Eiginfjárstaða innlánsstofnana

131. fundur
Miðvikudaginn 17. mars 1993, kl. 16:52:31 (6110)

     Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég er nú ekki sammála hæstv. viðskrh. um það að atburðarásin í gær sé eitthvert aukaatriði í þessu máli. Það skiptir miklu máli fyrir banka hvernig að svona aðgerðum er staðið og hvort það lítur þannig út út á við að um eitthvert neyðarástand sé að ræða. Það skiptir auðvitað máli bæði fyrir sparifjárfeigendur sem eiga sína peninga í bankanum og fyrir erlenda viðskiptavini og þá sem bankinn á viðskipti við og tekur lán hjá, hvort verið er að skapa óvissu, ,,panik`` eins og ég komst að orði hér áðan, og því er ég alls ekki sammála því að þarna sé um aukaatriði að ræða. Það á eftir að koma í ljós hvort þessi hamagangur í ríkisstjórninni hefur einhverjar alvarlegar afleiðingar fyrir bankann. Ég vona svo sannarlega að svo verði ekki, en hér hefur að mínum dómi verið undarlega að málum staðið.