Tekjuskattur og eignarskattur

128. fundur
Mánudaginn 15. mars 1993, kl. 15:56:17 (6052)


     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hæstv. forsrh. hefur nú sagt hér að hann hafi lesið yfir þennan texta. Það hefur hugsanlega gerst sérstaklega eða í því samtali sem vísað er til í blaðagreininni. Hins vegar er því haldið fram í blaðagreininni að hvorki fjmrh. né sjútvrh. hafi nokkuð vitað af málinu. Þess vegna hafi þeir sem voru viðstaddir á þessum fundi komið af fjöllum þegar því var lýst yfir fyrir hönd ríkisstjórnar Íslands að það ætti að gefa iðnaðinum þessa sjóði og sú stefna væri flutt án þess að það hefði nokkru sinni verið rætt í ríkisstjórninni, heldur hefði minnisblaðið eingöngu verið lagt fram í ríkisstjórn eftir að búið var að tilkynna opinberlega að það ætti að gefa iðnaðinum þessa sjóði. Og þetta er auðvitað það sem er kjarni þessa máls, ekki hvort hæstv. forsrh. les yfir ræðurnar nema það sé búið að taka upp þá skipan í ríkisstjórn Íslands að forsrh. fari með alræðisvald í stjórninni. Hæstv. forsrh. hristir höfuðið við þeirri fullyrðingu og ég hugsa að það sé rétt hjá honum. Það er auðvitað ekki sú skipan hér. Og þá dugir ekki að forsrh. lesi einhverja texta eða heyri þá í símanum ef verið er að tilkynna ráðstöfun á veigamiklum, opinberum sjóðum í hendur einkaaðila. Þess vegna finnst mér að hæstv. forsrh. þurfi að kynna sér rækilega þessa grein. Auðvitað er það almennt rétt hjá honum að menn bera kannski ekki til baka allt það sem sagt er. En þessi grein er einstök fyrir þá sök að hún er gagngert skrifuð af helsta stjórnmálablaðamanni Morgunblaðsins, víðlesnasta blaði landsins, til þess að rekja það nákvæmlega að orðum hæstv. viðskrh. sé ekki treystandi. Það er boðskapur greinarinnar. Og við sem þekkjum nú dálítið til í fjölmiðlaheiminum á Íslandi vitum það auðvitað að Agnes Bragadóttir og Morgunblaðið fara ekki að skrifa grein af þessu tagi nema ærin ástæða sé til og þess vegna verður þjóðarinnar vegna og okkar og þingsins vegna að rekja það nákvæmlega hvað er rangt í þessari grein --- ef eitthvað.