Eiginfjárstaða innlánsstofnana

131. fundur
Miðvikudaginn 17. mars 1993, kl. 14:10:11 (6093)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um ráðstafanir til að efla eiginfjárstöðu innlánsstofnana. Þetta frv. er á þskj. 740.
    Þessar ráðstafanir eru tvíþættar. Annars vegar er lagt til að eiginfjárstaða Landsbankans verði bætt sérstaklega og hins vegar að sett verði í lög ákvæði um almennan viðbúnað til þess að bæta eiginfjárstöðu banka og sparisjóða fyrir milligöngu tryggingarsjóða innlánsstofnana ef þörf krefur.
    Virðulegi forseti. Langvinnir efnahagserfiðleikar hér á landi og í okkar næsta umhverfi, stöðugar fréttir af erfiðleikum innlánsstofnana í ýmsum nágrannaríkja okkar gera það að verkum að það er afar mikilvægt að grípa til slíkra ráðstafana til þess að auka traust á bankakerfi landsins og viðhalda því.
    Ég þarf ekki að fara um það mörgum orðum að Landsbanki Íslands er mikilvægasta lánastofnun þessa lands, flaggskip íslenska bankakerfisins. Hlutur hans í heildarútlánum banka og sparisjóða er rúmlega 40% og um 37% af öllum innlánum. Landsbankinn er næstum helmingi stærri en næststærsti banki landsins. Hann gegnir mikilvægu hlutverki fyrir allar atvinnugreinar, er sannkallaður atvinnuvegabanki, en þó er hlutverk hans sem umsvifamestu bankastofnunar sjávarútvegsins einna mikilvægast. Það er af þessum sökum sem það er alveg sérstaklega mikilvægt að eiginfjárstaða Landsbankans sé trygg.
    Um síðustu áramót gengu í gildi ný lagaákvæði um eiginfjárkröfur sem gerðar eru til banka. Kröfur þessar eru byggðar á alþjóðareglum sem seðlabankar og eftirlitsstofnanir á Vesturlöndum hafa komið sér saman um. Það var þegar á liðnu ári ljóst að þessar nýju reglur voru sérlega kröfuharðar gagnvart Landsbankanum vegna samsetningar á viðskiptum hans og útlánum. Enda þótt bæði Landsbankinn og aðrir bankar virtust geta mætt þessum kröfum um sl. áramót var ljóst að þessar nýju reglur færðu Landsbankanum sérstakan vanda að höndum. Ekki síst af því að á undanförnum missirum hefur eiginfjárstaða Landsbankans farið versnandi sem stafar bæði af almennum samdrætti í efnahagslífi í landinu og ekki síður sérstaklega af samdrætti í sjávarútvegi og vegna afleiðinga af útlánastefnu fyrri ára. Sem stærsti og mikilvægasti atvinnuvegabanki landsins hefur Landsbankinn orðið að axla þungar byrðar af þessum sökum.
    Þrátt fyrir að bankinn hafi lagt umtalsverðar fjárhæðir til hliðar á afskriftareikning útlána á mánuði hverjum á árinu 1992 er nú ljóst orðið að það dugar ekki til. Nýjustu upplýsingar um afkomu helstu viðskiptavina bankans benda til þess að síðasta ár hafi verið mörgum þeirra þungt í skauti. Þá skiptir einnig máli í þessu sambandi að bankinn lánaði verulegar fjárhæðir til fiskeldis og loðdýraræktar, tveggja atvinnugreina sem landsmenn bundu miklar vonir við, vonir sem því miður hafa ekki ræst. En það fé er nú að mestu glatað.
    Í ljósi þessarar þróunar ákvað ríkisstjórnin undir lok síðasta árs að beita sér fyrir því að Seðlabanki Íslands veitti Landsbankanum víkjandi lán að fjárhæð 1.250 millj. kr. til að bæta eiginfjárstöðu hans.
    Aðdragandi að þessari ákvörðun voru viðræður milli viðskrn., Landsbanka og Seðlabanka um leiðir til að tryggja hag og stöðu bankans. Í samþykkt ríkisstjórnarinnar var tekið fram að stuðningur við bankann tengdist áformum um að breyta bankanum í hlutafélag í eigu ríkisins og ekki síður almennum aðgerðum til að styrkja stöðu atvinnulífsins í landinu. Ríkisstjórnin setti það skilyrði fyrir fyrirgreiðslunni að Landsbankinn hrindi í framkvæmd á því ári sem nú er að líða skipulegri áætlun til þess að bæta eiginfjárstöðu og afkomu sína, m.a. með almennri hagræðingu í rekstri, fækkun útibúa, aðhaldi að útlánum og í lækkun erlendra endurlána.
