Ríkisreikningur 1990

128. fundur
Mánudaginn 15. mars 1993, kl. 15:05:12 (6043)

     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Mér finnst nú hæstv. fjmrh. vera almennt í þannig ham í þessu máli að hann sæki þetta eins og þetta sé eitthvert stefnumál ríkisstjórnarinnar sem hann þurfi að verja hér í einhverjum kappræðum á Alþingi. Ástæðan fyrir því, hæstv. ráðherra, að þessi mál hafa komið hér til umfjöllunar með þeim hætti sem ég og aðrir hafa gert að umræðuefni er að hæstv. ráðherra kaus sjálfur að flytja framsöguræðu þar sem ekki var fjallað nánast ,,teknískt`` um ríkisreikninginn fyrir 1990 heldur kaus hæstv. ráðherra að hefja hér almennar umræður um samskipti Ríkisendurskoðunar, fjmrn. og Alþingis og þær almennu niðurstöður sem þar falla. Það er ráðherrann sjálfur sem varði ég held meira en helmingi af sinni framsöguræðu til þess að ræða um þá þætti, þær almennu reglur sem þar gilda. Ef ráðherrann hefði haldið sig við hreina ,,tekníska`` framsöguræðu fyrir ríkisreikningnum 1990, þá er mér mjög til efs að þessi umræða hefði nokkurn tíma orðið.