Eiginfjárstaða innlánsstofnana

131. fundur
Miðvikudaginn 17. mars 1993, kl. 18:21:22 (6124)

     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Málnotkun hæstv. forsrh. kemur manni nú enn á óvart. Ég hef aldrei áður heyrt tekið svona til orða að menn geti hrokkið af hjörum, en hvað um það. Ég held að það sem hæstv. forsrh. sagði hér áðan séu öfugmæli dagsins um aðferðir eigin ríkisstjórnar. Ég held að það séu örugglega öfugmæli dagsins. Það er nú bara þannig og það vita allir, hæstv. forsrh., nema þá ríkisstjórnin og þeir sem hafa verið uppteknir með gestum sínum í dag að gjörvallur íslenski fjármálaheimurinn er forundrandi á þessum atburðum. Það er bara þannig. Stjórnendur Landsbankans gátu ekki leynt því að þeir hefðu gersamlega orðið agndofa yfir atburðum gærdagsins frá og með hádegi, agndofa, forundrandi. ( Forsrh.: Stjórnin.) Stjórnendur Landsbankans nema þá kannski starfandi bankaráðsformaður sem fékk að vera í settinu með forsrh. í sjónvarpinu í gær. Bankaeftirlitið gaf þessu ekki háa einkunn fyrr en það var þá þumalskrúfað til að skipta um skoðun sídegis sem kann að vera. Mér er vel kunnugt um það að stærstu innlendu viðskiptavinir Landsbankans höfðu ekki hugmynd um það sem var að gerast. Þeir vissu ekki hvaðan á þá stóð veðrið þegar þeir fengu um það fréttir í gegnum fjölmiðla að til slíkra neyðarráðstafana ætti að grípa gagnvart þeirra viðskiptabanka. Aðilum sem eiga milljarðaviðskipti við Landsbankann hefur ekki verið mjög rótt í dag eða í gær þegar þessar fréttar birtust. Ég endurtek það sem ég hef áður sagt: Það þýðir náttúrlega ekki fyrir hæstv. forsrh. að láta eins og kjáni og reyna að halda því fram að það beri heppilega að að Landsbankinn skuli ekki sjálfur geta með einum eða neinum hætti upplýst stærstu viðskiptavini sína erlenda og innlenda um það sem er í vændum. Það þýðir ekki fyrir hæstv. forsrh. að reyna að halda því fram að þetta séu einhver vinnubrögð til fyrirmyndar. Það er svo fráleitt, hæstv. forsrh, að ég er alveg sannfærður um að það er sjálfum þér, hæstv. forsrh., fyrir verstu að vera að endurtaka þau öfugmæli.