Eiginfjárstaða innlánsstofnana

131. fundur
Miðvikudaginn 17. mars 1993, kl. 16:45:27 (6106)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það kann að greiða fyrir umræðum að gefa hér örstutt svör við fyrirspurnum sem komu fram af hjá hv. síðasta ræðumanni. Í fyrsta lagi vil ég taka það fram að það liggur ekki fyrir hvaða samningur verði gerður milli ríkisins og Landsbankans. Til að gefa dæmi um það hvernig slíkur samningur gæti verið varðandi fjármagnstilfærsur, þá gæti hann verið á þá leið að ríkið afhenti Landsbankanum skuldabréf sem síðan yrði greitt af á einhverju tilteknu bili. Það mundi þýða að útgreiðslur úr ríkissjóði mundu dreifast á nokkur ár. Hins vegar rýrir það auðvitað stöðu ríkissjóðs til þess að takast á við önnur verkefni. Með því er ekki verið að senda nein önnur skilaboð en þau að staða ríkissjóðs versnar við þessa aðgerð.
    Í öðru lagi er spurt um forsendur fyrir vaxtalækkun. Það eru bankaráðin sem ákveða vexti hjá bönkunum, þar á meðal yfirvexti sem hafa verið nokkuð til umræðu hér í dag. Ef um vaxtalækkun er að ræða, þá gæti auðvitað vaxtalækkunin verið bæði á innláns- og útlánshliðinni hjá bönkunum og ég tel að það séu fullar forsendur til þess alveg burt séð frá þessari aðgerð sem hér er verið að ræða um. Ef hins vegar spurningin gekk út á það hvort bankinn mundi sér nýta þennan aukna styrk til þess að lækka vextina, þá tel ég að svo eigi ekki að vera því að þar með væri fjármagnið notað til þess að styrkja óeðlilega samkeppnisstöðu gagnvart öðrum bönkum. Fjármagnið á að nota fyrst og fremst til þess að styrkja bankann og hagræða í bankanum og gera hann betur hæfan til þess að starfa með eðlilegum hætti í framtíðinni.
    Í þriðja lagi er ég sammála hv. ræðumanni um það að hraðinn og fjölmiðlafárið eru auðvitað hlutir sem við hljótum að ræða hérna. Ríkisstjórnin sagði ekki eitt einasta orð um þetta mál fyrr en að loknum ríkisstjórnarfundi kl. að verða 7 í gærkvöldi, en þá höfðu aðrir rætt um málið með þeim hætti að . . .   (Gripið fram í.) það var auðvitað nauðsynlegt að flýta málinu sem allra fyrst.