    Greinargerð bankastjórnar Landsbankans um aðgerðir til að bæta afkomu og eiginfjárstöðu bankans barst ríkisstjórninni og Seðlabankanum í lok janúarmánaðar sl. Það náðist um það samkomulag milli viðskrn. og bankastjórnar Landsbankans að sérfræðingar úr Landsbankanum og Seðlabankanum færu yfir einstaka þætti í þessari greinargerð bankastjórnarinnar og gerðu síðan viðskrn. og bankastjórn og bankaeftirliti Seðlabanka grein fyrir því hvernig þessi áform Landsbankans yrðu framkvæmd í nánari atriðum. Þessari vinnu er ekki lokið en að þessu verki er nú kappsamlega unnið. Þegar að því kom að ganga frá ársreikningum Landsbankans fyrir árið 1992 varð það niðurstaðan að til þess að þessi ársreikningur gefi viðunandi mynd af stöðu hans, þessa helsta banka okkar lands, þannig að endurskoðendur bankans, ríkisendurskoðandi og viðskrh., sá sem hér stendur, geti staðfest reikninginn er nauðsynlegt að lágmarki að afskriftareikningur útlána verði 4.500 millj. kr. miðað við árslok 1992. Yrði að því ráði farið yrði hlutfall eigin fjár undir lögbundnu 8% lágmarki þrátt fyrir 1.250 millj. víkjandi lán sem Seðlabankinn með atbeina ríkisstjórnarinnar veitti Landsbankanum um áramótin síðustu.
    Í athugasemdum með áritun endurskoðenda, ríkisendurskoðanda og ráðherra verður þess nú getið að ríkisstjórnin hafi lýst því yfir að hún muni beita sér fyrir því að eiginfjárhlutfall bankans verði hækkað ríflega yfir lögbundið lágmark og að frv. þar að lútandi hafi verið lagt fram á Alþingi --- það frv. sem við ræðum hér í dag. Þetta er nauðsynlegt til að engar efasemdir vakni meðal innlendra og erlendra viðskiptavina og lánardrottna bankans um að ríkissjóður axli ábyrgð sína á starfsemi þessa banka.
    Ég hef þegar nefnt það sem segja má að endurskoðendur hafi sett fram sem lágmark fyrir afskriftareikning útlána. En að mati endurskoðenda bankans og ríkisendurskoðanda er reyndar æskilegt að auka

afskriftir útlána enn frekar á þessu ári en þegar hefur verið nefnt eða allt að 5.800 millj. kr. Það er með öllu ljóst að bankinn getur ekki staðið undir svo miklum afskriftum án utanaðkomandi fyrirgreiðslu. Ríkisstjórnin hefur því ákveðið að höfðu samráði við bankastjórn Seðlabankans og eftir viðræður við bankastjórn Landsbankans og forustu bankaráðsins að bregðast við versnandi eiginfjárstöðu Landsbankans með tvennum hætti og leitar nú heimildar Alþingis fyrir þeim ráðstöfunum.
     Í fyrsta lagi að bankanum verði veitt allt að 2.000 millj. kr. fjárhagsaðstoð úr ríkissjóði. Þessi aðstoð getur verið með ýmsum hætti. En helst koma til greina framlag í reiðufé eða ríkisskuldabréfum eða víkjandi lán úr ríkissjóði.
    Í öðru lagi að bankanum verði veitt allt að 1.000 millj. kr. víkjandi lán úr Tryggingarsjóði viðskiptabanka. En til þess að slíkt sé unnt þarf að breyta lagaákvæðum um sjóðinn í viðskiptabankalögunum. Að meðtöldu láninu og víkjandi láni frá Seðlabankanum um áramótin síðustu um 1.250 millj. kr. felst í þessum tillögum allt að 4.250 millj. kr. heildarfyrirgreiðsla við Landsbankann.
