Eiginfjárstaða innlánsstofnana

131. fundur
Miðvikudaginn 17. mars 1993, kl. 15:10:26 (6096)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er margt í ræðu hv. þm. sem gefst tækifæri til að svara síðar en það eru þó tvö atriði sem ég vil gjarnan fá að ræða hér í örstuttu andsvari.
    Í fyrsta lagi sagði hv. þm. að sá sem hér stendur hafi hækkað raunvexti með einu pennastriki um einn þriðja. Auðvitað veit hv. þm. mætavel að vextir á markaði á þeim tíma sem stjórnarskiptin urðu voru með allt öðrum hætti og það eru hinir eiginlegu raunverulegu vextir. Nafnvextir skuldabréfa sem ekki seljast hafa auðviðta enga þýðingu. Einmitt á þeim tíma sem ég tók við embætti þá streymdi fé úr ríkissjóði og skuld ríkissjóðs var þá tíu milljarðar við Seðlabankann, ég endurtek, tíu milljarðar króna vegna þess að peningar streymdu út af því að engir keyptu skuldabréfin. Þetta veit hv. þm. því að hann var forsrh. í þeirri ríkisstjórn sem þá fór með völd. Þannig að ég bið nú hv. þm. um að vanda aðeins betur þegar hann er að skýra frá því sem hann telur vera staðreyndir í þessu máli.
    Í öðru lagi minntist hann á moldviðri. Ég skal fúslega taka undir það með honum að fjölmiðlamoldviðrið sem af þessu hlaust var auðvitað mjög slæmt. Ég var mjög hissa á því t.d. að á leið minni á ríkisstjórnarfundinn í gær kl. rétt fyrir fjögur þá var hv. þm. í fjölmiðlum að skýra frá efni ríkisstjórnarfundarins og fór þar þeim orðum um það efni að það hlaut auðvitað að vekja upp nokkuð sérkennilegar umræður í þjóðfélaginu.
    Nú ætla ég ekki að halda því fram að það sé hv. þm. sem fékk að vita um þetta kl. þrettán í gær sem hafi sagt fjölmiðlum frá þessu en hann var sá fyrsti sem a.m.k. fjallaði um þetta mál opinberlega og það áður en ríkisstjórnin hafði haft nokkur tök á því. Mér finnst að hv. þm. mætti a.m.k., án þess að ég geri honum upp nokkrar sakir, líta örlítið í eigin barm annað slagið þegar fjallað er um moldviðri því það kann vel að vera að nokkru valdi sá sem upphafinu veldur. ( Gripið fram í: Upphaflega.)