Samvinnufélög

129. fundur
Þriðjudaginn 16. mars 1993, kl. 14:37:29 (6091)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 22 frá 27. mars 1991, um samvinnulög. Frv. er á þskj. 644.
    Þegar hin nýju samvinnulög voru samþykkt árið 1991 var bætt við þau ákvæði til bráðabirgða sem lagði viðskrh. þá skyldu á herðar að skipa nefnd sem hafa skyldi það hlutverk að gera tillögur um framtíðarskipan innlánsdeilda samvinnufélaga. Jafnframt skyldi nefndin gera tillögur um þær lagabreytingar sem nauðsynlegar kynnu að vera til þess að fella reglur um rekstur innlánsdeilda að almennum reglum sem gilda um aðrar innlánsstofnanir og jafnframt taka tillit til sérstöðu starfandi innlánsdeilda og þýðingar þeirra fyrir hlutaðeigandi samvinnufélög.
    Í samræmi við þetta ákvæði skipaði ég síðan nefndina og frv. sem hér liggur fyrir þingheimi er árangur af starfi nefndarinnar og tillögugerð hennar.
    Auðvitað var þessari nefnd nokkur vandi á höndum. Annars vegar er ljóst að innlánsdeildirnar hafa haft miklu hlutverki að gegna innan samvinnuhreyfingarinnar á Íslandi. Hins vegar hafa menn lengi haft áhyggjur af stöðu innlagseigenda í innlánsdeildum eins og reyndar er allítarlega rakið í athugasemdunum við frv. Af þessum ástæðum þótti nauðsynlegt að tryggja betur stöðu þeirra sem innstæður eiga í innlánsdeildunum.
    Það er skylt að taka fram að það hafa að vísu ekki orðið stóráföll í þessu efni ef litið er á heildarfjárhæðir en minni áföll þó og það síðasta líklega í sambandi við gjaldþrot kaupfélags vestur í Önundarfirði. Þótt þar væri ekki um háar fjárhæðir að ræða var það að sjálfsögðu mjög tilfinnanlegt tjón fyrir þá einstaklinga og þá aðila sem urðu fyrir því. Til þess að gefa hugmynd um mikilvægi innlánsdeildanna er rétt að það komi fram að innstæður í innlánsdeildunum námu rúmlega tveimur milljörðum kr. í árslok 1991 og hér er því um verulega hagsmuni að ræða þegar litið er á heildina.
    Það varð niðurstaða nefndarinnar að það mætti ekki jafna innlánsdeildunum í samvinnufélögunum við venjulegar innláns- og lánastofnanir. Áhættan er meiri, einkum af tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi er lántakinn aðeins einn, samvinnufélagið, og hins vegar er fjármunum deildanna ekki haldið aðskildum frá atvinnurekstri, áhætturekstri, sem er alls óskyldur rekstri venjulegra innlánsstofnana en það er einmitt þetta tvennt sem markar innlánsdeildum kaupfélaganna sérstöðu.
    Nefndin mat þá hagsmuni sem hér eru í húfi og gerði síðan um það tillögu í frv. að samvinnufélögum verði áfram heimilað að reka innlánsdeildir, en gerðar verði strangar kröfur til þessara félaga um eigið fé og eiginfjárhlutfall í innlánsdeildunum. Jafnframt yrðu þau að vera aðilar að Tryggingarsjóði innlánsdeilda. Þessar kröfur koma fram í 1. gr. frv. en þar er lagt til að nýrri grein, 2. gr. a. verði bætt við samvinnulögin og þar séu talin skilyrði fyrir því að samvinnufélag megi starfrækja innlánsdeild. Eigið fé slíks samvinnufélags skal vera a.m.k. 100 millj. kr. og hlutfall eigin fjár af heildareignum eigi lægra en 20%. Lágmarksfjárhæð eigin fjár breytist í takt við verðbreytingar og er mælt fyrir um hvernig við skuli bregðast þegar eigið fé eða eiginfjárhlutfall samvinnufélags fer niður fyrir lágmarkskröfu laganna.
