Eiginfjárstaða innlánsstofnana

131. fundur
Miðvikudaginn 17. mars 1993, kl. 14:42:32 (6095)

     Steingrímur Hermannsson :
    Virðulegi forseti. Það er rétt sem kom fram hjá hæstv. fjmrh. að við framsóknarmenn munum styðja það að eiginfjárstaða Landsbankans verði styrkt. Ég skýrði frá því reyndar þegar í gær. Ég vil hins vegar taka það skýrt fram að við höfum fyrirvara um einstakar greinar þessa frv. og teljum að þær þurfi að skoða mjög vandlega í nefnd. En ég ætla ekki að ræða það hér. Nefndin hefur reyndar þegar fengið frv. til meðferðar.
    Ég hlýt hins vegar að gagnrýna mjög hvernig á þessu máli hefur verið haldið. Ég tel að það hafi verið þyrlað upp moldryki sem hafi verið algerlega óþarft og geti jafnvel enn, þó úr því hafi nokkuð dregið, skaðað þessa mikilvægu lánastofnun mjög. Ég mun því í ræðu minni hér fyrst og fremst leitast við að draga úr þeim margs konar misskilningi sem komið hefur fram og kom mjög greinilega fram t.d. í sumum fjölmiðlum í gær og kemur fram t.d. í öðru stjórnarblaðanna í morgun.
    Ég tel að það hefði verið hægt að halda á þessum málum á allt annan máta og miklu eðlilegri og vísa þar m.a. strax til þeirra viðræðna sem, eins og kom fram hjá hæstv. viðskrh., hafa farið fram, að við héldum í fullri tiltrú á milli bankastjóra og viðskrh. og Seðlabankans og trúðum satt að segja að væru enn í gangi. Það var skýrt frá því að það var sett á fót nefnd í samráði við Seðlabankann til að skoða stöðu Landsbankans betur og hvernig hann ætti að mæta þeim nýju skilyrðum sem eru í þjóðfélaginu. Okkur hafði verið tjáð að það væri líklegt að sú nefnd skilaði áliti í maí. Ég vil gjarnan spyrja hæstv. viðskrh. hvort ekki sé rétt að hann hafi átt fund með bankastjórum Landsbankans í gærmorgun. Þeim fundi lauk þannig að hæstv. viðskrh. sagði sjálfur að það lægi ekki svo á, það væru nokkrir dagar til stefnu.
    Ég tel að það hafi ekki legið svo á. Landsbankinn er mjög öflug stofnun. Arðsemi af rekstri Landsbankans var á síðasta ári um 30% eða um 1,8 milljarðar kr. áður en hann lagði fé í afskriftasjóð og greiddi u.þ.b. 580 millj. kr. til ríkissjóðs í ýmsum opinberum gjöldum. Það er sannarlega ekki illa rekin stofnun sem hefur 30% arð.
    Sömuleiðis er rétt að geta þess að samkvæmt fyrri mæling á eiginfjárstöðu bankans þar sem krafist er að eigið fé sé ekki lægra en 5% þá mun eiginfjárstaða bankans nú vera yfir 6%. Hvað hefur þá valdið öllum þessum látum sem nú hafa orðið og ég ætla í stuttu máli að rekja?
    Í fyrsta lagi, eins og komið hefur fram, hafa verið settar nýjar kröfur um mat á eiginfjárstöðu innlánsstofnana. Ég er út af fyrir sig ekki að gagnrýna það að nauðsynlegt er að samræma mat á eiginfjárstöðu bankanna í því alþjóðlega umhverfi sem bankarnir starfa nú í. En Seðlabanka og ég hygg hæstv. viðskrh. hefur mjög oft verið á það bent í viðræðum bankastjóra og starfsmanna bankans á sl. ári og reyndar þessu að þessar reglur eru afar óhagkvæmar Landsbankanum eins og reyndar hefur komið fram í þessari umræðu hér nú og hæstv. viðskrh. sjálfur rakti.