    Hér er um háar fjárhæðir að ræða og að sjálfsögðu yrði slík fyrirgreiðsla við bankann háð skilyrðum. Í fyrsta lagi að viðræður hefjist milli Landsbanka og Búnaðarbanka í því skyni að bankarnir skiptist á eignarhlutum sínum í greiðslukortafyrirtækjum og eignarleigum þar sem þeir eiga báðir hlut þannig að fyrirtækin komist að meiri hluta í eigu annars hvors bankans í stað þess að þeir séu báðir minnihlutaeigendur í þessum fyrirtækjum öllum.
    Með breytingum af þessu tagi mundu eignir af þessu tagi nýtast betur við útreikning á eigin fé. Telja verður að það sé í hæsta máta óeðlilegt að þeir fjármunir sem bundnir eru í fyrirtækjum með eignaraðild ríkisbankanna nýtist þeim ekki til eigin fjár, og þar með ekki eigandanum, með sem hagkvæmustum hætti. Fyrirgreiðslan yrði einnig háð því skilyrði að gerður verði samningur milli viðskrh. og fjmrh. annars vegar og Landsbankans hins vegar um það til hvaða ráðstafana bankinn skuldbindi sig til að grípa í því skyni að bæta afkomu sína og þar með eiginfjárstöðu.
    Í slíkum samningi yrði kveðið á um eftirlit með framkvæmd hans. Veruleg hagræðing í rekstri bankans er mikilvæg forsenda fyrir því að eiginfjárstaða hans haldist góð til frambúðar. En það er einmitt undirbúningur að slíku samkomulagi sem unnið hefur verið að frá því að víkjandi lán frá Seðlabankanum var veitt Landsbankanum um áramótin síðustu.
    Það er kveðið á um þau atriði sem ég hef nú gert að umtalsefni í frv., þ.e. fjárhagsstuðning ríkissjóðs við Landsbankann, heimild fyrir hugsanlegri lántöku ríkissjóðs í því skyni og skuldbindingar stofnana sem njóta vilja fyrirgreiðslu af þessu tagi, í 1., 2. og 6. gr. þessa frv. Ég tel ekki ástæðu til að fjalla nánar um þessar þrjár greinar frv. en vísa að öðru leyti til athugasemda við það og athugasemda við einstakar greinar þess.
    En hver er almennur bakgrunnur þessa máls? Því er auðvitað ekki að leyna að efnahagserfiðleikar undanfarinna ára hafa haft slæm áhrif á afkomu lánastofnana og jafnt annarra lánastofnana sem Landsbankans. Í því skyni að auðvelda innlánsstofnunum að bæta eiginfjárstöðu sína ef sú þörf kynni að rísa er hér lagt til að Tryggingarsjóði viðskiptabanka og Tryggingarsjóði sparisjóða verði heimilað að taka lán með ríkisábyrgð að fjárhæð samtals 3.000 millj. kr. til að þeir geti veitt víkjandi lán til innlánsstofnana í því skyni að bæta eiginfjárstöðu þeirra. Til að sjóðunum sé þetta heimilt verður að breyta lagaákvæðum um Tryggingarsjóð viðskiptabanka í viðskiptabankalögunum frá 1985 og sparisjóðalögunum frá sama ári. Reyndar er það svo að í sparisjóðalögunum og lögunum um Tryggingarsjóð sparisjóða eru rýmri ákvæði um heimildir sjóðanna til að lána sparisjóðunum til eflingar eigin fjár. Um þessi atriði sem ég hef nú nefnt er fjallað í 3. og 4. gr. frv. og um ríkisábyrgðina á slíkum lántökum í 5. gr. frv.
    Það er gert ráð fyrir því í þessu máli eins og fram kemur í athugasemdunum að Tryggingarsjóður viðskiptabanka veiti á þessu ári Landsbankanum víkjandi lán að fjárhæð allt að 1.000 millj. kr. Ég tel rétt að undirstrika að þessi tvenns konar starfsemi tryggingarsjóðanna, þ.e. annars vegar innstæðutryggingarnar sem þegar eru í lögum og hins vegar lántökur og endurlán lánsfjár í formi víkjandi lána, að þessu tvennu verði haldið algjörlega aðgreindu. Ég legg áherslu á að víkjandi lán úr tryggingarsjóðum innlánsstofnana til að bæta eiginfjárstöðu þeirra yrði að sjálfsögðu háð því skilyrði að viðkomandi lánastofnun geri samning við viðskrh. og fjmrh. um nauðsynlegar ráðstafanir til þess að bæta afkomu og eiginfjárstöðu með sama hætti og gert er ráð fyrir í dæmi Landsbankans.
