Eiginfjárstaða innlánsstofnana

131. fundur
Miðvikudaginn 17. mars 1993, kl. 14:30:57 (6094)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Hæstv. viðskrh. hefur lýst fyrirliggjandi frv. sem hér er til umræðu og er óþarfi fyrir mig að fara ofan í saumana á hverri grein fyrir sig. Ég vil lýsa því yfir að þingflokkur Sjálfstfl. hefur komið saman og styður að sjálfsögðu þetta frv. og vill greiða fyrir því að það fái eðlilega, hraða og örugga málsmeðferð á hinu háa Alþingi.
    Það er ljóst að frv. sem hér er til umræðu, sem tekur að sjálfsögðu fyrst og fremst mið af stöðu Landsbankans, á sér nokkurn aðdraganda eins og fram kom í ræðu hæstv. viðskrh. Aðalatriðið er nú að málið fái hraða og örugga meðferð í þinginu þannig að ekki sé nein óvissa um það hver örlög þess verða. Mér finnst ástæða til að þakka hv. stjórnarandstæðingum fyrir að hafa brugðist við með þeim hætti að hægt er að flýta málsmeðferðinni og afgreiða það eins fljótt og mér skilst að fram hafi komið í þeirra svörum við þeirri beiðni í gær. ( Gripið fram í: Í gær?) Í gær og í morgun. Það var í gær talað við formann Framsfl., ef það kemur einhverjum á óvart, um þetta atriði, en í morgun mun hafa verið talað við formenn annarra flokka eða fyrirliða hér á þingi og ég vildi láta það koma fram . . .  ( Gripið fram í: Þetta er einhver misskilningur.) Ég vona að ég megi skilja orð þannig að menn séu sammála um að eðlilegt sé að hraða þessu máli í gegnum þingið og ætlaði að þakka fyrir það. Komi það hins vegar í ljós að formenn einstakra þingflokka hafi aðra skoðun, þá kemur það að sjálfsögðu fram í þeirra máli. En það kæmi mér satt að segja á óvart ef einhver flokksformaðurinn eða einhver flokkurinn teldi það vera farsælt í þessu máli að tefja framgang þess. Ég vona að ég megi ekki skilja frammíkall hv. 8. þm. Reykn. með þeim hætti.
    Eins og allir vita þá hafa verið erfiðleikar í íslensku efnahags- og atvinnulífi að undanförnu og bankarnir hafa allir verið að leggja fé til hliðar til þess að mæta hugsanlegum útlánatöpum sínum. Þetta er auðvitað ákaflega mikilvægt vegna þess að ef þeir gera það ekki þá hlýtur það að lenda fyrr eða síðar á skattgreiðendum. Það kann að vera upplýsandi að greina frá því að samkvæmt upplýsingum frá Íslandsbanka þá lagði bankinn í rekstrarreikningi sínum árið 1990 til hliðar vegna útlánatapa, til afskrifta, 565 millj., 1991 800 millj. kr. en 1992 hvorki meira né minna en 1.512 millj. kr. Og samkvæmt skýrslu bankaeftirlitsins munu um það bil 2.500 millj. kr. hafa verið lagðar til hliðar 1990 og sömuleiðis 1991. Hér er um gífurlega háar fjárhæðir að ræða sem ég hygg að ástæða sé til að leggja áherslu á að mætt hefur verið innan bankakerfisins og sýnir að íslenska bankakerfið hefur brugðist við með þeim hætti sem eðlilegt verður að teljast. Og ég tek það skýrt fram að auðvitað er einungis hér með aðgerðum ríkisstjórnarinnar og Alþingis verið að tryggja að Landsbanki Íslands standist þær kröfur sem til bankastarfsemi eru gerðar samkvæmt reglum, ekki síst alþjóðlegum reglum, svokölluðum BIS-reglum.
    Í 6. gr. frv. er sagt frá því að gerður skuli samningur milli annars vegar viðskrh. og fjmrh. og hins vegar hlutaðeigandi stofnunar sem fær fyrirgreiðslu og þar segir að í samningi þessum skuli geta um það til hvaða ráðstafana innlánsstofnunin skuldbindur sig til að grípa í því skyni að bæta afkomu sína og eiginfjárstöðu.
    Ég vil leggja sérstaka áherslu á þetta því það er mjög mikilvægt frá mínum bæjardyrum séð að þegar slíkur samningur verður gerður verði honum fylgt eftir með þeim hætti sem eðlilegt er því að hér er verið að leggja fram verulegt fé úr ríkissjóði af fjármunum skattgreiðenda til þess að koma rekstrarstöðu og efnahagsstöðu viðkomandi lánastofnunar í viðunandi horf.
