Eiginfjárstaða innlánsstofnana

131. fundur
Miðvikudaginn 17. mars 1993, kl. 17:27:24 (6116)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi langar mig til þess að minnast hér á samskipti Landsbankans og SÍS sem hv. þm. gerði að umræðuefni. Ef ég tók rétt eftir í fréttum í gærkvöldi og eins vegna þekkingar minnar á málinu, þá er fyrst og fremst átt við það að viðskipti Landsbankans og SÍS eru þess efnis að þau hafa bundið mikið fé Landsbankans. Það er rétt sem kom fram hjá hv. þm. að ég held að það sé ógerlegt að átta sig á á þessari stundu hvernig þeim viðskiptum mun lykta.
    Varðandi kaup á Samvinnubankanum sem áttu sér stað rétt áður en ég kom í bankaráðið, þá get ég staðfest að því miður var ekki fylgt nægjanlega eftir þeim áætlunum sem fyrir lágu um að fækka útibúum og ná fram hagræðingu í rekstri sem var forsenda þess að kaupin gætu staðið undir þeim væntingum sem ætlað var. Hefði bankinn verið hlutafélag, þá hefði þetta verið auðveldara verk því að það var fyrst og fremst hlutur Sambandsins sem hefði þá þurft að kaupa en annað fé hefði getað bæst við eigið fé bankans.
    Varðandi 6. gr. sem hv. þm. minntist á þá er eftirlit, ef hann kýs að kalla það svo, samkomulagsatriði samkvæmt þeirri grein og auðvitað er það skylda fjmrn. að fylgja eftir þeim áætlunum sem bankinn lofar að grípa til og fylgja. Ég tek það fram að í 5. gr. er verið að takmarka ríkisábyrgðina við 3 milljarða vegna tryggingarsjóðsins. Loks tel ég að það standist fullkomlega sem sagt hefur verið að heilbrigt peningakerfi er undirstaða þess að atvinnulífið geti starfað. Og það vita auðvitað allir sem fylgst hafa með og lesið sögu að sú bylting sem varð fyrir atvinnulífið þegar bankakerfið kom til sögunnar var slík að það er öllum ljóst að heilbrigt og gott banka- og peningakerfi er undirstaða þess að blómlegt atvinnulíf geti verið til.