Ríkisreikningur 1990

128. fundur
Mánudaginn 15. mars 1993, kl. 14:59:43 (6041)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Aðeins örfá orð í framhaldi af því sem hér kom fram nú síðast. Hæstv. fjmrh. hefur í raun og veru áréttað það sem lesa mátti úr orðum hans 2. des. að Ríkisendurskoðun hafi að vissu leyti gengið á bak þess samkomulags sem fjmrn. taldi að hefði orðið í ríkisreikningsnefnd. Fjmrh. sagði það mjög skýrt hér áðan að Ríkisendurskoðun hefði verið aðili að þeirri niðurstöðu sem náðst hefði í ríkisreikningsnefnd, en síðan hefði Ríkisendurskoðun gefið út skýrslu um framkvæmd fjárlaga fyrir árið 1992 þar sem lýst er allt öðrum skoðunum. Þetta er auðvitað mjög alvarlegur hlutur. Ef skipan mála er þannig að menn telja að ríkisreikningsnefnd sé vettvangurinn til að leysa þetta mál, þá þjónar það auðvitað litlum tilgangi ef önnur aðalstofnunin í þessu máli, Ríkisendurskoðun, fer engu að síður eigin leiðir eins og hæstv. ráðherra var að lýsa hér. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Hefur það komið fram að Ríkisendurskoðun sé reiðubúin að lúta þeirri niðurstöðu sem verður í ríkisreikningsnefnd? Mér er ekki kunnugt um að svo sé.
    Þá vaknar auðvitað upp sú spurning af því að ráðherrann sagði hér áðan að Ríkisendurskoðun væri ekki hæstiréttur í þessu máli, segjum að sú skoðun ráðherrans sé rétt, þá spyr ég: Hver er hæstiréttur í málinu? Augljósasta svarið við því er að segja: Það er Alþingi sem með atkvæðagreiðslu úrskurðar í málinu. Vandinn er hins vegar sá, hæstv. ráðherra, að Alþingi hefur úrskurðað í málinu. Það er að vísu úrskurður sem ég er ósammála. En það breytir því ekki að í atkvæðagreiðslu sem hér fór fram um tillögu fjárln. varðandi færslu Verðjöfnunarsjóðs sjávarútvegsins var kveðinn upp dómur hér í þessum sal. Og það var nú þess vegna sem ég sl. sumar dró hæstv. fjmrh. inn í þá umræðu vegna þess að ég hafði saknað hans skýrt í þeirri umræðu eins og fram kemur og hefði gjarnan viljað hafa atkvæði hans á hreinu úr því að hann var ekki þátttakandi í atkvæðagreiðslunni.
    Þarna finnst mér vera nokkur mótsögn hjá fjmrn. og hæstv. fjmrh. að segja: Ríkisendurskoðun er ekki hæstiréttur, Alþingi er hæstiréttur. En Alþingi hefur úrskurðað í málinu en það er bara niðurstaða sem fjmrn. getur ekki sætt sig við og fjmrh. flytur hér framsöguræðu 10 mánuðum eftir að Alþingi hefur kveðið upp sinn úrskurð þar sem ráðherrann lýsir því yfir að hann sé ósáttur við það að Ríkisendurskoðun skuli fylgja þeim úrskurði.
    Þetta þarf þess vegna að komast á hreint, hæstv. ráðherra, og ráðuneytið að átta sig á því að þótt meiri hluti Alþingis kjósi að fylgja Ríkisendurskoðun, þá verður auðvitað ráðuneytið að gera það upp við sig hvort það ætlar að fylgja þeirri niðurstöðu eða vera áfram í stríði við þingið og við Ríkisendurskoðun.