    Af hverju eru þessar BIS-reglur svokallaðar svo óhagstæðar bankanum? Ég ætla aðeins að fara hér í fáum orðum yfir greinargerð sem ég hef fengið frá Landsbankanum um þessi mál, svokallaðar BIS-reglur. Samkvæmt BIS-reglunum þá er krafa um eigið fé hækkuð úr 5% í 8% en til móts er gengið hins vegar með því að lækka áhættugrunninn að vissu mati, þ.e. samnefnarann í þeirri jöfnu sem er notuð til að reikna út eigið fé bankans. En áhættugrunnurinn er lækkaður samkvæmt ákveðnum reglum. Þ.e., það er mismunandi mat á því hver áhættan er mikil í hinum ýmsu lánaflokkum. Áhættuflokkarnir eru fimm. Flokkur með 0% áhættustuðul og má þá draga að öllu leyti frá áhættugrunninum, 20% áhættustuðli, 50% áhættustuðli og 100%, þ.e. 100% áhætta eins og talað er um. Í 0% áhættugrunni eru peningaeign bankans og kröfur á ríki og seðlabanka innan OECD, kröfur á ríki utan OECD og seðlabanka með vissum takmörkunum. Áhættustuðull 20%, þar eru kröfur á fjölþjóðaþróunarbanka, kröfur á sveitarfélög innan OECD, kröfur á innlánsstofnanir innan OECD, kröfur á opinber fyrirtæki og stofnanir innan OECD sem eru rekin án hagnaðarvonar og keppa ekki við einkaaðila. Áhættustuðull 50%, þá er leyfilegt að draga helminginn af útlánum þess flokks frá áhættugrunninum og kröfur eru tryggðar með veði í íbúðarhúsnæði innan 80% fasteignamats. Áhættustuðull 100%, allar aðrar eignir. Þ.e. öll veð í atvinnurekstri landsmanna eru 100% áhætta, öll. Þegar menn hugleiða að Landsbankinn er með 70% af sjávarútveginum í viðskiptum, 70%, og Landsbankinn hefur undanfarin ár gengið mjög ötullega fram í því að tryggja sig vel með því að taka veð í fiskiskipum en fiskiskipin okkar nýju sem eru að koma til landsins með fullan kvóta eru 100% áhætta. Eða t.d. afurðalán sem veitt eru út á fullunna vöru hjá okkar samtökum, við skulum segja SH eða Íslenskum sjávarafurðum, eru jafnvel á leiðinni til útlanda til öruggs kaupanda, eru 100% áhætta.

    Ég held að það hljóti allir að sjá að þetta veldur náttúrlega Landsbankanum gífurlega miklum erfiðleikum. Nú segja menn eflaust: Þetta eru alþjóðlegar reglur og svo framvegis og ekkert við þessu að gera. Jú, þetta eru alþjóðlegar reglur en samkvæmt grein sem ég hef fengið í hendurnar úr alþjóðlegu tímariti þar sem þetta er rakið þá er vissulega lögð áhersla á að hinar ýmsu þjóðir hafa útfært þessar reglur með tilliti til aðstæðna í sínu landi. T.d. er þar upplýst að franski seðlabankinn kallar 0% áhættu lán til nýlendna sem áður voru franskar. Ég hefði nú talið það æðimikla áhættu að lána þessum þróunarlöndum. Hér erum við hins vegar kaþólskari en páfinn og af því að EB hefur kosið að segja: Það er 100% áhætta að veita lán til ryðdallanna sem liggja í höfnunum þar úti, og ég áfellist þá ekki fyrir það, þá segjum við líka að það sé 100% áhætta að veita lán til þess atvinnuvegar sem stendur undir öllu íslensku þjóðfélagi, sjávarútvegsins. Og eins og ég segi: Það er margsinnis búið að vekja athygli á þessu. Eins og endurskoðandi bankans upplýsti í morgun, aðspurður, hann sagði: Jú, ég er búinn að gera það mjög oft, ég hef fengið mjög kaldar móttökur og mér hefur verið sagt: Þessu verður ekki breytt því það er svo mikil áhætta að veita lán til íslenskra atvinnuvega. Jú, ég get skilið að seðlabankinn segi það þegar við völd er ríkisstjórn sem byrjar með að segja: Nú ætlum við engin afskipti að hafa af atvinnulífinu og segir það enn og ætlar ekkert að gera til að styrkja þess starfsgrundvöll. Það er líklega eina ríkisstjórnin í heiminum í dag sem þannig heldur á þeim málum. ( SvG: Ríkisstjórnin er áhætta.) Já, hún er áhætta, það er rétt og það er verið að hengja hér bakara fyrir smið. Það er ríkisstjórnina sem á að taka á hvalbeinið en ekki bankann. En hvað um það, þetta er ein af ástæðunum.
