Tekjuskattur og eignarskattur

128. fundur
Mánudaginn 15. mars 1993, kl. 15:58:43 (6053)


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Virðulegi forseti. Það er vissulega ekki verkefni þessa þingfundar að fjalla um blaðagreinar í Morgunblaðinu um efni sem eru alveg óskyld frv. sem hér er til umræðu. En vegna orða hv. 8. þm. Reykn. vil eg taka það skýrt fram að yfirlýsingar mínar í þessu máli, málefnum lánasjóða iðnaðarins, og yfirlýsingar mínar um stefnu ríkisstjórnarinnar í málefnum Seðlabanka Íslands og viðskiptabanka í eigu ríkisins, sem gefnar hafa verið á opinberum vettvangi, eru byggðar á sameiginlegri stefnu ríkisstjórnarinnar. Það gildir um þetta mál og það gildir um hin tvö sem nefnd voru. Síðar mun að sjálfsögðu koma í ljós þegar þessi málefni ber fyrir þingið eins og eðlilegt er hvernig þingið afgreiðir þau. En það er fjarri öllu lagi að tala á þann hátt sem hv. þm. gerði hér, að á einhvern hátt hafi verið ráðskast með málefni þessara stofnana án þess að það væri að réttum lögum og leikreglum gert. Því vísa ég algjörlega á bug og skil reyndar ræðuna svo, sem hér var flutt áðan, að það sé reyndar aðaltilgangur hennar að gefa slíkt í skyn. Það er að sjálfsögðu fjarri öllu lagi og ósæmilegur málflutningur á Alþingi Íslendinga.