöguræðu sinni lýsir hins vegar fjmrh. að því að ég fæ séð sams konar afstöðu og fólst í mótatkvæði mínu við ákvörðun þingsins um það hvernig eigi að færa í þessu tilviki skuldbindinguna vegna Verðjöfnunarsjóðs.
    Með framsöguræðu sinni 2. des., tekur hæstv. fjmrh. eindregna afstöðu með þeim sjónarmiðum sem fjmrn. hefur flutt á undanförnum árum og átelur Ríkisendurskoðun sérstaklega fyrir það hvernig hún hefur fjallað um greiðsluuppgjör ríkissjóðs í nýbirtri skýrslu --- sem þá var nýbirt, 2. des. --- um framkvæmd fjárlaga árið 1992 og harmar að Ríkisendurskoðun skuli þannig, svo vitnað sé orðrétt í ræðu hæstv. ráðherra, ,,ala á tortryggni um uppgjörsaðferðir þegar fyrir liggja tillögur ríkisreikningsnefndar um þetta efni sem stofnunin hefur sjálf unnið að.`` Síðan hafa um þetta mál orðið nokkrar umræður og þær urðu einnig sl. haust og mér vitanlega hefur ekki fengist nein niðurstaða milli fjmrn. og Ríkisendurskoðunar í málinu. Mín fyrsta spurning til hæstv. fjmrh. er því sú: Er málið enn þá óleyst? Það mundi auðvitað greiða nokkuð fyrir umræðunni hér ef hæstv. ráðherra gæti upplýst það áður en umræðan héldi áfram hvort fengin er sameiginleg niðurstaða milli fjmrn. og Ríkisendurskoðunar og hver sú niðurstaða er. Ef svo er ekki þá blasir það við að enn þá er uppi ágreiningur milli fjmrn. og Ríkisendurskoðunar. Hins vegar hefur orðið sú breyting á að frá því að ég túlkaði hér á sínum tíma það sjónarmið, sem enn þá er mitt sjónarmið um það hvernig eigi að færa langtímaskuldbindingar, hefur Alþingi greitt atkvæði. Alþingi hefur greitt atkvæði. Það var gert um tillögu fjárln. um færslu yfirtöku skuldbindingar vegna Verðjöfnunarsjóðs sjávarútvegsins. Þar með liggur það fyrir að Alþingi hefur tekið afstöðu í málinu. Ég er að vísu ósammála þeirri afstöðu eins og atkvæðagreiðslan ber með sér. En þá vaknar sú spurning: Ætlar fjmrn. að taka mark á þeirri afstöðu Alþingis? Ég gat ekki skilið framsöguræðu hæstv. fjmrh. á annan veg en þann að Alþingi ætlaði ekki að gera það, að ráðuneytið hefði ekki skipt um skoðun og ætlaði að halda áfram sínum málflutningi. Þetta er auðvitað allt saman á þann veg að mjög er óheppilegt því að niðurstaðan verður auðvitað sú að almenningur í landinu, fjölmiðlar og aðrir ruglast mjög í ríminu.
