Ríkisreikningur 1990

128. fundur
Mánudaginn 15. mars 1993, kl. 14:29:54 (6035)


     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Því miður sýnist mér nú hæstv. fjmrh. frekar auka á vandann í þessum umræðum heldur en hitt. Ég beindi þeirri spurningu til hæstv. ráðherra hvernig hann hygðist reyna að ná sáttum í þessu máli. Mér finnst hann tala þannig hér að hann ætli bara áfram í þessa orrustu við Ríkisendurskoðun og er nú kominn með einhvern nýjan bandamann sem heitir bókhaldsnefnd sveitarfélaganna. En ég hef nú aldrei heyrt á hana minnst. Það má vel vera að í henni sitji hinir mætustu menn. Það væri fróðlegt að vita það hverjir sitja í þessari merku nefnd. Eru það sveitarstjórnarmenn sjálfir eða eru það einhverjir löggiltir endurskoðendur? Hverjir sitja í þessari merku bókhaldsnefnd sveitarfélaganna?
    Þótt hún hafi komist að þeirri niðurstöðu að það beri að færa hluta af tekjuskattinum sem skatttekjur hjá sveitarfélögunum, þá breytir það því ekki að tekjuskatturinn er samkvæmt lögum tekjustofn ríkisins en ekki tekjustofn sveitarfélaganna. Það mætti með svipuðum rökum fara að færa barnabæturnar og vaxtabæturnar sem skatttekjur hjá einstaklingum og breyta svo ríkisbókhaldinu í samræmi við það. Því miður held ég nú að þessi umræða sem þegar hefur farið fram hér bendi til þess að litlar horfur séu á því að niðurstaða fáist í þessum málum fyrir haustið og mér sýnist fjmrn. vera ákveðið í að fara í enn einn stríðsleiðangurinn við Ríkisendurskoðun, nú út af því hvernig eigi að færa þessa 4 milljarða. Ég tel það mjög slæmt af því að umræða um ríkisfjármál hér á landi þarf að vera með skýrum og afdráttarlausum hætti. Þetta er einn mikilvægasti þátturinn í efnahagslífi okkar Íslendinga og þegar verið er að efna til sífelldra deilna um færslur í þessum málum, þá verður það bara til þess að það yppa allir aðrir en þeir sem kunna þessa þrætubókarlist öxlum yfir því og treysta sér ekki í umræðuna. En ég vil nú biðja hæstv. fjmrh. og fjmrn. að huga vel að því hvernig þeir haga sér í þessum málum á næstunni.