Samskipti fjármálaráðuneytis og Ríkisendurskoðunar

129. fundur
Þriðjudaginn 16. mars 1993, kl. 13:56:13 (6073)

     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Ég vil þakka forseta fyrir að taka af skarið með að lýsa því yfir að hún muni beita sér fyrir að fram fari umræða um þessi mál. Ég vil benda hæstv. forseta á að það kom fram í gær í umræðu að ársskýrsla Ríkisendurskoðunar fyrir árið 1992 hefur legið órædd mánuðum saman frá því að mælt var fyrir henni og þeirri umræðu þarf að halda áfram og ljúka henni. En auk þess vil ég taka undir það

með hv. 9. þm. Reykv. að ég tel að það sé nauðsynlegt að umrædd skýrsla Ríkisendurskoðunar og endurskoðunarmanna ríkisreikninga komi hér á dagskrá á allra næstu dögum því að það er auðvitað ekki unandi við það að hæstv. ráðherra segi hér æ ofan í æ setningar eins og hann sagði nú hér síðast í máli sínu: ,,eins og Ríkisendurskoðun vill vera láta með sínum ranga samanburði.`` Harðari áfellisdóm er varla hægt að fella um þessa stofnun sem heyrir undir hið háa Alþingi og það er þess vegna ekki í valdi hæstv. ráðherra að beita sér fyrir einni eða neinni umræðu um þessi mál hér. Það er eins og hæstv. forseti réttilega tók af skarið um í valdi forseta og forsætisnefndar og ég treysti því, frú forseti, að það verði gert sem allra fyrst.