Framkvæmd útboða

129. fundur
Þriðjudaginn 16. mars 1993, kl. 14:23:52 (6088)


     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég er eins og margir sem hér hafa talað á undan mér mjög ánægð með það að hér skuli vera komið fram frv. til laga um framkvæmd útboða og vil taka það fram að ég studdi eins og margir aðrir tillögu hv. þm. Stefáns Guðmundssonar á síðasta þingi. Hefði þurft að vera komið fram frv. til laga um þetta fyrir löngu síðan því að það hefur sýnt sig að þó að í útboðum hafi verið byggt á ÍST

30, þá hefur það ekki nægt til þess að þeir sem hafa stundað útboð hafi farið eftir þeim reglum sem þar gilda. Vonandi kemst þetta frv. áfram í þinginu þannig að menn hafi þá lagaákvæði að byggja á.
    Það má nefna að í 17. gr. frv. segir um höfnun á tilboði, með leyfi forseta:
    ,,Vilji kaupandi ekki taka tilboði sem borist hefur skal hann skýra bjóðanda frá því formlega eigi síðar en í lok þess frests sem hann hefur til að taka tilboði.``
    Fresturinn er samkvæmt íslenskum staðli þrjár vikur og ég minni á það að núna síðast í vetur þegar við ræddum utan dagskrár um tilboð í sjúkrahúsið á Ísafirði, þá voru komnar sex vikur frá því að tilboð höfðu verið opnuð og þá var enn hvorki búið að taka tilboðum né hafna. Það liðu rúmar sex vikur þar til það gerðist.
    Það má einnig nefna það að í 18. gr. segir að hafi útboð farið fram, þá sé kaupanda óheimilt að efna til útboðs að nýju eða semja um framkvæmd þess eftir öðrum leiðum en útboðsgögn kveða á um fyrr en öllum þátttakendum hafi skriflega verið greint ítarlega frá ástæðum þess að öllum tilboðum hafi verið hafnað. Þetta ákvæði hefur einnig verið brotið. Það voru að vísu ekki lög um það en ef þetta hefðu verið lög á þeim tíma sem ég ræddi hér um áðan, þá hefði þetta lagaákvæði einnig verið brotið. Svo að ég nefni aftur útboð í sjúkrahúsið á Ísafirði, þá fóru fram útboð í utanhússviðgerðir á sl. sumri. Það barst fjöldi tilboða en þeim var ekki svarað áður en ákveðið var að fara aðra leið en þar var boðin út.
    Ég vænti þess að hæstv. iðnrh. sem hér er að leggja fram þetta frv. muni hafa kynnt þetta mjög vel í sínum ríkisstjórnarflokki og allir ráðherrar séu því samþykkir og vilji vinna að framgangi þessarar lagasetningar.