Eiginfjárstaða innlánsstofnana

131. fundur
Miðvikudaginn 17. mars 1993, kl. 19:20:02 (6141)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Hæstv. forseti. Í þessum löngu umræðum finnst mér það athyglisvert að í máli hv. þingmanna Framsfl. og Kvennalista, sem hér hafa talað, hefur komið fram eindreginn skilningur á og því reyndar fagnað að fram skuli komin ákveðin tillaga um lausn á eiginfjárvanda Landsbankans. Ég vil þakka fyrir þann stuðning og skilning sem þarna hefur komið fram.
    Því miður hefur mér virst að afstaða þingmanna Alþb., sem hér hafa talað, hafi verið miklu óskýrari. Í þessu máli hafa þeir slegið úr og í, talað þannig að kannski þyrfti ekkert að gera, þessar BIS-reglur væru líklega ekki réttar og út af fyrir sig þyrfti enga peninga í málið. Mér þykir þetta leitt.
    Um hinn málsþáttinn, þann sem snýr að tryggingarsjóðum innlánsstofnana, Tryggingarsjóði viðskiptabanka og Tryggingarsjóði sparisjóða eru skoðanir skiptar. Tillagan sem gerð er í frv. um eflingu þessara sjóða er að sjálfsögðu um almennan viðbúnað til að auka traust á bankakerfinu ef á það skyldi reyna. Þetta er alls ekki tillaga eins og hv. 8. þm. Reykn., Ólafur Ragnar Grímsson, þrástagast á um það sem hann kallar ríkisstyrk til Íslandsbanka, enda hefur Íslandsbanki ekki þörf fyrir slíkan styrk eins og fram hefur komið í umræðunum. Þetta er hins vegar tillaga um það að hafa fyrirhyggju og almennan viðbúnað á óvissutímum sem er trygging fyrir allt bankakerfið. Enda þótt á þessum langa fundi hafi að mínu áliti of stór hluti farið í umræðurnar um atburðarás og tímasetningu funda á einu dægri, síðdeginu í gær, þá ættum við ekki að gleyma því að þetta mál er ekkert dægurmál, ekki eins dægurs og ekki nokkurra dægra, heldur er þetta mikilvægt hagsmunamál fyrir alla alþýðu í landinu. Þetta er spurning um traust á bankakerfi okkar, og um atvinnuöryggi í landinu. Þess vegna er mjög mikilvægt að Alþingi taki röggsamlega á því, vandlega og yfirvegað. Ég veit af reynslunni að hv. efh.- og viðskn. mun taka þannig á málinu.