Eiginfjárstaða innlánsstofnana

131. fundur
Miðvikudaginn 17. mars 1993, kl. 18:30:48 (6127)

     Eggert Haukdal (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hér hefur verið umræða í allan dag um þetta mál og það hefur enginn, ekki fyrr en ég talaði, þar á meðal ekki hv. 8. þm. Reykn., Ólafur Ragnar Grímsson, velt upp í umræðunni þeim höfuðvanda sem við stöndum frammi fyrir og rakið ástæðurnar hvers vegna við stöndum í þessum sporum. Árið 1979 voru sett Ólafslög fyrir forgöngu Framsóknar, Alþb. og Alþfl. Vegna þeirra atburða stöndum við frammi fyrir þessari stöðu í dag. Með þeirri stefnu sem fylgt hefur verið síðan er búið að kollsigla atvinnufyrirtækjunum og heimilunum í landinu og flokkur hv. þm. og hv. þm. ber á þessu drjúga ábyrgð. Flokkur hans hefur komið til valda í ríkisstjórn, en hefur ekki hreyft hönd né fót við lánskjaravísitölunni. Hins vegar hefur hann setið í ríkisstjórnum og sett lög á að kaupgjald má ekki hækka. En fjármagnið og lánin mega vaða upp úr öllu valdi samkvæmt vísitölunni. Er ekki orðið mál fyrir flokk hv. þm., fleiri flokka og okkur alla hér, hv. alþm., að gera okkur grein fyrir hvers vegna íslensk þjóð stendur í þessum erfiðleikum í dag þegar skuldir hafa hrannast upp um tugi og hundruð milljóna? Í ræðu hv. þm. Jóhannesar Geirs Sigurgeirssonar var vakin athygli á að á 6 ára ráðherratíð hæstv. viðskrh. hafa verið fluttar að mig minnir um 80 milljarðar frá skuldurum, þ.e. atvinnulífinu og heimilunum, til þeirra sem eiga fjármagnið vegna þess að hæstv. ráðherra hefur alla sína ráðherratíð haldið uppi margföldu vaxtastigi umfram það sem átti að vera, þar á meðal stundum í samráði við hv. þm. Ólaf Ragnar Grímsson, sem sat með honum í ríkisstjórn og gerði hvorugur athugasemdir þótt vextir væru í himinhæðum.