    Og af þessari ástæðu, um síðustu áramót, þá var talið að það yrði að taka víkjandi lán til að ná þessum svokölluðu BIS-reglum, þ.e. ná 8% í eiginfjárstöðu bankans. Og bankaráðinu var sagt að það væri þar með gert.
    Ég tel satt að segja að það hljóti að vera skylda eigenda bankans að gera bankanum kleift að standast þessar nýju reglur sem eigendur bankans með Seðlabankann í farteskinu hafa ákveðið að innleiða hér, það er skylda þeirra. Að sjálfsögðu er ekkert við því að segja og reyndar ber að þakka að það er gert.
    Nú, þetta er ein ástæðan fyrir því að þessu moldryki öllu er nú þyrlað upp sem ég hélt satt að segja að væri liðið hjá. Að vísu sagði hæstv. viðskrh. áðan, ég hygg að það hafi verið hann frekar en fjmrh., að það væri kosið að færa þessa eiginfjárstöðu upp í 9% og eigendurnir um það. Ég geri sannarlega ekki minnstu athugasemd við það.
    Ég vil aðeins taka fram, og geri það með leyfi endurskoðanda, að lesa hér hugleiðingar endurskoðanda bankans um þetta atriði. Hann segir hér, með leyfi forseta:
    ,,Ef reglur þær sem gilda um eiginfjárútreikning eru virtar virðast þær bankanum um margt andsnúnar. Þannig er eigið fé bankans lækkað um 574 millj. kr., sem nemur hlut hans í hlutdeildarfélögum þótt þar sé að finna nokkrar arðbærustu eignir hans.``
    Ég þarf að skjóta hér inn í, ég gat þess ekki áðan, að það er bannað samkvæmt nýju reglunum að telja til eigin fjár hlutdeild í sumum mestu gróðafyrirtækjum þessa lands eins og VISA af því að Landsbankinn á þar ekki meiri hluta. Og síðan segir endurskoðandinn, með leyfi forseta:
    ,,Bankinn hefur leytast við að lækka þessa fjárhæð með því að selja eignarhlut sinn í Útflutningslánasjóði og einnig hefur verið gerð úttekt á stöðu Lýsingar hf. og Lindar hf., sem gefa til kynna að bankinn eigi kost á að minnka fjárbindingar sínar enn frekar. Að því er varðar nefnarann, áhættugrunninn, eru reglurnar andsnúar þeim lánastofnunum sem sinnt hafa atvinnulífinu. Þeim mun meira af útlánum sem tryggð eru af því opinbera og þeim mun meira sem tryggt er með veði í íbúðarhúsnæði eða fjölnota atvinnuhúsnæði þeim mun lægri mælist áhættugrunnurinn og áhættuhlutfallið hækkar samsvarandi. Eigi eiginfjárhlutfall bankans að hækka verður hann bæði að leitast við að minnka umfang sitt og breyta áherslum í útlánamálum. Þrátt fyrir það sem hér hefur verið rakið breytir það ekki þeirri staðreynd hvernig reglurnar hljóða í dag og við því verður að bregðast. Sú spurning gerist hins vegar æ áleitnari í okkar huga hvar það muni enda ef bankar draga markvisst úr útlánum til atvinnulífsins til að bæta stöðu sína við eiginfjárútreikning.``
    Á þetta hafa hæstv. ráðherrar ekkert minnst. Þeir fengu þó þetta fyrir viku, þessi skýrsla kom 10. mars sl., og ég kem síðar að meðferð þess máls alls. Er þetta ekki eitthvert áhyggjuefni? Er ekki ástæða til að skoða hvað verður hér um atvinnulífið ef Landsbankinn bregst við þessu eins og lagt er upp í hendurnar á honum, að hætta nú að veita afurðalán, hætta að veita flýtilán hjá Fiskveiðasjóði? Reyndar mætti maður spyrja: Er ekki ætlunin að meta Fiskveiðasjóð samkvæmt þessum nýju BIS-reglum og hvar stendur hann þá? Hann er að vísu ekki banki. Það væri ástæða til að gera það. Hvar ætli hann standi þá, sem á að heita sterkasti sjóður landsmanna og er það. Ég hef fulla trú á sjávarútvegi þessa lands.
