Eiginfjárstaða innlánsstofnana

131. fundur
Miðvikudaginn 17. mars 1993, kl. 17:29:47 (6117)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ekki vil ég draga úr gildi þess að hér sé heilbrigt bankakerfi. En ég ítreka það sem ég sagði hér áðan að það er til lítils ef atvinnulífið stendur á þeim brauðfótum sem það stendur núna og þar er meinsemdin. Og eins og ég rakti hér áðan, þá stöndum við núna frammi fyrir afskriftum í atvinnulífinu vegna mjög bágrar stöðu þess á seinni hluta síðasta árs. Það er kjarninn og sannleikurinn í málinu.
    Varðandi 6. gr. er það mjög sérkennilegt samkomulag milli aðila sem er þannig að staðið að annar aðilinn nýtir sér afl sitt til þess að lögfesta samkomulagið í því horfi sem hann telur sig þurfa að hafa það. Og ég ítreka það sem ég sagði hér áður að stjórnunarlega séð er það mjög óæskilegt að fara að bæta viðbótareftirlits- eða tilsjónaraðilum við.
    Að lokum varðandi Samvinnubankann ítreka ég það sem kom fram frá fulltrúum bankans á fundi okkar í efh.- og viðskn. í morgun að kaup bankans hefðu tryggt tryggingarlega stöðu bankans. Ég vil einnig nefna það að þær einu skuldbindingar þess utan sem bankinn er að afskrifa núna er sú viðskiptavild sem þar var keypt með upp á um það bil ef ég man rétt 50 eða 51 millj. á ári.