Tekjuskattur og eignarskattur

128. fundur
Mánudaginn 15. mars 1993, kl. 16:09:23 (6058)

     Flm. (Árni R. Árnason) :
    Virðulegi forseti. Ég verð að segja um ræðu hv. 2. þm. Vestf. um 337. mál þegar hann nefndi frv. til laga um viðskiptabanka og sparisjóði vera úr ,,veröld hinna fráteknu stæða``, að þá var hann að tala úr ,,veröld hins víðfeðma misskilnings`` því það mál var alls ekki til umræðu. Ég er hugsi, virðulegi forseti, yfir því að menn skuli hér komast upp með það að taka til umræðu önnur mál en þau sem eru á dagskrá, þó ekki sé umræða utan dagskrár sem mér virtist þó helst vera tækifæri til í þingsköpum. En vegna þeirra orða sem hann viðhafði og byggði á 337. máli, sem ég er flm. að, skal ég svara honum því til að þar er er engin nýbreytni sköpuð að menn séu misjafnlega jafnir. Það er meira að segja eldra en George Orwell sem hann vísaði til að á Íslandi sé séra Jón eitthvað jafnari en Jón þannig að þar er hvorki komin fram ný kenning né ný staðhæfing né nokkurt nýnæmi. Hann segir það vera með frv. til laga um viðskiptabanka og sparisjóði staðfest að ábyrgð og hlutverk ábyrgðarmanna í sparisjóðum verði arfgengt. Ég hygg að það hafi komið fram við 1. umr. um það mál að hún hefur verið það alllengi.
    Hins vegar er frv. það sem er til umræðu lagt fram til þess að það verði rætt og leitast við að skapa sparisjóðunum jafna stöðu í samkeppni um eigið fé, um fjármagn til sinnar eigin starfsemi eins og bönkum. Frv. til laga um viðskiptabanka og sparisjóði gerir ráð fyrir þessu að öllu öðru leyti. Hann veltir því fyrir sér hvort gengið verði til þess að gefa mönnum eignir sparisjóðanna. Það er a.m.k. ekki samkvæmt ákvæðum frv. sem hann gerði að umtalsefni. Þar er gert ráð fyrir því að menn geti keypt stofnfé, þeir geti fengið arð af því stofnfé og það fari eftir ákvörðunum tryggingarsjóða sparisjóðanna hver sá arður verði hið mesta. En þeir eiga engan annan aðgang að fá af hagnaði eða arði sparisjóðanna. Um þetta er getið í 17. og 60. gr. þess frv.
    Að öðru leyti, virðulegi forseti, geri ég ekki þær ræður sem hér hafa orðið að umræðu- eða umtalsefni. Þær voru að mínu viti úr ,,veröld hins víðfeðma misskilnings``.