    Enn fremur segir hér, með leyfi forseta:
    ,,Skoða þarf vandlega allar mögulegar leiðir til útbóta, t.d. hvað annað unnt er að gera strax til að bæta úr eiginfjárhlutfalli án viðbótarframlags, hvað raunhæft sé að ætla bankanum sjálfum að leysa á næstu árum og hvað þurfi að koma af nýju fjármagni.``
    Þetta héldum við í einfeldni okkar að væri verið að gera, að skoða hvað væri hægt að gera af hálfu bankans sjálfs.
    En þá er það hinn þátturinn sem krefst þess að eigið fé bankans sé aukið og þar með afskriftareikningur. Ársreikningur bankans var gerður eins og venja er og ítarlega um hann rætt. Þegar hann kom

til lokaframlags í bankaráði þá var upplýst að endurskoðendur teldu þá 1,2 milljarða kr. sem lagðir höfðu verið í afskriftareikning of lítið og vildu að bætt yrði við 330 millj. kr. og það var að sjálfsögðu gert. Þeir vöktu líka athygli á því að athugun þeirra á, maður getur raunar sagt ástandinu í þjóðfélaginu því að bankinn er ekkert annað en spegilmynd af því, ástandi hinna ýmsu útlána bankans og lántakenda bankans þá væri nauðsynlegt á árinu 1993 að auka enn verulega í afskriftasjóði eða líklega um 160 millj. kr. á mánuði. Það er vitanlega gífurleg upphæð og var ekki séð hvernig það yrði gert. Það var meginástæða fyrir því að farið var að ræða um það við Seðlabankann. Mér er ekki heimilt að upplýsa hvað er á þessari úttekt endurskoðendanna. En þeir segjast telja á grundvelli hennar að í afskriftasjóðnum þurfi að vera á milli 4 og 6 milljarðar kr. til að mæta þessum hugsanlegu skakkaföllum. Ég legg mikla áherslu á það --- hugsanlegu skakkaföllum. Þarna eru fjölmörg fyrirtæki sem ég veit ekki betur en séu í ágætum rekstri í dag og ég vona að komi aldrei til að það þurfi að afskrifa neitt hjá þeim. En ég ætla ekki að deila þar við dómarann, við þessa endurskoðendur, sem þekkja þetta miklu betur en ég. Ég tel sjálfsagt að leitast við að verða við þessu. Og ég fagna því að ríkisstjórnin hefur ákveðið að gera það og bakka þannig bankann upp, ef ég má orða það svo.
    En mér finnst dálítið skrýtið sumt sem er sagt í þessu sambandi. Það er reynt að skella skuldinni á fiskeldið. Vitanlega hefur tjón af fiskeldinu verið töluvert. En í þessari úttekt endurskoðenda er talið að það þurfi að afskrifa 851 millj. kr. vegna fiskeldis. Það er nú ekki nema brot af þessu. Það er jafnvel verið að nefna loðdýraræktina í þessum tillögum endurskoðenda og --- ég tel mér frjálst að nefna það þar sem ég nefni engin fyrirtæki --- er talið að það þurfi að afskrifa 111 millj. kr. Er það ástæðan fyrir því að svona þarf að hlaupa undir bagga? Það er jafnvel ýjað að því að samvinnuhreyfingin væri sökudólgur. Sambandið hefur verið nefnt í þessu sambandi. Ég gæti trúað því að sú hefði verið ástæðan fyrir ári. Þá var talað um að það þyrfti jafnvel að setja í sjóð til að mæta hugsanlegu allt að 2 milljarða tapi af Sambandinu. Vita menn hvað þeir telja að tapið verði nú, þessir endurskoðendur? Hvað halda menn? 5 millj. Þessi aðgerð hefur að mínu mati tekist alveg sérstaklega vel og varla er ástæða til að setja, hvað var það kallað, hæstv. fjmrh., tilsjónarmenn, á bankann til að fylgjast með svo frábærri aðgerð sem ég kalla svo og þar var gripið til.
