Börn í áhættuhópum

132. fundur
Fimmtudaginn 18. mars 1993, kl. 10:55:03 (6151)

     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Eins og þegar hefur komið fram í svörum mínum við fsp. hv. þm. á þskj. 679 tóku lög um vernd barna og ungmenna gildi 1. jan. 1993. Frá þeim tíma hefur verið unnið jafnt og þétt að því að fylgja þeim úr hlaði af hálfu ráðuneytisins í þeirri forgangsröð sem talin hefur verið eðlilegust.
    Varðandi samningu þeirrar reglugerðar sem hér er spurt um vil ég geta þess að ég hef nýlega skipað nefnd til að semja allar þær reglugerðir sem setja á með hinum nýju lögum. Nefndin er þannig skipuð: Þórhildur Líndal lögfræðingur, formaður, Guðjón Bjarnason, fyrrv. framkvæmdastjóri Barnaverndarráðs Íslands, Anni Haugen, yfirmaður fjölskyldudeildar Félagsmálastofnunar Reykjavíkur, Sólveig Reynisdóttir félagsmálastjóri, Akranesi, og Benedikt Bogason, formaður barnaverndarnefndar Reykjavíkur. Svo vitnað sé í skipunarbréf nefndarinnar, þá er um eftirtaldar reglugerðir að ræða:
    1. Reglugerð um starfshætti barnaverndarráðs.
    2. Reglugerð um samvinnu barnaverndaryfirvalda við aðrar stofnanir. Við samningu þessarar reglugerðar skal hafa samráð við heilbrrn., menntmrn. og dómsmrn.
    3. Reglugerð um fyrirkomulag skráningar barna í áhættuhópum og meðferð upplýsingar samkvæmt ákvæðum 20. gr. laganna.
    4. Reglugerð um að útvega barni eða fjölskyldu tilsjónarmann, persónulegan ráðgjafa eða stuðningsfjölskyldu.
    5. Reglugerð skv. 39. gr. laganna um framkvæmd laganna varðandi fóstur og jafnframt skal nefndin láta útbúa sérstök eyðuböð fyrir fóstursamninga.
    6. Reglugerð skv. 52. gr. laganna að því er varðar sumarbúðir og sumardvalarheimili.
    Svo sem fram kemur í skipunarbréfi nefndarinnar er gert ráð fyrir að haft sé samráð við dómsmrn. við samningu þeirrar reglugerðar sem spurt er um. Hér er um mjög mikilvæga reglugerð að ræða þar sem með öruggri skráningu barna í áhættuhópi öðlast barnaverndarnefndir nauðsynlega yfirsýn. Slík yfirsýn er forsenda þess að unnt sé að sinna skipulögðum forvörnum auk þess sem hún gefur kost á markvissari ákvörðunum og eykur líkur á samfelldri málsmeðferð í málefnum einstakra barna.
    Um kynningu á efni laganna fyrir barnaverndarnefndum og starfsmönnum þeirra svo sem fram hefur komið í svari mínu við fsp. hv. þm. á þskj. 679 hefur ráðuneytið staðið fyrir námskeiðum um framkvæmd laga um félagsþjónustu sveitarfélaga víða um land þar sem meginatriði nýju barnaverndarlaganna hafa verið kynnt.
    Eins og kunnugt er fara félagsmálanefndir í kaupstöðum yfirleitt jafnframt með hlutverk barnaverndarnefnda. Jafnframt hefur ráðuneytið ritað öllum sveitarstjórnum umburðarbréf þar sem breytt skipan barnaverndarmála hefur verið kynnt. Áform eru uppi um frekari kynningu og vil ég vísa til svara minna við fsp. á þskj. 679 í þeim efnum.