    Það er einnig þáttur í þessu máli að margir bankar á Norðurlöndum hafa á síðustu árum lent í svo miklum erfiðleikum að þeir hafa orðið að fá ríkisaðstoð til að bjarga sér. Vandamál flestra þessara banka eiga rætur að rekja í útlánastefnu á undanförnum árum sem hefur leitt til of mikilla útlána með veði í fasteignum, en verð á fasteignamörkuðum í þessum löndum hefur víða hrunið sem hefur leitt til mikilla afskrifta vegna útlánatapa. Þetta er aðalundirrót hins norræna bankavanda. Að þessu leyti er staða íslensku viðskiptabankanna önnur og að mínu áliti betri. En það er hins vegar ekki óeðlilegt að staða innlánsstofnana hér á landi og aðgerðir til að bæta eiginfjárstöðu þeirra séu bornar saman við þessa atburði annars staðar á Norðurlöndum. Um þetta vil ég segja tvennt:
    Í fyrsta lagi glímum við sem betur fer alls ekki við jafnumfangsmikla erfiðleika. Í öðru lagi er með þeim aðgerðum sem hér er gerð tillaga um tekið á þessu máli með almennari, markvissari og að mínu áliti raunsærri hætti en gert hefur verið annars staðar. Í sumum dæmunum úr bankakreppu Norðurlanda hefur auk framlags úr ríkissjóði, víkjandi lána og í sumum tilfellum yfirtöku ríkisins verið gripið til þess ráðs að

ríkið kaupi slakar eignir bankanna, einkum vonlítil útlán og fasteignir sem þeir kunna að hafa yfirtekið til fullnustu á kröfum en geta svo ekki losað sig við eða haft af neinar leigutekjur. Í staðinn hafa bankarnir fengið reiðufé eða skuldabréf. Ríkið hefur því í raun og veru verið að stofna það sem kalla mætti úrgangssjóði bankakerfisins. Ókosturinn við þessa leið er sá að ríkið situr þar með uppi með fjölda eigna sem sinna þarf og reyna að losna við eftir því sem aðstæður leyfa. Auðvitað eru bankar miklu betur til þess fallnir að sinna verkefnum af þessu tagi auk þess sem slík yfirtaka skuldbindinga frá einum banka en ekki öðrum kynni að valda óþolandi misræmi milli bankastofnana. Og í því tilfelli þegar um ríkisbanka er að ræða tel ég ekki leika neinn vafa á því að eðlilegast sé að eigandinn, ríkið, leggi fram aukið fé til bankans fremur en að yfirtaka eignir af þessu tagi.
    Um þetta mál má að sjálfsögðu margt ræða og hafa á því ýmsa skoðun. Ég held hins vegar að hér sé gerð tillaga um það sem er skynsamlegasta leiðin og bendi á að á undanförnum árum hafa bankar í einkaeigu freistað þess, af því að þeir vissu af því að fram undan væru eiginfjárkröfur á grundvelli BIS-samkomulagsins, að auka sitt eigið fé með útboði lánsfjár til eigenda sinna eða á almennum hlutabréfamarkaði. Þetta hefur m.a. Íslandsbanki gert á liðnu ári.
    Ég tel einnig að það sé hyggileg leið að breyta reglunum um Tryggingarsjóð viðskiptabanka og Tryggingarsjóð sparisjóða þannig að þeir geti tekið lán og veitt síðan bönkum og sparisjóðum víkjandi lán til að bæta eiginfjárstöðu þeirra. Með þessu erum við að byrgja brunninn áður en barnið er dottið ofan í. Þessir sjóðir voru upphaflega settir á laggir fyrst og fremst til að tryggja skil á innstæðum þótt Tryggingarsjóður sparisjóða hafi reyndar, eins og ég hef þegar nefnt, lagaheimildir til ýmissa annarra ráðstafana til að aðstoða sparisjóðina. Að mínu áliti fellur það því vel að hlutverki þessara sjóða, sem er óvenjulegt fyrirkomulag í bankalöggjöf Norðurlanda, að þeim sé gert kleift að styðja við bakið á innlánsstofnunum og þannig hugsanlega forða því að til gjaldþrots komi og að sjóðurinn verði að greiða innstæðueigendum.