    Ég hef farið yfir allan listann og reynt að gera mér grein fyrir hvað það er mikið sem talið er í hættu hjá samvinnufélögum í landinu. Það er samtals að því ég fæ séð, í fljótu bragði að vísu, 25 millj. kr., svo ekki er ástæðan þar. En ég nefni þetta af því að mér finnst vera látið að þessu liggja að þar sé m.a. grunnurinn að þeim vandræðum sem nú eru.
    Það er líka talað um að þetta sé fortíðarvandi o.s.frv. Ég ræddi bæði við Þjóðhagsstofnun og bankann um það t.d. hver er lánastaða sjávarútvegsins sem hefur, það er ekki því að leyna, verið hvað erfiðust. Útlán til sjávarútvegs 1989 voru 28 milljarðar 338 millj. kr., 1990 lækka þau niður í 25 milljarða 976 millj. kr., en haldast nokkurn veginn í stað 1991 en eru nú vaxandi og eru árið 1992 komin upp í 26 milljarða 258 millj. kr. Þjóðhagsstofnun segir mér að afkoma sjávarútvegsins 1990 hafi verið með því besta allan áratuginn, svipuð og hún var árið 1985. Reyndar er mér sagt að þá hafi skuldir sjávarútvegsins aðeins lækkað. Afkoma iðnaðarins var einnig sú besta sem hún var allan áratuginn. Svo það er, hygg ég, alveg ljóst að þá var komið a.m.k. á rétt ról, rétta braut, í þessum málum sem við erum að ræða nú með lækkandi skuldum þessara atvinnuvega. Staðreyndin er náttúrlega sú að það hefur keyrt um þverbak núna í tvö ár. Menn skulu bara hugleiða hvort ekki megi rekja það að einhverju leyti til þess ástands sem hér hefur skapast með hávaxtastefnunni m.a. og því afskiptaleysi sem ríkisstjórnin hefur sett sér að skuli vera af stöðu atvinnulífsins.
    Reyndar er það dálítið fróðlegt að skoða hér hvað endurskoðandi segir um þessa versnandi afkomu, með leyfi forseta. Þar segir hann:
    ,,Leggst margt á eitt í því sambandi, svo sem almennt lakari afkoma lánþega, veðsettar eignir hafa fallið í verði og að lánin hafa að sama skapi vaxið vegna verðtryggingar, hárra raunvaxta og greiðsluvandræða.``
    Það skyldi nú ekki vera að greiðsluvandræðin stafi að verulegu leyti af háum raunvöxtum? En hæstv. fjmrh. gerði sér lítið fyrir og hækkaði þá með einu pennastrki í upphafi síns starfsferils um einn þriðja eða um það bil. Og það eru náttúrlega ískyggilegar fréttir sem við fáum af skuldastöðu heimilanna. Það birtist nú í Fréttabréfi Samvinnubankans að skuldastaða heimilanna sem hlutfall af ráðstöfunartekjum sé orðin hærri hér en í nokkru öðru landi. Og samkvæmt upplýsingum sem ég fékk frá Þjóðhagsstofnun eru skuldir heimilanna nú í ár taldar um 255 milljarðar kr. en er áætlað að verði á þessu ári 280 milljarðar kr. Það skyldi nú ekki vera að þessi gífurlega vaxtabyrði sem hér er sé það sem þessu veldur? Menn verða að athuga það að þessar skuldir eru að meðaltali á hvern íbúa um 1 millj. Þær eru að meðaltali um 4 millj. á meðalfjölskyldu sem er náttúrlega miklu meira að meðaltali ef teknar eru þær fjölskyldur sem skulda því sumar skulda ekki neitt. Þetta er miklu meira áhyggjuefni heldur en komið hefur fram hingað til. Ég nefni þetta í leiðinni því eflaust þurfa bankarnir að koma sér upp varasjóði til að mæta þessu ef þeir eignast flest íbúðarhúsin í landinu og þau eru að vísu vonandi einhvers virði en það er ekki góð leið út úr þessum vanda.
