Eiginfjárstaða innlánsstofnana

131. fundur
Miðvikudaginn 17. mars 1993, kl. 17:31:46 (6118)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi varðandi samning á milli ríkis og banka, þá held ég að öllum hljóti að vera ljóst að þegar ríkið leggur banka til 2 milljarða úr ríkissjóði, þá sé það skylda ríkisstjórnarinnar frekar en annað að fylgjast með því að sá banki fylgi eftir sínum eigin áætlunum vegna þess að málið er viðkvæmt gagnvart samkeppnisaðilum bankans. Menn verða að átta sig á því. Og ég tel þess vegna að það sé nauðsynlegt að halda þessari 6. gr. inni í lögunum verði þetta frv. að lögum.
    Í öðru lagi verðum við að átta okkur á því varðandi atvinnulífið að atvinnulífið og atvinnufyrirtækin i sjávarútvegi voru stórkostlega skuldsett eins og hv. þm. Steingrímur Hermannsson rakti í sinni ræðu og þegar framleiðslan síðan dettur niður, þá skapast þau vandamál sem orðið hafa og skuldirnar sýna sig þá verða of miklar.
    Í þriðja lagi um Samvinnubankann og kaup á honum, þá ber að geta þess að það átti að fylgja því eftir hraðar með fækkun útibúa og jafnvel sölu þeirra til annarra bankastofnana, en því miður gekk það ekki eins hratt eftir og æskilegt hefði verið sem hefur valdið nokkrum erfiðleikum í rekstri Landsbankans.