Eiginfjárstaða innlánsstofnana

131. fundur
Miðvikudaginn 17. mars 1993, kl. 19:13:14 (6139)

     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það eru vissulega tíðindi þegar fjmrh. opnar á það undir lok umræðunnar að menn fari að koma sér saman um það hvernig eigi að túlka BIS-reglurnar á Íslandi. Það höfðu ýmsir sagt í dag að væri eitt af þeim verkefnum sem við blasa. Ráðherrarnir hafa hins vegar ekki viljað ræða það að í nánast flestum nágrannalanda okkar taka seðlabankar og stjórnvöld sér ákveðið frjálsræði í því hvernig BIS-reglurnar skuli túlkaðar og dæmið af Frökkum, sem hér hefur verið nefnt, er einkar skylt í þeim efnum. Það væri auðvitað hægt að komast hjá þessu öllu saman að verulegu leyti með því að setjast niður og koma sér saman um túlkun BIS-reglnanna gagnvart íslenskum sjávarútvegi sem við vitum öll að er ekki 100% áhættuatvinnugrein heldur stendur undir 70% af gjaldeyristekjum íslensku þjóðarinnar. Hvernig er hægt að dæma atvinnuveg í bankakerfinu, sem stendur undir 70% af gjaldeyristekjum þjóðarinnar, sem 100% áhættugrein? Það er auðvitað fáránlegt. En það er gert samkvæmt þeim BIS-reglum sem hér eru lagðar til grundvallar. Auðvitað er það rétt hjá hæstv. fjmrh. að með því að breyta því mati þá kæmi Íslandsbanki til með að styrkja stöðu sína eins og Landsbankinn og það væri kannski það skynsamlegasta sem ráðherrarnir gætu gert í þessum efnum og hafa allan okkar stuðning til þess.
    Hæstv. fjmrh. er að segja að ég sé að gera það tortryggilegt að samkvæmt þessu frv. verði heimilað að láta 2 milljarða í Íslandsbanka. Það er heimilað samkvæmt frv. Ef það er svo fáránleg kenning þá

verð ég fyrstur manna til að fagna því ef ráðherrann tekur höndum saman með okkur um að breyta frv. á þann veg að það verði ekki hægt. Ég beindi fyrirspurn til ráðherrans um það hvort hann vildi ekki breyta frv. á þann veg og hann hefur sem betur fer ekki svarað því enn. Ég vona að hann hugsi málið. Þannig getum við náð saman um það að afgreiða frá Alþingi frv. sem kemur í veg fyrir það að hæstv. viðskrh., Jón Sigurðsson, geti afhent kolkrabbanum 2 milljarða af almannafé.