    Ég get út af fyrir sig tekið undir það að fara má ýmsar aðrar leiðir í rekstri banka, því hef ég kynnst. En ég hef gífurlegar áhyggjur af því hvert stefnir í sambandi við innlánsvexti sem bankarnir eru

að binda sér. Ég held ég fari rétt með að Landsbankinn er með eitthvað í kringum 7--8 milljarða á bankabréfum sem eru með föstum innlánsvöxtum 9%. Hvar ætli það þekkist í heiminum að greiða 9% innlánsvexti? Og ég get sagt það hér að mér brá þegar ég sá að yfirborgun á vöxtum í Landsbankanum nemur 156 millj. samkvæmt ársreikningi. Hér hafa menn spurt: Hver er yfirborgun á vöxtum? Það er samkeppni um innlánsfé stórfjármagnseigenda sem nota sér skortinn og ganga á milli og láta bjóða í sitt innlánsfé. Kannski lífeyrissjóðirnir, kannski Aðalverktakar, menn sem eiga stórt og mikið innlánsfé. Ég segi fyrir mitt leyti að ég mun beita mér gegn því að tekið verði þátt í því kapphlaupi. Það getur vel orðið til þess að Landsbankinn hafi minna innlánsfé. En það er best að leyfa hinum að axla þær byrðar.
    Ég held nefnilega að með þessu vaxtakapphlaupi séum við komnir út í gífurleg vandræði að vissu leyti og inn á götu sem er afar erfitt að snúa frá. Bankinn hefur líka að sjálfsögðu orðið við þeirri ósk bankaráðs að leggja fyrir ítarlegar tillögur um það hvernig eigi að vinna að meiri hagræðingu í bankanum. T.d. er það staðreynd samkvæmt athugun endurskoðanda að það eru fleiri starfsmenn í Landsbankanum miðað við veltu heldur en í öðrum bönkum. Það er vitanlega áhyggjuefni. Og það hafa verið gerðar ýmsar róttækar breytingar sem eiga að verða til hagræðingar. En ég hlýt þó að verja bankastjórana að því leyti til að þeir hafa verið ragir að segja upp starfsfólki og vilja láta það koma eðlilega miðað við starfsaldur. Það eru líka fleiri ástæður til þess. Bankinn eða bankastarfsmenn njóta ekki greiðslna úr Atvinnuleysistryggingasjóði og þó borgar bankinn í sjóðinn. Það er í mörg ár búið að leita eftir að þessu verði breytt. Og það er ábyrgðarhluti að senda starfsmenn bankans í atvinnuleysi þegar þeir njóta ekki greiðslna úr Atvinnuleysistryggingasjóði. Þetta kemur m.a. fram í þessari skýrslu endurskoðandans og hann bendir á að þetta er óhagræði sem stendur gegn því að bankinn geti að vissu leyti hagrætt með því að fækka starfsfólki.
    Bankinn hefur að sjálfsögðu orðið við þeirri beiðni að leggja fyrir ríkisstjórn hugmyndir um það hvernig lagfæra megi ýmislegt í rekstri bankans. Hún var til meðferðar í Seðlabankanum og ég held ég hafi sagt áðan að það var talað um að skilað yrði áliti í maímánuði.
    Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu þótt hér mætti fjöldamargt annað nefna. Ég legg hins vegar áherslu á að það sem hér er verið að gera mun ekki endast lengi ef umhverfið er óbreytt, ef sjávarútvegurinn er rekinn með 8--10% halla, ef bókstaflega ekkert er gert til að draga úr atvinnuleysinu, þá mun fljótlega halla undan fæti því miður, það má bara alls ekki gerast.