    Ég tel að það sé ástæðulaust að lýsa því hér í einstökum dráttum hvaða atriði þarf að leggja áherslu á. En upp í hugann hlýtur þó að koma að lögð sé áhersla á að rekstrinum sé hagrætt og þess gætt í hvívetna að þeir fjármunir sem lagðir verða til viðkomandi innlánsstofnun verði ekki nýttir til þess að samkeppnisstaða hennar verði óeðlilega góð miðað við aðrar stofnanir eftir að fjármagn hefur verið veitt til stofnunarinnar. Þetta segi ég hér vegna þess að það hlýtur að hafa þýðingu í ráðstöfunum eins og þessum að ekki sé verið að leggja fram fjármuni sem beinlínis verða notaðir til þess að styrkja slíka samkeppnisstöðu heldur til þess fyrst og fremst að ná þeim markmiðum sem auðvitað eru í sjálfu sér eðlileg og þarf að ná en það er að viðkomandi innlánsstofnun nái að uppfylla þau skilyrði sem sett eru í alþjóðlegu viðmiðuninni. Þetta vil ég að komi skýrt fram. Ég tel að ráðherra, bæði viðskrh. og þó einkum og sér í lagi fjmrh., eigi að sjá til þess að þessu sé fylgt eftir. Með þessu er ekki verið að segja að stjórnvöld ætli að stilla upp stefnu fyrir viðkomandi lánastofnun heldur er það að sjálfsögðu á borði viðkomandi stofnana hjá stjórnendum hennar, yfirleitt bankastjórum. En það er nauðsynlegt að þeim stefnumiðum sem þar koma fram sé fylgt eftir í hvívetna.
    Ég held, virðulegi forseti, að það sé ástæðulaust fyrir mig að hafa mikið fleiri orð um þetta frv. Ég held þó í lokin að það sé rétt að geta um það að þetta hefur að sjálfsögðu áhrif á ríkissjóð eins og gefur auga leið. Tveir milljarðar sem færðir verða til bankans, ef af þessum lögum verður og þeim fylgt, þýða auðvitað það að staða ríkissjóðs rýrnar að sama skapi. Það liggur ekki fyrir nú í hvaða formi þessi ráðstöfun verður gerð en gera má ráð fyrir því að það verði gert með framlagi, t.d. skuldabréfa sem ríkið mundi þá greiða í tímans rás, t.d. á nokkurra ára bili eftir nokkur ár. Aðalatriðið er að hér er verið að styrkja eiginfjárstöðu bankans en ekki lausafjárstöðu innlánsstofnana eins og margoft hefur verið rætt um.
    Það hefur þess vegna þýðingu og það er nú alkunnugt mál hér á Alþingi hvort verið er að tala um greiðsluhalla eða reikningshalla í þessu sambandi. Það er ljóst að ef ekki er greitt með peningum þá verður ekki um aukinn greiðsluhalla að ræða á þessu ári en það breytir ekki því að reikningshallinn, niðurstaðan í ríkisreikningi verður a.m.k. 2 milljörðum lakari en ella. Þetta þýðir þegar lauslega er litið til ríkissjóðs að gera má ráð fyrir því að reikningslegur halli á ríkissjóði verður talsverður á þessu ári og talsvert meiri en á sl. ári eða a.m.k. 10 milljarðar, ef ekki hærri tala, og sýnir að ríkissjóður hefur rýrari möguleika en áður til að nota útgjaldastefnu til að mynda til að fara af stað með framkvæmdir eða að nota í öðru skyni. Ég leggja áherslu á þetta vegna þess að nú er eins og menn vita nokkuð sótt á ríkissjóð um að auka framkvæmdir og draga úr tekjum hans eða auka útgjöld á öðrum sviðum. Þá ber að hafa í huga að þessi ráðstöfun sem hér mun eiga sér stað er auðvitað ráðstöfun sem er gerð til að styrkja atvinnulífið í þessu landi því öllum er ljóst að Landsbankinn er stærsti og öflugasti banki landsmanna, öflugasti atvinnuvegabanki landsmanna og það er ekkert betra sem ríkissjóður getur gert en styrkja stöðu þess banka, styrkja stöðu bankastarfseminnar í landinu og skapa það traust sem þarf að vera því það er frumskilyrði þess að hér í landinu sé eðlilegt og heilbrigt atvinnulíf.