Framkvæmd útboða

129. fundur
Þriðjudaginn 16. mars 1993, kl. 14:34:24 (6090)

     Iðnaðarráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Hæstv. forseti. Ég þakka þann stuðning sem fram hefur komið við þetta frv. í umræðunum. Ekki síst vil ég þakka þeim hv. 4. þm. Norðurl. v. og hv. 5. þm. Vesturl. sem báðir hafa sýnt þessu máli mikinn áhuga á fyrri stigum málsins og sannarlega flýtt fyrir því að þetta mál er nú hingað komið.
    Vegna spurningar frá hv. 5. þm. Vestf. vil ég taka það fram að í útgáfunni sem prentuð hefur verið upp eru leiðrétt þau mistök að niður hafði fallið gildistökuákvæðið og kostnaðarumsögn frá fjárlagaskrifstofu fjmrn. Þetta tvennt hefur nú verið leiðrétt. Þetta eru þær einu breytingar sem gerðar hafa verið á frv. frá þeirri gerð sem það hefur legið hér í þinginu um nokkurt skeið.
    Ég tel ekki ástæðu á þessu stigi til þess að hafa fleiri orð um efni frv. Ég fagna því að þingmenn virðast almennt taka tillögunum vel og bendi á að hv. efh.- og viðskn. mun að sjálfsögu fjalla vandlega um þetta mál og mér segir hugur um að það kynni að vera skynsamlegt, þótt sú nefnd ákveði það að sjálfsögðu sjálf, að leita álits hv. iðnn. á málinu því að það er hverju orði sannara sem hér kom fram hjá hv. 5. þm. Vesturl. að það hefur lengi verið mikið kappsmál iðnaðarmanna og Landssambands iðnaðarmanna að koma á betri leikreglum á þessu sviði athafna- og viðskiptalífs.
    Vegna orða hv. 4. þm. Norðurl. e. um gildissvið laganna, þá er það að sjálfsögðu afmarkaður tilgangur þessa frv. að gera tillögur um lög sem gilda skuli þegar útboði er beitt. Í þessum lagagreinum er hvergi að því vikið orði hvenær eða með hvaða hætti skuli fara með einstök tilefni slíkra viðskipta. Það er annað mál og ekki ætlunin að taka á því með þessu frv.
    Ég vil svo að lokum vegna orða hv. 6. þm. Vestf. taka það fram að að sjálfsögðu hefur þingflokkur Alþfl. fjallað um þetta mál og er alls ekki ráð fyrir öðru gert en lögin gildi á Vestfjörðum líka.