    Ég hef gagnrýnt það hvernig á þessum málum hefur verið haldið. Ég hlýt að svara því hvernig ég tel að hefði verið hægt að halda á þessu máli. Ríkisstjórn og Seðlabanka hafa verið gerð glögg grein fyrir þessu ástandi öllu eins og ég hef rakið, hvert þessar BIS-reglur stefna. Skýrsla endurskoðenda, þar með ríkisendurskoðanda kom fyrir viku, kom 10. mars og var strax sýnd ríkisstjórninni og það var strax farið að ræða hana. Það er gripið til svona sem sumir kalla flugeldasýningar, m.a. ég, án þess að bankastjórarnir viti nokkuð af því að því ég best veit. Mér er tilkynnt það kl. eitt í gær, ég þakka fyrir það, mér þótti gott að fá það ekki alveg óvænt. En var ekki hægt að gera þetta á einhvern annan máta? Viðskrh. minntist á að til umræðu hefði komið að ríkissjóður yfirtæki eitthvað af eignum bankans, og ja, maður getur kallað það að fryst yrðu einhver útlán bankans sem eru hættulegust talin og bankinn fengi í staðinn skuldabréf. Ég tel að þetta hefði verið miklu, miklu skynsamlegri aðgerð heldur en nú er gerð. Ég tel reyndar að langsamlega skynsamlegast hefði verið að eigandi bankans hefði bara gefið út fréttatilkynningu og sagt: Eigandanum, ríkissjóði, er fullkomlega ljóst að bankinn á erfitt með að mæta BIS-reglunum, honum er fullkomlega ljóst að ástandið í atvinnulífinu er þannig að það mun lenda mjög illa á þessum stærsta banka landsins. Eigandanum er hins vegar fullkomlega ljóst að bankinn stendur mjög sterkt, hann er með góða eiginfjárstöðu og er að afskrifa eins og hann frekast getur. En til frekara öryggis þá hefur ríkissjóður ákveðið að standa á bak við víkjandi lán úr Seðlabanka sem er þegar búið að veita og mun tryggja það í framtíðinni að bankinn geti staðið við sínar skuldbindingar. Þetta hefði verið hreinleg leið og svo hefðu menn tekið þennan tíma eins og endurskoðendur leggja til á árinu til að athuga hvernig það verður gert. Þetta hefði ekki þurft að vekja upp þá umræðu sem varð í gær í fjölmiðlum sem ég óttast að stórskaði bankann.
    Mig langar til að spyrja viðskrh. að því: Hvernig hugsar hann sér að koma þessu framlagi yfir á afskriftareikning bankans? Ég sé ekki betur en að það verði að fara í gegnum reikning bankans sem þýðir það að þá verður að gera bankann upp með halla á síðasta ári upp á 2--3 milljarða kr. Og ég spyr líka viðskrh.: Er honum ekki kunnugt um það að ýmis þau lán sem bankinn hefur fengið erlendis eru með þeirri kvöð að þau megi endurskoða ef mikill halli verður á bankanum? Það er engin ástæða til að sýna halla á bankanum. Ég sagði áðan að hann kom fyrir skatta og afskriftir með afgang upp á 1,8 milljarða. Ég vildi gjarnan vita hvernig viðskrh. hefur hugsað sér þessa framkvæmd.
    Ég ætla ekki að lengja mál mitt. Ég vona sannarlega að það takist að leiðrétta þann misskilning sem orðið hefur af þessari fljótfærnislegu og vanhugsuðu aðgerð ríkisstjórnarinnar. Ég vona svo sannarlega að það takist. Og ég met það að það kom fram í fréttum í gær m.a. hjá hæstv. forsrh., að Landsbankinn væri langt frá því að vera gjaldþrota. Það mátti skilja svo í einni útvarpsstöðinni að hann væri nánast orðinn annar Sjóvinnslubanki, en ég met að það var þó leiðrétt. Og mér fannst reyndar í gærkvöldi eins og ráðherrar væru farnir að átta sig á því sem þeir væru að gera. Ég vil veita a.m.k. minn stuðning og vona að aðrir geri það til þess að leiðrétta þann misskilning sem hér hefur orðið. Þessu verður að sjálfsögðu líklega ekki breytt nema nefndinni takist að fá fram breytingu á þessu og hv. Alþingi en ég vona að ég geti lagst á eitt með það að skýra rétta stöðu Landsbankans.