    Ég leyni því ekki að ég tel að ein af röksemdunum gegn því sjónarmiði sem Ríkisendurskoðun hefur flutt í þessu máli sé sú að með því sé eiginleg efnisumræða um rekstrarhalla ríkissjóðs á hverju ári í venjulegum skilningi þess orðs, þ.e. tekjur ársins og gjöld ársins, gerð með þeim hætti að almenningur botnar hvorki upp né niður í málinu þar sem tölurnar geta tekið risavöxnum breytingum einfaldlega vegna tilviljana um það hvort Alþingi samþykkir eða ríkisstjórn langtímaskuldbindingu fyrir áramót eða eftir. Þetta hefur síðan leitt til þeirrar sérkennilegu uppákomu að fjmrn. er nú önnum kafið við að reyna að flytja breytingu sem sannanlega var samþykkt eftir áramóti varðandi Framkvæmdasjóð ríkisins fram fyrir áramót til þess að skapa einhvern sérstakan blæ á niðurstöðutölur þess árs sem ráðuneytinu er þóknanlegur á þeim forsendum að það hafi verið tekin efnisákvörðun um að gera þetta fyrir áramót. Þannig er líka búið að rugla málið hvað það snertir hvaða dagsetning gildir. Gildir sú dagsetning þegar lögin eru samþykkt á Alþingi og forseti undirritar þau eða gildir sú dagsetning þegar einhver efnisafstaða var tekin í ríkisstjórn? Ef svo er þá vil ég segja við hæstv. ráðherra: Það getur nú orðið nokkuð flókið. ( Fjmrh.: Þetta er misskilningur. Þetta eru bara almennar bókhaldsvenjur.) Almennar bókhaldsvenjur, segir hæstv. ráðherra. Það hefði ég haldið að væri í samræmi við almennar bókhaldsvenjur hvenær samningar eru undirritaðir, hvenær þeir taka gildi. ( Fjmrh.: Það er rangt líka.) Ef það er rangt líka að það sé í samræmi við bókhaldsvenjur hvenær samningar eru undirritaðir þá er það auðvitað alveg orðið ljóst að með því er verið að opna möguleika á að spila á þetta áfram. Þannig að þá gildir bara alls ekkert hvenær Alþingi gerir einhvern tiltekinn hlut að lögum heldur eru einhverjar bókhaldsvenjur orðnar æðri lagasetningu Alþingis. Ef Alþingi samþykkir að yfirtaka fjárskuldbindingar t.d. í febrúar, þá gildir það ekki heldur skuli það fært í nóvember árið áður af því að það sé í samræmi við einhverjar bókhaldsvenjur.
    Af því að ráðherrann segir hér í frammíkalli að það séu bókhaldsvenjur þá vil ég nú segja við hæstv. ráðherra að ég hef hlustað á bæði embættismenn fjmrn. og embættismenn Ríkisendurskoðunar halda fram alveg gjörólíkum ,,teoríum`` um hinar svokölluðu bókhaldsvenjur. Þannig að það segir mér nú satt að segja harla lítið um að það séu einhver ákveðin sannindi. Þess vegna hefði ég talið heppilegra að halda sig við það sem allur almenningur skilur: hvenær lög eru samþykkt á Alþingi. Það er þó alla vega ljóst. Um það er ekki hægt að deila. Það er tiltekinn dagur þar sem forseti lýsir því yfir á forsetastól að frv. sé samþykkt og verði sent hæstv. ríkisstjórn til staðfestingar.
    Nei, því miður er nú allt þetta mál þannig að mjög erfitt er að fóta sig á því. Það er auðvitað mjög brýnt að greitt sé úr þessari flækju. Ég sagði það hér af öðru tilefni fyrir skömmu síðan að mér hefðu fundist síðustu ákvarðanir ráðuneytisins varðandi færslu hluta tekjuskatts sem ákveðinn er fyrir árið í ár og útgjalda til sveitarfélaga veikja þetta mál allt saman. Því það hefur það í för með sér að til viðbótar við ágreininginn um það hvernig eigi að færa langtímaskuldbindingar og til viðbótar við ágreininginn um það hvort eigi að gilda sú dagsetning þegar lög eru samþykkt á Alþingi eða hvort það eiga að gilda einhverjar svokallaðar bókhaldsvenjur þá er í þriðja lagi kominn ágreiningur um það hvort eigi að færa hjá ríkissjóði þann hluta tekjuskatts sem lýst er yfir að eigi að vera ígildi aðstöðugjalds og borgast út til sveitarfélaganna. Þegar allt þetta þrennt er lagt saman þá er auðvitað orðið ljóst að niðurstöður á rekstri ríkisins, hver sé hallinn og hver ekki, hver sé hlutur ríkisins í hagkerfinu á hverjum tíma og hver sé hlutur annarra, er orðin fullkomlega marklaus umræða.
    Ég vil þess vegna segja við hæstv. fjmrh. að mér finnst málið hafa versnað upp á síðkastið. Það er auðvitað mjög brýnt að þessu ljúki á þann hátt að niðurstaða fáist sem er í senn skynsamleg, rökrétt og allir aðilar sætta sig við. Og ég vil óska eftir því að hæstv. fjmrh. tjái sig í þessari umræðu um málið og hvað hann hyggst gera á næstunni til þess að stuðla að því fyrir sitt leyti að niðurstaða fáist í málið. Því mér sýnist allt stefna í það að á þessu ári verði áfram alvarlegur ágreiningur milli Ríkisendurskoðunar og kannski hugsanlega meiri hluta Alþingis annars vegar og fjmrh. og fjmrn. hins vegar.