    Ríkisstjórnin telur því rétt að grípa nú einnig til almennra aðgerða sem geri það mögulegt að efla eiginfjárstöðu annarra innlánsstofnana án þess að á þessari stundu sé fyrirsjáanleg þörf á því. Í því skyni hefur ríkisstjórnin ákveðið að Tryggingarsjóði viðskiptabanka verði á hliðstæðan hátt og nú gildir um Tryggingarsjóð sparisjóða heimilt að veita viðskiptabönkunum víkjandi lán. Í því skyni verður sjóðunum heimilt að taka lán með ríkisábyrgð að fjárhæð allt að 3.000 millj. kr. samanlagt. Af þessari fjárhæð er fyrir fram gert ráð fyrir því að Tryggingarsjóður viðskiptabanka veiti Landsbankanum allt að 1.000 millj. kr. víkjandi lán.
    Þá er ákveðið að skipa nefnd til að semja tillögur um eflingu þessara sjóða í framtíðinni og hugsanlega sameiningu þeirra og rifja ég í því sambandi upp umræður sem urðu hér við 1. umr. um það bankafrv., frv. til laga um viðskiptabanka og sparisjóði, sem liggur hjá hv. efh.- og viðskn.
    Virðulegi forseti. Þótt flutning þessa frv. kunni að virðast hafa borið brátt að á málið sér langan aðdraganda. Endurskoðendur bankans og bankaeftirlitið hafa um nokkurt skeið verið uggandi yfir eiginfjárvanda Landsbankans. Það er reyndar svo að á sl. hausti töldu stjórnendur bankans og endurskoðendur að staðan væri mun betri, mun skárri en síðar hefur komið í ljós. Síðan í haust hefur verið unnið að því að leita heppilegustu lausna en um leið að kanna mjög vandlega eignastöðu bankanna. Mál af þessu tagi er hins vegar þess eðlis að þegar allir aðilar hafa orðið sammála um hver staðan sé og hver sé besta lausnin, er afar áríðandi að slíkri lausn sé hrint í framkvæmd án tafar. Þess vegna var atburðarásin jafnhröð og raun ber vitni þessi síðustu dægur. Langdregnar opinberar umræður um slíkt mál án þess að það væri á enda kljáð væru málinu sjálfu næsta skaðlegar. Ég held að það sé nægilegt að vitna til þeirrar fjölmiðlaumræðu sem varð síðdegis í gær og á þessum morgni og um hádegið til þess að menn skilji hvað hér er í húfi. Það er þess vegna mjög mikilvægt að Alþingi afgreiði þetta mál með skjótum og öruggum hætti.
    Eftir þessar aðgerðir stendur íslenska bankakerfið traustum fótum. Eiginfjárstaða bankanna er góð og fullnægir í öllum greinum hinum alþjóðlegu kröfum sem til þeirra eru gerðar. Þá standa langflestir sparisjóðanna vel þótt einn þeirra hafi reyndar þurft á fyrirgreiðslu frá Tryggingarsjóði sparisjóða að halda á sl. ári.
    Reyndar er það svo að eiginfjárstaða íslenska bankakerfisins hefur löngum verið traust og traustari en í mörgum nágrannalanda okkar. Menn hafa t.d. á það bent að ein mikilvæg orsök erfiðleika bankanna í Finnlandi hafi einmitt verið sú að eiginfjárstaða þeirra var tiltölulega veik þegar bankakreppan skall á og þeir því illa í stakk búnir að mæta andbyr.
    Þá vil ég geta þess að lausafjárstaða bankakerfisins, lausafjárstaða banka og sparisjóða er mjög góð um þessar mundir. Í því sambandi er ekki síst mikilvægt að lausafjárstaða Landsbankans er betri en oftast áður og bankinn á því alls ekki við greiðsluvanda að etja. Innstæður í Landsbankanum eins og öðrum íslenskum bönkum eru því fullkomlega öruggar.
    Hæstv. forseti. Þær ráðstafanir sem hér eru til umræðu snúast ekki einungis um það að efla eiginfjárstöðu innlánsstofnana og Landsbankans sérstaklega, þær snúast í reynd ekki síður um að að styrkja stöðu atvinnulífsins á þessum óvissutímum. Atvinnulífið og bankakerfið er í raun og veru tvær hliðar á sama peningi. Þessar aðgerðir eru því ekki síst atvinnuöryggismál.
    Virðulegur forseti. Ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.