Tekjuskattur og eignarskattur

128. fundur
Mánudaginn 15. mars 1993, kl. 16:00:23 (6054)


     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hæstv. viðskrh. treysti sér ekki til þess að segja það hér áðan að tilkynning hans á aðalfundum iðnaðarins hefði verið samþykkt í ríkisstjórninni áður en hún var flutt. Það var auðvitað það athyglisverða í ræðu hans hér áðan. Það kom ekki fram heldur kom í staðinn almenn yfirlýsing um að það sem hann hefði sagt um bankana og þessa sjóði og fleira væri í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar. Um það snýst ekki þetta mál. Málið snýst um það hvort hæstv. viðskrh. hafi greint þjóðinni rangt frá þegar hann greindi frá því að ríkisstjórnin hefði ákveðið að gera þetta með þessum hætti. Og það er upplýst í Morgunblaðinu að það mál hafi aldrei verið rætt í ríkisstjórninni og meira að segja tilgreint sérstaklega að hæstv. fjmrh. hafi þá fyrst heyrt af því þegar iðnrh. tilkynnt það opinberlega. Væri nú fróðlegt að hæstv. fjmrh. bæri líka vitni í þessu máli því að það er auðvitað mjög alvarlegur hlutur fyrir hæstv. fjmrh. þegar því er haldið fram eins og ég hef hér rakið að hæstv. viðskrh. sé farinn að gefa eigur ríkisins --- sé farinn að gefa eigur ríkisins án þess að hafa fyrir því í fyrsta lagi formlegt samþykki í ríkisstjórn og þar með fjármálaráðherrans og auðvitað í öðru lagi samþykkt þingflokka og helst Alþingis. Ef ákvörðunartakan er orðin með þeim hætti að menn fara út á völlinn og tilkynna gjafir á eigum ríkisins bara eftir símtal við hæstv. forsrh., hvar erum við þá stödd í þessu stjórnkerfi? Er þá bara kerfið orðið ,,Ríkið, það er ég`` sem hæstv. viðskrh. fer eftir? Það væri auðvitað fróðlegt að heyra í hæstv. fjmrh. í þeim efnum. Ég vek enn athygli á því að það sem sagt er í þessari grein um samhengið við Fiskveiðasjóð er auðvitað alveg hárrétt því með nákvæmlega sömu rökum og hæstv. iðnrh. virðist vera að gefa upp á sitt eindæmi, a.m.k. opinberlega samkvæmt eigin yfirlýsingum eigur iðnaðarins, eigur ríkisins til iðnaðarins, geta forsvarsmenn sjávarútvegsins

gert kröfur í Fiskveiðasjóð. Þessi ákvarðanataka er auðvitað öll með eindæmum og það væri auðvitað réttast í málinu að ríkisstjórnin gæfi út formlega yfirlýsingu í málinu til þess að fá það alveg á hreint hvernig það er vaxið.