    Þá er gerð sú krafa að reikningar félagsins séu endurskoðaðir af löggiltum endurskoðanda og einnig sú krafa að það sé aðili að Tryggingarsjóði innlánsdeilda og enn fremur að samþykktir sjóðsins skuli staðfestar af ráðherra líkt og gildir t.d. um sparisjóði. Í greininni segir að til tryggingar því fé sem lagt er í innlánsdeild séu eignir félagsins, þar með taldar eignir í Tryggingarsjóði innlánsdeilda og ábyrgð félagsmanna samkvæmt 18. gr. samvinnulaga.
    Þá er innlánsdeild óheimilt að veita lán í eigin nafni eða reka aðra fjármálastarfsemi en um getur í upphafi greinarinnar og hún teljist ekki innláns- eða lánastofnun í skilningi laganna um Seðlabanka Íslands. Til nánari skýringar á því sem ég nefndi hér síðast vil ég geta þess að samþykktir Tryggingarsjóðs innlánsdeilda eru nú til endurskoðunar, og þar með krafan um staðfestingu ráðherra, eru sett fram til þess að tryggja vissar lágmarkskröfur til starfsemi sjóðsins. M.a. þykir eðlilegt að gera þá kröfu að samvinnufélag sem er aðili a þessum sjóði eigi sem séreign í honum a.m.k. ígildi bindiskyldrar innstæðu í sama hlutfalli og Seðlabankinn beitir á ráðstöfunarfé lánastofnana á hverjum tíma.
    Það að innlánsdeild teljist ekki innláns- eða lánastofnun í skilningi laganna um Seðlabankann þýðir m.a. að hún þarf þá ekki að fullnægja almennum kröfum til innlánsstofnana, m.a. þeim kröfum sem gerðar eru í samningnum um Evrópskt efnahagssvæði, en á móti nýtur hún heldur ekki sömu fyrirgreiðslu í Seðlabanka og innlánsstofnanir eiga að geta notið. Hún fellur hins vegar undir eftirlit bankaeftirlits Seðlabankans samkvæmt fyrirliggjandi frv. til nýrra seðlabankalaga sem ég bendi á og var nú á dagskrá þessa fundar, en þar er einmitt áskilnaður um það að innlánsdeildir samvinnufélaga falli undir bankaeftirlitið. Þetta ákvæði tel ég mjög mikilvægt.
    Í 2. gr. frv. er að finna tillögu um nýtt bráðabirgðaákvæði við samvinnulögin þar sem samvinnufélögum er veittur aðlögunarfrestur að þessum nýju kröfum til 31. jan. 1994. Fullnægi þau ekki kröfunum skulu þau leggja niður innlánsdeildir sínar hinn 1. jan. 1995 og má reikna með því að þar sem slíkt gerist verði það yfirleitt gert með samningum við banka eða sparisjóði sem tryggi hag innlagseigenda og komi a.m.k. í mörgum tilfellum til móts við þarfir félaganna. En stærstu og öflugustu samvinnufélögin munu án efa áfram geta rekið sínar innlánsdeildir ákveði stjórnir þeirra að gera það.
    Þá er loks í 2. gr. mælt fyrir um að ákvæði framangreindrar innskotsgreinar í samvinnulögin verði tekin til endurskoðunar ekki síðar en 1. jan. árið 2000. Eru þá hafðar í huga þær öru breytingar sem nú eru að verða í atvinnu- og efnahagsstarfsemi þjóðarinnar.
    Ég vil taka það fram að í nefndinni sem samdi þetta frv. sátu þeir Björn Friðfinnsson ráðuneytisstjóri, Guðbrandur Þ. Guðbrandsson fulltrúi, Jón Adólf Guðjónsson bankastjóri, Ragnar Hafliðason, aðstoðarforstöðumaður bankaeftirlits Seðlabanka Íslands, Sigurður Hafstein framkvæmdastjóri og Þórir Páll Guðjónsson kaupfélagsstjóri. Þessar tillögur eru samdar af þeim og þeir standa sameiginlega að þeim.
    Ég vil ljúka ræðu minni í þetta sinn, virðulegi forseti, með því að bera fram þá ósk að þetta frv. verði að lögum á þessu vori og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.